Mótmæla íþróttamenn?

Ólympíueldurinn berst nú hratt um heiminn. Leið hans er stytt í hverri borginni á fætur annarri og öll athyglin beinist að mótmælunum sem fylgja eldinum en ekki þeirri táknrænu og hátíðlegu athöfn sem alla jafna felst í ferð ólympíueldsins. Mikið hefur verið rætt um að stjórnmálamenn mæti ekki á opnunar- og lokahátíð leikanna til að mótmæla mannréttindabrotum Kínverja, en hvað geta íþróttamennirnir gert ef eitthvað til að tjá afstöðu sína?

Ólympíueldurinn berst nú hratt um heiminn. Leið hans er stytt í hverri borginni á fætur annarri og öll athyglin beinist að mótmælunum sem fylgja eldinum en ekki þeirri táknrænu og hátíðlegu athöfn sem alla jafna felst í ferð ólympíueldsins.

Þó ég hafi mikla samúð með málstað þeirra sem berjast gegn mannréttindabrotum í Kína og bættri stöðu Tíbet og Tíbetbúa þá magnast sú samúð ekki neitt við þau mótmæli sem nú fylgja ólympíueldinum um heiminn. Mótmælin í París og London voru á köflum ofbeldisfull og vanvirtu það tákn sem ólympíueldurinn stendur fyrir í hugum manna.

Ég leyfi mér að fullyrða að þessi mótmæli væru mun betur sótt og vektu ekki síður athygli ef þau væru friðsamari og kyndillinn væri borinn alla þá leið sem honum er ætlað að fara. Hinn almenni borgari veigrar sér við því að mæta í mótmæli ef búast má við handalögmálum.

Að sjálfsögðu eiga stjórnvöld um allan heim og íslensk stjórnvöld þar á meðal að mótmæla mannréttindabrotum Kínverja og það af miklu meiri hörku en gert hefur verið hingað til. Ein augljós leið til þess er eins og bent hefur verið á að ráðamenn mæti ekki á ólympíuleikana, alltént ekki í formlegum erindagjörðum. Það yrði mikið áfall fyrir kommúnistastjórnina í Kína ef ráðmenn um heim allan veldu þessa táknrænu leið til að mótmæla mannréttindabrotum Kínverja.

Það er til mikils ætlast að krefjast þess af íþróttamönnum að þeir taki þátt í mótmælunum með því að mæta ekki til leikanna. Enda ólympíuleikar oft hátindur í ferli íþróttamanns, eitthvað sem hann hefur unnið sleitulaust að um árabil og jafnvel alla sína ævi. En íþróttamenn gætu engu að síður lagt sitt að mörkum þegar kemur að leikunum í sumar. Íþróttamenn gætu til að mynda borið einhvern aukahlut í fánalitum Tíbet, sammælst um að vera með borða, hárband, handklæði eða hvað sem er annað í táknrænum lit eða með táknrænni mynd sem stæði fyrir mótmæli við mannréttindabrotum Kínverja. Það væri þó hvers íþróttamanns fyrir sig að ákveða hvort eða hvernig hann tæki þátt í slíkum táknrænum, friðsælum en jafnframt áhrifaríkum mótmælum.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.