Nýtt fæðingarorlof

Ljóst er að markmið um að jafna stöðu kynjanna á atvinnumarkaði og hvetja feður til að taka meiri þátt í barnauppeldinu á fyrsta árinu hefur ekki að öllu leyti náðst með lögunum um fæðingarorlof og staðan oftar en ekki sú að móðirin er heima í 6 mánuði og faðirinn í 3 mánuði.

Tvö af meginmarkmiðum laga um fæðingarorlof voru að auka jafnrétti á vinnumarkaðnum og stuðla að því að börn fengju notið samvista bæði við móður og föður á fyrstu mánuðum ævi sinnar. Af þessum sökum var við setningu laganna ekki sett neitt hámark á þær greiðslur sem foreldrar fengu úr fæðingarorlofssjóði. Þá var sömuleiðis lögbundið að hvort foreldri hefði óframseljanlegan rétt til 3 mánaða fæðingarorlofs en sameiginlega höfðu þau 3 mánuði (samtals 9).

Árið 2004 var orðið ljóst að fæðingarorlofssjóður gat ekki staðið undir því að ekkert hámark væri á greiðslum úr sjóðnum og var þá lögleitt hámark sem nú stendur í kr. 535.700 á mánuði.

Ljóst er að markmið um að jafna stöðu kynjanna á atvinnumarkaði og hvetja feður til að taka meiri þátt í barnauppeldinu á fyrsta árinu hefur ekki að öllu leyti náðst staðan oftar en ekki sú að móðirin er heima í 6 mánuði (nýtur greiðslna úr sjóðnum þann tíma) og faðirinn í 3 mánuði.

Þá hefur æ síðan verið umdeilt að foreldrar hafi ekki fullt val um það hvernig þeir ráðstafa fæðingarorlofinu sín á milli. Þá var það og er sömuleiðis umdeilt að foreldrum séu greiddar á sjötta hundrað þúsund mánaðarlega úr sameiginlegum sjóðum.

Ein leið til að samræma framangreind sjónarmið er að foreldrum verði frjálst að skipta orlofinu á milli sín eins og þau vilja, þ.e. annað foreldrið getur verið í 9 mánuði og hitt engan eða þau geta skipt því jafnt á milli sín í fjóran og hálfan mánuði hvort. Þetta verði hins vegar bundið því að hámarksgreiðslur úr sjóðnum (80% heildarlauna á mánuði) sé aðeins til staðar í fjóran og hálfan mánuði fyrir hvort foreldri. Vilji annað foreldrið þannig vera í fæðingarorlofi í 9 mánuði er því það frjálst en í fjóran og hálfan mánuði fær það 80% launa úr sjóðnum en hina fjóran og hálfan fær það lágmarksgreiðslur úr sjóðnum.

Með slíkri breytingu er nægileg hvatning til staðar fyrir (hærra launaða) feður að fara í fæðingarorlof og þannig reynt að mæta því markmiði laganna að jafna rétt kynjanna á vinnumarkaðnum og að leyfa barninu að njóta samvista við bæði foreldri. Hins vegar er að sama skapi ekki tekið fyrir rétt foreldra til að velja hvernig þau haga samvistum við barn sitt og tekið tillit til mismunandi aðstæðna og stöðu foreldra. Miðað við núverandi aðstæður mundi þetta sömuleiðis lækka greiðslur úr sjóðnum til þeirra foreldra (mæðra) sem annars mundu nýta sér að fullu réttinn til að vera í 6 mánaða orlofi á hámarksgreiðslum.

Með þessari leið má ná markmiðunum með setningu frumvarpsins en jafnframt vernda rétt foreldra til að velja.

Það er stefnumál núverandi ríkisstjórnar að lengja fæðingarorlofið í áföngum og er markmiðið væntanlega að fæðingarorlofið verði 12 mánuðir. Við þær breytingar ætti ríkisstjórnin að hafa framangreind sjónarmið í huga.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.