Tekjustofnum samgangna þarf að breyta

Síhækkandi eldsneytisverð vekur gleði hjá fáum, ekki síst í ljósi þess að stór hluti þess rennur í vasa ríkissjóðs á formi bensín- og olíugjalds. Gleðin minnkar enn þegar það rennur upp fyrir fólki að gjaldið rennur ekki nema að hluta til uppbyggingar og rekstur samgöngukerfisins. En í stað þess að hlaupa til og lækka þessi gjöld ætti ríkið að beita sér fyrir því að hraða nauðsynlegri umbyltingu á kerfi tekjustofna til samgangna, öllum til hagsbóta.

Það hefur aldrei verið neitt sérstakt gleðiefni að standa við pumpuna og fylgjast með verðinu rjúka upp um hvern hundraðkallinn á fætur öðrum. þessi reynsla er hins vegar farin að verða verulega íþyngjandi með þeim hækkunum sem orðið hafa á eldsneyti á síðustu mánuðum. Eldsneyti eru verulegur útgjaldaliður á langflestum heimilum.

Sífellt fleiri bíleigendur virðast einnig meira meðvitaðir um þá staðreynd að stór hluti gjaldsins er eldsneytisskattur sem ríkið innheimtir, ekki bara til uppbyggingar og reksturs vegakerfisins, heldur til fjármögnunar annarra verkefna á vegum þess. Þó er það svo að áform um framkvæmdir í vegamálum er sjaldnast tryggt nægt brautargengi í gegnum þá tekjustofna sem málaflokknum eru markaðir (1).

Það er því ósköp eðlileg krafa skattgreiðenda að skattlagningin sé í samræmi við þau útgjöld sem í þennan tiltekna málaflokk rennur, fremur en að hluti þess sé notað til að greiða niður ríkisútgjöld í ótengdum verkefnum. Þær raddir verða því – eðlilega – sífellt háværari að olíu- og bensíngjald verði lækkað í ljósi þeirra eldsneytishækkana sem orðið hafa.

Það væri, þrátt fyrir ósanngirnina sem í þessu felst, ekki skynsamlegt að hlaupa upp til handa og fóta og lækka gjaldið. Þess í stað ættu stjórnvöld að flýta nauðsynlegri breytingu á tekjustofnum samgangna í heild sinni. Bensín- og olíugjald eru, af ýmsum ástæðum, úrelt fyrirkomulag til tekjuöflunar í málaflokknum, eins og kemur ágætlega fram í skýrslu sem unnin var fyrir samgönguráðuneytið fyrir þremur árum síðan (1).

Þar kemur berlega fram að bensín- og olíugjald er bein skattlagning á ákveðna vöru sem er þó í fæstum tilfellum góður fulltrúi þeirrar notkunar sem um ræðir, þ.e. notkun á vegamannvirkjum. Bensín- og olíugjaldi er ætlað að sinna mjög svo margþættu hlutverki, bæði til beinna fjárfestinga í vegamálum með góðan markaðsgrundvöll, niðurgreiðslu til verkefna með augljósa markaðsbresti (Héðinsfjarðargöng) og bæta upp fyrir óæskileg ytri áhrif á borð við mengun og hávaða. Úr verður ein allsherjar útfletjun og kostnaðardreifing sem sumir hagnast á, sumir koma út á sléttu, en aðrir tapa. Auk þess eru blikur á lofti um framtíð bensín og olíu sem eldsneytisgjafa yfir höfuð.

Gjaldtaka á umferð þarf að taka tillit til beins kostnaðar af þeim þáttum sem henni fylgir. Svo sem uppbyggingu, rekstri, umferðarslysum, umferðartöfum, mengun og öðrum ytri áhrifum. Og gjaldtakan ætti að taka mið af þeim stað og þeirri stund sem notkunin á sér stað, enda veldur notkunin mismiklum kostnaði eftir því um hvað ræðir. Margar af þeim leiðum sem nefndar eru í skýrslunni eru framtíðarmússík sem ekki er raunhæft að beita að sinni. En það eru ýmsar augljósar, útsjónasamar og raunhæfar leiðir til að taka skref í rétta átt. Vonandi sjá stjórnvöld sér hag í að hefja undirbúning þeirra hið fyrsta. Þannig verður fyrr hægt að taka upp nútímalegri og réttlátari aðferðir til fjáröflunar í samgöngukerfinu, öllum til hagsbóta.

Heimild:
(1) Gjaldtaka og einkaframkvæmd til fjármögnunar samgöngumannvirkja. Samgönguráðuneytið 2005.

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.