Stríð á netinu

George Bush bandaríkjaforseti kom fram í ítarlegu viðtali í fréttaskýringaþætti CBS sjónvarpsstöðvarinnar 60 mínútum á sunnudagskvöld. Þar varði hann m.a. þá ákvörðun sína að auka enn frekar í herliði bandamanna í Írak auk áætlana sinna um að auka fjárframlög vegna fjölgunarinnar og sáttaumleitana trúarhópanna í landinu. Í viðtalinu lagði Bush sérstaka áherslu á að fyrirbyggja þyrfti að Íranir næðu áhrifum á írösku landssvæði auk þess sem óásættanlegt væri að bandarískt herlið hyrfi frá Írak fyrr en þolanlegum stöðugleika væri náð. Fyrirætlanir Bush forseta fara um margt gegn niðurstöðu Baker-Hamilton skýrslunnar sem lagði til að fljótlega yrði farið að huga að brottflutningi herliðs frá Írak.

Bandaríkjamenn eru taldir hafa eytt hátt í 30 billjörðum íslenskra króna í hnattrænt stríð sitt gegn hryðjuverkum. Meginþorri þeirrar upphæðar hefur farið í stríðsreksturinn í Írak. Yfir 3000 bandarískir hermenn hafa þar látið lífið auk mikils fjölda óbreyttra borgara. Stríðið gerist þannig óvinsælla með hverjum degi. Þar spilar inn í hið mikla aðgengi sem venjulegir bandarískir borgarar hafa af upplýsingum um stríðsreksturinn.
Bandarískir fjölmiðlar eru uppfullir af fréttum af stríðrekstrinum á degi hverjum.

Það má segja að hið nöturlega myndbandi af aftöku Saddam Hussein sem komst í dreifingu í lok árs hafi fumlaust endurspeglað hin hráa raunveruleika Íraksstríðsins. Farsímaupptökur af aftöku einræðisherrans ollu ugg á Vesturlöndum.

Það er ekkert nýtt að Vesturlandabúar fái nasaþefinn af stríðsátökum heim í stofu. Þannig var fyrra Persaflóastríði lýst sem fyrsta stríðinu í beinni útsendingu. Þar áður hafði myndefni Víetnamstríðsins og Seinni heimsstyrjaldar auðvitað borist óbreyttum borgurum á meðan átökum stóð.

En raunveruleiki Íraksstríðsins virðist stundum allt annar og meiri.
Á vefsíðunni YouTube má sjá myndbönd sem bandarískir hermenn hafa tekið í stríðsátökum við uppreisnarmenn í Írak. Þarna er ekki um hátæknibúnað stóru sjónvarpsfréttastöðvanna að ræða. Jafnvel bara linsur lítilla stafrænna myndavéla sem mæna út í átökin steinsnar frá þeim. Þessar sömu myndavélar mynda jafnframt daglegt líf
bandarískra hermanna. Draga upp myndir af lífi óbreyttra borgara í Írak. Þetta myndefni má nálgast án nokkura vandkvæða. Í mörgum tilfellum er engu bætt við eða breytt. Engri tónlist skeytt undir. Einungis hrár veruleiki átakanna. Í athugasemdakerfum vefsíðunnar fara fram líflegar umræður um gagn og nauðsyn stríðsins.

Á netinu er ofgnótt fjölmiðlunar sem dregur upp mynd af ástandinu í Írak
Þannig mátti lesa strax í gærkvöldi að 83 írakar létu lífið í átökum í landinu í gær, mánudaginn 15.janúar. Sú frétt birtist á netinu við sólarlag í Írak. Þar er jafnframt að finna fréttaskýringu á því hvar í landinu og með hvaða hætti þessir einstaklingar létu lífið.

Á vefsetrum stóru fréttamiðlana vestanhafs má jafnan finna gagnagrunn yfir alla þá hermenn Bandaríkjanna sem látið hafa lífið frá upphafi átakanna. Hvaðan þeir voru. Við hvaða skyldustörf þeir létu lífið.
Tengt er yfir á frekara efni þar sem finna má upplýsingar og viðtöl við þeirra nánustu.
Það má forvitnast um hver áhugamál viðkomandi voru. Hvaða íþrótt þeir stunduðu í framhaldsskóla. Hver var uppáhalds maturinn þeirra.

Í kringum átökin í Írak hafa spunnist þúsund litlar sögur sem sífellt eru fréttaefni í bandarískum netmiðlum.

Þannig segir ein sagan af bandarískum hermanni sem féll í Írak. Sá skrifaði nýfæddum syni sínum dagbók á meðan dvölinni í Írak stóð. Bókin sem telur um 200 síður er blanda af heilræðum föðurs til sonar auk ýmissa fróðleiksmola um hann sjálfan sem hann taldi að sonurinn myndi forvitnast um þegar hann yxi úr grasi. Nú er rætt um að koma bókinni út.

Þótt erfitt sé að henda reiður á fjölda Íraka sem látið hafa lífið í ófriðnum er stríðið þó orðið það skrásettasta í veraldarsögunni. En þó farsímaupptöka af aftöku einræðisherrans Husseins eða frásagnir af hetjudáðum einstakra bandarískra hermanna dragi ekki endilega upp raunsanna mynd af eðli átakanna litast afstaða margra til stríðsins af slíku efni. Veruleiki stríðsins á netinu er þannig að verða einn eitt áhyggjuefni Bush forseta í að halda almenningsálitinu sér í hag.

Latest posts by Jóhann Alfreð Kristinsson (see all)