Húrra fyrir sjálfstæði Bjarkar

Björk sýndi bæði sjálfstæði og ómælt hugrekki beint fyrir framan nefið á kínverskri öryggisgæslu á tónleikum sínum í Sjanghæ fyrir rúmri viku síðan. Hún kunni að nýta tækifærið sem hún fékk til að leggja málstað lið sem engir vestrænir leiðtogar hafa þorað að taka af skarið með.

Björk Guðmundsdóttir gerði mörgum tónleikagestum bylt við í Sjanghæ um þarsíðustu helgi þegar hún helgaði Tíbet lagið Declare Independece með því að hrópa „Tíbet, Tíbet, Tíbet“ og „Raise your flag“ undir lok tónleikanna.

Það duldist engum hver tilgangur Bjarkar var með því að skírskota til Tíbet í lagi sem fjallar um sjálfstæðisyfirlýsingar. Tíbetar hafa þurft að lúta stjórn Kínverja frá 1951 en meirihluti þeirra kjósa fullt sjálfstæði frá Kína eða aukna sjálfstjórn a.m.k. í menningar- og trúmálum. Barátta Tíbeta fyrir aukinni sjálfstjórn hefur verið mjög torsótt, þeir hafa lítinn stuðning fengið frá alþjóðasamfélaginu og engin vestræn ríki hafa t.a.m. boðið Kínverjum birginn og tekið upp málstað Tíbeta af fullri alvöru.

Þó Björk sé ekki fyrsti listamaðurinn til að beita list sinni í þágu málstaðar Tíbeta þá ber tiltækið henni vitni um ríka réttlætiskennd og hugrekki sem fáir hafa sýnt af sér í seinni tíð þegar kemur að samskiptum við kínversk yfirvöld. Hún hefur einnig góðan skilning á pólitískum áhrifamætti gjörða sinna og þess hverju frægir listamenn geta áorkað. Þó yfirlýsing af þessu tagi verði Tíbetum kannski ekki til mikillar hjálpar þá dreifast nú fréttir af tónleikum Bjarkar vítt og breitt um internetið og kastljósið beinist að Tíbet og málstað þess.

Kínversk stjórnvöld ætla sér nú að herða reglur um tónleikahald erlendra listamanna til þess að koma í veg fyrir álíka uppákomur í framtíðinni. Björk verður að öllum líkindum ekki heimilað frekara tónleikahald í Kína í bráð en hún hefur án nokkurs vafa gert sér grein fyrir afleiðingum gjörða sinna og líklega hefur það skipt hana litlu.

Björk sýndi mikið sjálfstæði og ómælt hugrekki beint fyrir framan nefið á kínverskri öryggisgæslu á tónleikum sínum í Sjanghæ. Hún hafði kjark til að segja það sem fáir vestrænir leiðtogar hafa þorað að láta í ljós. Meira að segja Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, lét málefni Tíbetbúa ónefnd í nýlegri opinberri heimsókn sinni til Kína. Það er regla frekar en hitt, þegar þjóðhöfðingjar annarra landa hitta kínversk yfirvöld, að ræða ekki málefni þessa kúgaða fjallasvæðis þar sem hátt í hundrað þúsund íbúar hafa verið myrtir á sl. 58 árum – í landi þar sem fæðingartíðni er með því lægsta sem gerist í heiminum.

Stjórnmálasambandi Íslendinga og Kína var komið á þann 8. desember 1971. Íslendingar hafa síðan stóraukið samskipti sín við Kínverja, einkum síðastliðin 10 ár. Nokkrir af áhrifamestu leiðtogum Kína hafa komið hingað til lands í opinberar heimsóknir þar á meðal Li Peng árið 2000 og Jiang Zemin árið 2002. Þeir báðir voru meðal hæstráðenda í Kína þegar fjöldamorðin á Torgi hins himneska friðar voru framin árið 1989.

Vaka, og allar ungliðahreyfingar stjórmálaflokkanna ásamt Íslandsdeild Anmesty International héldu uppi einhverjum sýnilegustu mótmælum á Íslandi í seinni tíð þegar Li Peng kom hingað til lands. Deiglan gagnrýndi stjórnvöld einnig harkalega fyrir þær móttökur sem meðlimir Falun Gong fengu við komuna til Íslands í tilefni heimsóknar Jiang Zemin, þáverandi forseta Alþýðulýðveldisins Kína til landsins árið 2002.

Það virðist nánast vera regla í alþjóðasamskiptum í dag að valda kínverskum yfirvöldum ekki óþarfa gremju eða áreiti. Heimurinn allur á nú í mun sterkara viðskiptasambandi við Kína en nokkru sinni fyrr. Skuldahalli Bandaríkjanna við Kína fer nú óðum vaxandi og Íslendingar hafa ekki farið varhluta af efnahagsuppgangi í Kína sem hefur fært okkur nýja viðskiptasamninga og tækifæri á einum stærsta markaði jarðarkúlunnar.

Jafnvel þó við tökum upp viðskiptasamband við viðkomandi ríki þá þýðir það ekki að við eigum að leggja niður alla gagnrýni á innviði þess og hvernig það kemur fram við þegna sína og nágranna. Þegar málum er svo komið að ríkisstjórnir eru latar við að ljá máls á því þá verður það þeim mun mikilvægara fyrir sjálfstæða einstaklinga hvort sem þeir eru frægir listamenn eða venjulegt fólk að láta rödd sína heyrast. Björk á því skilið hrós fyrir að gleyma ekki sínu eigin sjálfstæði og fyrir að hafa sem frjáls einstaklingur hækkað raust sína fyrir þá sem tala fyrir daufum eyrum.

Í sumar munu Ólympíuleikarnir fara fram í Kína og þá gefst tækifæri til að koma á framfæri skoðun lýðræðisríkja á stjórnarfari í Kína og málefnum Tíbeta þar á meðal. Margir hafa lagt til að íþróttafólk og áhorfendur hreinlega sniðgangi íþróttaleikana en það hlýtur að vera miklu áhrifaríkara að koma boðskapnum á framfæri við kínverskan almenning. Það verður fróðlegt að sjá hvort íþróttahetjur þessa heims búi yfir sams konar hugrekki og Björk.

Latest posts by Soffía Kristín Þórðardóttir (see all)

Soffía Kristín Þórðardóttir skrifar

Soffía hóf skrif á Deigluna í apríl 2001.