Meira mas – minni músík

Útvarp Saga opnar í dag. Þetta markar tímamót í fjölmiðlasögu Íslands. Mikið gleðiefni fyrir fréttafíkla og þjóðmálaáhugafólk.

Dagurinn í dag markar nokkur tímamót í fjölmiðlasögu á Íslandi. Útvarp Saga hefur breytt um svip og er nú eina íslenska talmálsútvarpið. Þar er því masað allan sólarhringinn og gengið þvert á ríkjandi stefnu undanfarinna ára þar sem útvarpsstöðvarnar hafa keppst við að vera með sífellt minna mas og meiri músík.

Burðarásar útvarpsstöðvarinnar eru gamlir refir út útvarpsbransanum þeir Hallgrímur Thorsteinsson, Ingvi Hrafn Jónsson, Sigurður G. Tómasson og Þór Bæring Ólafsson. Sá síðastnefndi mun hafa yfirumsjón með íþróttaumfjöllun rásarinnar en hermt er að næstum helmingur útsendingartímans verði notaður undir íþróttir en hinn helmingurinn undir þjóðmál. Svipar því hinu nýja talútvarpi nokkuð til Deiglunnar, sem hefur einmitt sérhæft sig í íþrótta- og þjóðmálaumræðu þótt hið síðarnefnda sé hryggjarstykkið á Deiglunni.

Það verður áhugavert að fylgjast með gengi hinnar nýju spjallstöðvar. Víst er að fréttafíklar og besservisserar munu taka nýju stöðinni fagnandi þótt nokkur meirihluti landsmanna muni vafalaust halda áfram að kjósa síbyljuna á hinum útvarpsstöðvunum fram yfir blaðrið. Einhver áhugaverðasti kosturinn við þessa nýju útvarpsstöð er að líklega má búast við því að þjóðmálaumræðan fái mjög aukinn sess og þeir sem áhuga hafa geti nú kynnt sér menn og málefni á mun ítarlegri hátt en áður. Þá munu hin ýmsu mál, sem ekki verða rædd til fullnustu í fréttatímum sjónvarps og útvarps, að líkindum fá dýpri og vandaðri meðhöndlun. Spjallútvarpið gæti því orðið lýðræðinu nokkur styrkur ef rétt er á málun haldið.

Það er óhætt að óska aðstandendum Sögu góðs gengis og til hamingju með daginn.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.