Kompásmál krufið

Fyrir nokkru féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í hinu svokallaða Kompásmáli. Þar var dæmt í einu umtalaðasta kynferðisbrotamáli seinni ára og höfðu allir skoðun á málinu.

Fyrir nokkru féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í hinu svokallaða Kompásmáli. Þar var dæmt í einu umtalaðasta kynferðisbrotamáli seinni ára og höfðu allir skoðun á málinu.

Forsöguna þekkja allir. Sjónvarpsþátturinn Kompás setti auglýsingu á íslenska stefnumótasíðu í því skyni að komast í samband við meinta barnaníðinga. Nokkrir svöruðu auglýsingunni og settu sig í samband við tálbeituna sem þeir héldu að væri 13 ára gömul stúlka. Gengu þeir svo langt að heimsækja tálbeituna í von um að eiga við hana kynmök.

Eftir að þátturinn var sýndur setti lögreglan sig í samband við framleiðendur þáttanna og fékk aðgang að þeim gögnum sem þáttarstjórnendur höfðu aflað sér. Loks var gefin út ákæra á hendur einum manni á grundvelli þessara gagna. Þessi forsaga málsins var því öll hins óvenjulegasta og fyrir héraðsdómi lá verðugt verkefni.

Annars vegar þurfti héraðsdómur að meta það hvort um eiginlegt brot væri að ræða. Sakborningurinn setti sig í samband við tálbeituna sem hann hélt að væri 13 ára stúlka. Hann fór heim í kjallaraíbúð til tálbeitunnar og gerði sig líklegan til að hafa við hana samfarir. Vandamál héraðsdóms snéri því að því að ekki var um fullframið brot að ræða. Hér reyndi á tilraunarheimild hegningarlaga. Það flækti líka málið að um svokallaða ónothæfa tilraun var að ræða. Sakborningurinn hefði aldrei getað fullframið það afbrot sem hann var ákærður fyrir þar sem engin 13 ára stúlka var í kjallaraíbúðinni. Í slíkum málum er hugrænn ásetningur sakbornings látinn ráða og eru slíkar ónothæfar tilraunir refsiverðar en afar sjaldgæfar fyrir dómi. Héraðsdómur nýtti þessa heimild hegningalaga og taldi sakborninginn hafa framið tilraun til kynferðisbrots gegn barni.

Hins vegar þurfti héraðsdómur að leggja mat á þau sönnunargögn sem lögð voru fyrir hann í tengslum við málið. Sönnunargagna sem hafði verið aflað af fréttamönnum en ekki lögreglumönnum. Héraðsdómur tekur á þessu og segir að rannsókn sjónvarpsmannanna hafi takmarkað sönnunargildi. Engu að síður er hægt að leggja þessi sönnunargögn fram enda hafa dómarar frjálst mat á sönnun á Íslandi. Dómurinn leggur síðan mat á þessi sönnunargögn og telur að ekki sé hægt að leggja þau til grundvallar til sakfellingar.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að sönnunargögn sem aflað var með tálbeitu væru ólögmæt. Þetta er í samræmi við dómafordæmi Mannréttindadómstóls Evrópu, t.d í máli 9. júní 1998 Teixera de Castro gegn Portúgal. Hins vegar var héraðsdómur með þessu að ganga gegn fyrri dómafordæmum Hæstaréttar en tálbeitum hefur oft verið beitt á Íslandi svo lögmætt væri talið. Þar má til dæmis nefna dóm Hæstaréttar frá 1993 bls. 1081. Þá var um að ræða fíkniefnabrot þar sem tálbeita setti sig í samband við innflytjanda fíkniefna og gerði sig líklegan til að kaupa af honum fíkniefni. Hæstiréttur benti réttilega á að ekki væru neinar lagareglur til um slíkar rannsóknir lögreglu en þær væru innan þeirra marka sem rannsóknaraðferðir lögreglu verði að vera við svo sérstakar aðstæður.

Tálbeitum er beitt í vaxandi mæli í Evrópu í baráttunni gegn barnaníðingum og forvitnilegt verður að sjá hvernig Hæstiréttur tekur á lögmæti þessara gagna þegar málið verður tekið þar fyrir á næstunni. Í kjölfar dóms héraðsdóms spruttu upp umræður um hvort ekki ætti að lögfesta heimildir lögreglu til slíkra aðgerða með nýjum lögum um meðferð sakamála. Eins og staðan er í dag eru slíkar heimildir byggðar á fyrirmælum ríkissaksóknara frá 1999. Ef lögreglan hyggst beita þessum aðferðum í baráttu sinni í fíkniefnaheiminum eða gegn barnaníðingum væri æskilegt að þessar heimildir væru settar í lög og skilyrði fyrir beitingu þeirra skýrð svo sönnunarstaða gagnanna sé trygg og réttaröryggi borgara sé ljóst.