Ríkiskapítalistar ríða í hlað

Á næstunni munu vestræn stórfyrirtæki í síauknum mæli verða ríkisvædd, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Það sem er óvenjulegt við þessa þróun, í sögulegu samhengi, er að það eru ekki ríkisstjórnir heimalandanna sem standa að ríkisvæðinguni heldur erlend ríki, með Kína, Singapúr, Abú Dabí, Kúveit og Noreg í fararbroddi. Bandarískir bankar í hremmingum eru vinsælir þessa dagana.

Á næstu árum munu vestræn stórfyrirtæki í síauknum mæli verða ríkisvædd, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Það sem er óvenjulegt við þessa þróun, í sögulegu samhengi, er að það eru ekki ríkisstjórnir heimalandsins sem standa að ríkisvæðinguni heldur erlend ríki, með Kína, Singapúr, Abú Dabí og Noreg í fararbroddi.

Þessi þróun á ekki rætur sínar að rekja til eignaupptöku eða valdbeitingar, heldur byggir hún þvert á móti á markaðshagkerfi og frelsi í viðskiptum. Stofnanirnar sem standa að þessari ríkisvæðingu eru svokallaðir „Sovereign Wealth Funds“ (sem gæti útlagst sem „fullvalda fjárfestingasjóðir“ á Íslensku). Þessir sjóðir eru fjárfestingafélög sem eru í eigu ríkisstjórna og fjárfesta sameiginlega fjármuni úr ríkissjóðum og gjaldeyrisforðum ríkjanna.

Flest þau ríki sem eiga slíka sjóði eru olíuríki. Olíusjóður Norðmanna nemur nú um 350 milljörðum Bandaríkjadala, eða 75.000 dölum (5 milljónum króna) á hvern Norðmann. En sjóður Norðmanna bliknar í samanburði við fjárfestingarsjóð Abú Dabí, sem fer með hátt í 900 milljarða dala, eða milljón dali (65 milljónir króna) á hvern Abú Daba.

Þegar þessar tölur eru skoðaðar er augljóst af hverju olíuríki hafa brugðið á það ráð að fjárfesta í alþjóðlegum fyrirtækjum. Þær upphæðir sem safnast við sölu á olíu eru of háar til að nýta á skynsamlegan máta í hefðbundin ríkisútgjöld, og hagkerfi ríkjanna of lítil til að bera fjárfestingar af þeirri stærðargráðu sem olíugróðinn kallar á. Því þurfa þessi lönd að fjárfesta á alþjóðamarkaði til lengri tíma, og þar eru hlutabréf einfaldlega bestu fjárfestingarnar.

Sjóður Kínverja, sem var stofnaður á síðasta ári, hefur ekki úr olíugróða að moða, heldur mun hann fjárfesta hluta af gjaldeyrisforða Kínverja. Hlutafé sjóðsins er nú 200 milljarðar dala, en gjaldeyrisforði Kínverja er 1.400 milljarðar dala, svo allt eins má búast við því að sjóðurinn verði stækkaður.

Þessir sjóðir fylgjast vel með þeim vandræðum sem steðja að fjármálastofnunum heimsins þessa dagana. Þeir höfðu sumir hverjir lengi reynt að fjárfesta í bandarískum bönkum og olíufélögum, en pólítískur mótbyr hafði hamlað þeim. Í þeirri lausafjárkreppu sem nú steðjar að fjármálafyrirtækjum er komið annað hljóð í koppinn, og sjóðirnir keppast nú við að kaupa hlut í bankakeðjum.

Abú Dabí keypti til dæmis 4.9% hlut í Citigroup á 7,5 milljarða dala í nóvember og Kúveit keypti 2% til viðbótar á 3 milljarða nú í janúar. Auk þess keypti Kúveit hlut í Merrill Lynch fyrir 2 milljarða dala, en áður hafði Singapúr keypt í Merrill fyrir 4.4 milljarða. Kínverski sjóðurinn keypti í júní hlut í fjárfestingarsjóðnum Blackstone fyrir 3 milljarða dala og tók nú í desember stóra stöðu í Morgan Stanley, þar sem þeir keyptu 9.9% fyrirtækisins fyrir 5 milljarða dala.

Það er erfitt að átta sig á því hvort þessir sjóðir séu verri fjárfestar en hver annar. Norski sjóðurinn er mjög opinn og sækist aðeins eftir sem mestri ávöxtun, en vera kann að sumir hinna sjóðanna telji sig geta styrkt pólítíska stöðu á alþjóðavettvangi með kaupum sínum. Þótt slíkt geti verið óheppilegt má þó ekki heldur gleyma því að gagnkvæm eignatengsl á milli ríkja geta dregið úr líkum á vopnuðum átökum, og þannig aukið stöðugleika á alþjóðavettvangi.

Gjaldeyrisforði þeirra ríkja sem standa að slíkum sjóðum fer enn vaxandi og því er ekki von á öðru en að þessu haldi áfram. Sennilega eru íslensk fyrirtæki of litlir bitar fyrir þessa sjóði, en þó ætti aldrei að segja aldrei, og ekki útilokað að Íslendingar sjái einhverja af þessum sjóðum narta í íslensk fjárfestingarfélög og banka.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)