Manstu þegar Framsókn var í ríkisstjórn?

Minnisleysi íslenskra kjósenda er rómað en sumir stjórnmálamenn virðast líka þjást af þessum kvilla.

Ég á lítinn frænda. Alltaf þegar hann náði stóru skrefi í sínu lífi talaði hann um það sem fjarlæga fortíð. Nokkrum dögum eftir að hann lærði að nota kopp var ég spurður: „Manstu þegar ég notaði bleyju?“ Stuttu eftir að koppurinn var kvaddur kom síðan önnur spurning: „Manstu þegar ég pissaði í kopp?“

Þegar miklar breytingar verða á högum fólks þá er það oft þannig að fortíðin virðist mun fjarlægari en tíminn segir til um. Það er núverandi ástand sem er kunnuglegt en hið gamla er langt í burtu.

Þetta virðist Framsóknarflokkurinn hafa verið að upplifa síðustu mánuði. Ráðherrastóll Guðna Ágústssonar var ekki orðinn kaldur í landbúnaðarráðuneytinu þegar hann var farinn að tala um hagstjórnarklúður nýrrar ríkisstjórnar. 12 ára ríkisstjórnarseta virtist fjarlæg minning. Hann hefur haldið þeim málflutningi áfram síðan og nýlega talaði Valgerður Sverrisdóttir um að bremsuklossar Seðlabankans væru búnir. Ríkisstjórnin þyrfti að fara að hætta að eyða úr sjóðum ríkisins og hindra útbreiðslu þenslu og verðbólgu. Krakkar, munið þið þegar þið voruð í ríkisstjórn?

Núverandi ástand er afleiðing ákvarðana ríkisstjórnar síðustu 12 ára, með góðu og illu. En Framsókn ætti ekki að reyna svo kröftuglega að skera tengsl sín við þetta 12 ára tímabil. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks leiddi þjóðina í gegnum eitt farsælasta, ef ekki hið farsælasta tímabil sögunnar. Framsókn ætti frekar að reyna að taka til sín heiður af því mikla sem vel fór, en ekki að firra sig ábyrgð á því litla slæma sem fylgdi með.

Annars vil ég ekki vera að eyða mörgum orðum í annarra manna orð án þess að ræða málefni. Ég held ég sé bara hættur því.

Manstu þegar ég skrifaði um minnisleysi Framsóknar?