Síðustu tíu og næstu tíu

Það er auðvelt að missa sjónar á því í öllu talinu um þenslu, verðbólgu og viðskiptahalla að síðustu tíu ár hafa verið ævintýri líkast á Íslandi. Það hefur verið nánast stanslaus gríðarhár hagvöxtur sem hefur gert það að verkum að lífskjör hafa tekið stórt stökk fram á við. En nánast allan þennan tíma hafa háværustu raddirnar verið að tala um að allt væri að fara til fjandans vegna óstöðugleika og skuldasöfnunar.

Það er auðvelt að missa sjónar á því í öllu talinu um þenslu, verðbólgu og viðskiptahalla að síðustu tíu ár hafa verið ævintýri líkast á Íslandi. Það hefur verið nánast stanslaus gríðarhár hagvöxtur sem hefur gert það að verkum að lífskjör hafa tekið stórt stökk fram á við. En nánast allan þennan tíma hafa háværustu raddirnar verið að tala um að allt væri að fara til fjandans vegna óstöðugleika og skuldasöfnunar. Gert var grín að Davíð Oddssyni fyrir kosningarnar 1999 fyrir ofsalega bjartsýni (hann var sem sólgleraugu í Sigmund í mörg ár á eftir) og gert var grín að Geir Haarde fyrir að tala um snertilendingu hagkerfisins nokkrum árum síðar.

Nánast stanslaust hefur verið talað um hvað eigi að gera vegna þess efnahagsvanda sem blasir við. Ég hef oft spurt þá sem tala með þessum hætti hvort þessi svokallaði efnahagsvandi sem þeim er svo tíðrætt um sé sá mikli hagvöxtur og kaupmáttaraukning sem hefur verið eða hvort hann er hið litla atvinnuleysi eða kannski þau gríðarlegur tækifæri til útrásar sem komið hafa í ljós. Sem betur fer hefur engin þeirra hrakspáa sem stöðugt er tuggið á komið á daginn enn sem komið er.

En þrátt fyrir alla velgengnina hefur þessi tími einnig einkennst af ótta stjórnmálamanna við það að leyfa hagkerfinu að þróast af sjálfu sér. Hagkerfið hefur að hluta til verið keyrt áfram af handafli með ákvörðunum um niðurgreiddar álframkvæmdir. Og í hvert skipti sem slíkri framkvæmd lýkur byrjar óttablandið tal um hvað eigi að gerast næst. Oftast nær er svarið: Fleiri álver. Og ef spurt er á móti: Er nokkur þörf á þessum álverum? Þá er svarað til: Ja, hvað á að koma í staðinn?

Þetta svar lýsir samblandi af skammsýni og vantrausti á markaðsöflin. Það er vísast rétt að þegar ríkið hættir að keyra hagkerfið áfram af handafli mun koma tímabundinn slaki á meðan hagkerfið nær jafnvægi og byrjar að búa til hagvöxt af sjálfu sér. Stjórnmálamenn sem eru kjörnir til örfárra ára eru afskaplega hræddir við slíkan slaka. En þar að auki virðast stjórnmálamenn treysta markaðsöflunum sorglega illa til þess að skapa ný störf og búa til hagvöxt af sjálfu sér.

Slíkt traust felur í sér að það er ekki hægt að svara spurningunni: Hvað kemur í staðinn? Það veit enginn hvað kemur í staðinn. En sá sem ber traust til markaðsaflanna veit að eitthvað mun koma í staðinn. Og meira að segja veit hann að það sem mun koma í staðinn er það fólkið í landinu hefur mestan áhuga á. Annað mun ekki standast samkeppni.

Andri Snær fjallaði um þessar hugmyndir með eftirminnilegum hætti í Draumalandinu. Ég vil hvetja alla þá sem fjalla um efnahagsmál og sérstaklega stjórnmálamenn að endurlesa Draumalandið og reyna að tileinka sér það hugarfar sem þar er lýst. Það hugarfar er hárrétt.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.