Arfleifð Clintons í efnahagsmálum

Fyrir tæpum sjö árum birtist pistill á Deiglunni eftir Jón Steinsson þar sem mat var lagt á verk Bill Clinton fyrrverandi Bandaríkjaforseta í efnahagsmálum. „Þegar öllu er á botninn hvolft er talsvert til í því að það mikilvægasta sem forseti Bandaríkjanna geti gert í efnahagsmálum er að passa sig að klúðra engu. Clinton stóð sig nokkuð vel hvað þetta varðar. En þar að auki stóð hann að nokkrum mikilvægum málum sem hafa haft veruleg jákvæð áhrif á gang bandaríska hagkerfisins á undanförnum árum.“

Ef Clintons verður minnst sem eins af bestu forsetum Bandaríkjanna verður það að stórum hluta vegna þess hve blómlegur efnahagur Bandaríkjanna var á meðan hann var við völd. Það er því eðlilegt að einhver áleitnasta spurningin um valdatíð Clintons sé spurningin um hversu stóran þátt stefna hans átti í efnahagslegum uppgangi landsins á meðan hann var við völd. Það er ljóst að sitt sýnist hverjum hvað þetta varðar. Sumir telja að stefna Clintons hafi skipt sköpum. Aðrir telja að hún hafi ekki haft nein teljandi áhrif til eða frá þar sem gangur efnahagslífsins stjórnast að stærstum hluta af ákvörðunum einkaaðila ekki stefnu stjórnvalda. Enn aðrir telja að uppgangstími síðustu ára sé að mun meira leyti Reagan að þakka en Clinton. Hér að neðan ætla ég að nefna nokkur atriði sem ég tel vera mikilvæg hvað þessa umræðu snertir.

Að svo miklu leyti sem stjórnvöld í Bandríkjunum hafa áhrif á gang efnahagsmála þar í landi (og ég tel að þau hafi veruleg áhrif) þá er það Seðlabanki Bandaríkjanna sem á mestan heiður skilinn þegar vel gengur og að sama skapi mesta sök þegar illa gengur. Seðlabankinn hefur margfalt meiri áhrif á gang hagkerfisins (a.m.k. yfir hagsveifluna) en allar stofnanir framkvæmdavaldsins til samans.

Mikilvægasta efnahagslega ákvörðun forseta Bandaríkjanna á hverjum tíma er stefna hans í fjármálum. Þegar Clinton tók við embætti hafði bandaríska ríkið verið rekið með gríðarlegum halla samfleitt í næstum tíu ár. Árið 1992 var metár í því sambandi, en þá var fjárlagahalli Bandaríkjanna 300 milljarðara dollara. Clinton virðist hafa áttað sig á því frá upphafi að lækkun fjárlagahallans væri lykilatriði í því að skapa skilyrði fyrir góðum hagvexti í Bandaríkjunum. (Mikilvægt er að hafa í huga að árið 1992 var sjálfstraust Bandaríkjamanna í efnahagsmálum í molum. Bækur um hnignun bandaríska hagkerfisins og japanska efnahagsundrið seldust eins og heitar lummur. Og fleiri og fleiri voru á þeirri skoðun að þess væri skammt að bíða þar til Japan tæki við leiðtogahlutverki í heiminum í efnahagsmálum.)

Eitt af því fyrsta sem Clinton gerði eftir að hann náði kjöri var að keyra í gegnum þingið umtalsverðar skattahækkanir sem miðuðu að því að ná niður fjárlagahalla landsins. Þegar frumvarpið fór fyrir öldungardeild þingsins mætti það gríðarlegri mótstöðu. En var að lokum samþykkt með minnsta mögulega mun. Í kjölfarið komu allir helstu forystumenn Repúblikanaflokksins fram í fjölmiðlum og lýstu því yfir að frumvarpið myndi hafa hörmulegar afleiðingar í för með sér. Þeir lýstu því jafnframt yfir að með lögunum væri búið að eyðileggja þann árangur sem náðst hefði í efnahagsmálum á Reagan-árunum og að efnahagsstefna Reagan gæti ekki borið ábyrgð á framvindu mála eftir þetta. Þessir aðilar virðast á undanförnum árum hafa gleymt ummælum sínum frá þessum tíma því á síðustu árum hafa þeir keppst um að lýsa því yfir að hagvöxtur Clinton-áranna sé Reagan að þakka. En þetta er víst ekki í fyrsta skipti sem stjórnmálamenn gera sig seka um tvískinnungshátt.

Frumvarpið hafði strax mjög jákvæð áhrif á skuldabréfamarkaðinn í Bandaríkjunum. Ávöxtunarkrafa langtímabréfa lækkaði umtalsvert á skömmum tíma og verðbólguvæntingar lækkuðu að sama skapi. Lækkun verðbólguvæntinga gerði Seðlabankanum kleift að lækka vexti. Til samans leiddi þessi atburðarás til umtalsverðs ávinnings fyrir bandarískt atvinnulíf sem tók loks við sér eftir nokkura ára ládeiðu. Á árunum þar á eftir tók síðan fjárlagahallinn að lækka og var kominn niður í 115 milljarða 1996. Árið 2000 var síðan kominn 250 milljarða afgangur af fjárlögum. Þessi umskipti hafa gert það að verkum að vextir í Bandaríkjunum hafa verið umtalsvert lægri en þeir ella hefðu verið. Peningarnir sem annars hefðu farið í að fjármagna ríkið fór þess í staði á fjármagna neyslu og fjárfestingar einkaaðila sem aftur hefur haft veruleg jákvæð áhrif á hagvöxt í Bandaríkjunum á síðustu árum.

En aðrir þættir í stefnu Clintons höfðu einnig jákvæð áhrif á gang mála í Bandaríkjunum. Ólíkt flestum öðrum leiðtogum Demókrata var Clinton (og er) ákafur stuðningsmaður frjálsra alþjóðaviðskipta. Á fyrsta ári sínu í embætti keyrði hann Nafta í gegnum þingið þrátt fyrir áköf mótmæli margra Demókrata sem þá höfðu meirihluta í báðum deildum þingsins. George Bush eldri á vitaskuld stærstan þátt í tilkomu Nafta en það var Clinton sem rak endahnútinn á það mál. Seinna í forsetatíð sinni barðist hann með misjöfnum árangri fyrir frjálsum viðskiptum við Kína og gerði þar að auki yfir 300 aðra fríverslunarsamninga.

Clinton var fyrsti forseti Bandaríkjanna í áratugi sem virti sjálfstæði Seðlabanka Bandaríkjanna. Þetta gæti virst sem smámál. En það er það alls ekki. Sú staðreynd að Clinton var ekki sífellt vælandi í Seðlabankanum að lækka vexti gerði Seðlabankanum í rauninni auðveldara fyrir en ella að lækka vexti þar sem hann þurfti ekki eilíft að vera á varðbergi gagnvart því að vera talinn hafa látið undan þrýstingi frá hvíta húsinu.

Fjórða mikilvæga málið í efnahagsstefnu Clintons voru umbætur á velferðarkerfinu. Clinton (aftur í óþökk margra í hans eigin flokki og með stuðningi Repúblikana) breytti bandaríska velferðarkerfinu þannig að meiri áhersla var lögð á vinnuhvetjandi greiðslur en minni á hreinar bætur. Þar að auki breytti hann kerfinu þannig að það ýtti bótaþegum aftur út á vinnumarkaðinn fyrr en áður var. Þessar breytingar, svo og gott atvinnuástand, hafa leitt til þess að þeim sem eru upp á velferðarkerfið komnir í Bandaríkjunum hefur fækkað um helming á síðustu árum.

Síðasta málið sem ég vil nefna er stefna Clinton-stjórnarinnar gagnvart ríkjum sem lentu í fjármála- og gjaldmiðlakreppum. Fyrst í Mexíkó 1995, síðan í Taílandi og Indónesíu, Suður Kóreu, Rússlandi og Brasilíu var stefna Clinton að lána ríkjum í neyð gríðarlega háar fjárhæðir (tugi milljarða dala) til þess að koma í veg fyrir að hagkerfi þeirra féllu algerlega saman. Í flestum þessum löndum bægðu þessi lán mjög alvarlegri hættu hjá og í sumum þeirra höfðu þau verulegar afleiðingar á pólitískan stöðuleika ríkjanna og nærliggjandi svæða. Þannig var talið að lýðræðið í Mexíkó væri orðið mjög óstöðugt í janúar 1995 vegna efnahagsörðugleikanna þar í landi. Stjórnmálaástandið í Suðaustur-Asíu var einnig mjög eldfimt á árunum 1997-8. Stjórn Súhartó í Indónesíu féll að lokum í tiltölulega friðsamri byltingu og lýðræði var komið á þar í landi.

Á þeim tíma sem þessi lán voru veitt voru þau mjög umdeild. Til dæmis mættu lánveitingarnar mikilli mótspyrnu á meðal Repúblikana í Bandaríkjunum. Í dag eru hins vegar flestir sammála því að án þeirra hefði Asíukrísan og fjármálakreppur þær sem dunið hafa yfir ríki Suður Ameríku haft mun verri afleiðingar í för með sér en raunin varð. Í rauninni er alvarlegasta gagnrýnin á stefnu alþjóðasamfélagsins í dag sú að það hafi gert of lítið og sett of ströng skilyrði fyrir lánveitingum sínum en ekki öfugt. Í þessu máli ruddi stjórn Clintons algjörlega nýja braut.

Það er auðvitað engin spurning að Clinton var heppinn að vera í embætti á tímabili þegar tæknibylting á borð við internetið leiddi til talsverðrar framleiðniaukningar. Einnig bjó hann að því að Seðlabanki Bandaríkjanna hafði eytt síðustu 15 árum áður en hann komst til valda í að ná niður verðbólgu í Bandaríkjunum og byggja upp trúverðugleika. Þegar öllu er á botninn hvolft er talsvert til í því að það mikilvægasta sem forseti Bandaríkjanna geti gert í efnahagsmálum er að passa sig að klúðra engu. Clinton stóð sig nokkuð vel hvað þetta varðar. En þar að auki stóð hann að nokkrum mikilvægum málum sem hafa haft veruleg jákvæð áhrif á gang bandaríska hagkerfisins á undanförnum árum.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Úrvalspistill (see all)