Tónninn gefinn fyrir kosningavetur

Deiglan spáir í spilin fyrir hólmgöngu flokksformannanna í Kastljósi í kvöld. Má búast við pólitísku sprengjuregni eða láta menn sér nægja staðbundnar skærur? Hvernig verða straumarnir milli Halldórs og Össurar – eða ætlar Össur að stinga undan Halldóri og hoppa upp í með Davíð? Deiglan gerir úttekt á því sem í vændum er og vegur og metur styrk stjórnmálaforingjanna sem takast á í kvöld.

Eins og frá hefur verið greint, mætast formenn stjórnarmálaflokkanna í umræðuþættinum Kastljósi í kvöld. Viðureignar fimmmenninganna er beðið með nokkurri eftirvæntingu enda markar hún upphaf kosningaveturs. Frammistaða stjórnmálamanna í sjónvarpi skiptir miklu máli um almenningsálitið og því mun mikið mæða á formönnunum í kvöld.

Þótt allir séu þeir fremur ólíkir menn, þá eiga þeir það sameiginlegt að standa sig að jafnaði mjög vel í sjónvarpi. Fágætt er að allir fimm mætist í alvöru umræðum, samfundir þeirra í sjónvarpi eru yfirleitt bundnir við einhvers konar skemmtiþætti, t.a.m. Kryddsíld, kosningavökur, þar sem menn eru meira að spá í spilin, eða umræður rétt fyrir kjördag, sem oftast eru fremur daufar.

Til gagns og gamans hefur Deiglan tekið saman eftirfarandi yfirlit fyrir kvöldið. Velt er vöngum yfir kostum og göllum formannanna og hvar sóknarfæri þeirra liggja. Eru formennirnir taldir upp í stafrófsröð og fyrstur í röðinni er forsætisráðherrann.

Davíð Oddsson:

Fremstur meðal jafningja

Davíð Oddsson er il maestro í þeim hópi sem mætist í Kastljósi í kvöld og þarf ekki að sanna eitt eða neitt. Eftir tæp tólf ár í stóli forsætisráðherra mun Davíð standa vörð um stjórnarstefnuna og leggja áherslu á þann árangur sem náðst hefur.

Búast má við að hart verði sótt að Davíð og að stjórnarandstæðingar muni beina gagnrýni sinni á stjórnarstefnuna sem mest þeir mega að honum, en ekki Halldóri Ásgrímssyni. Fróðlegt verður að fylgjast með keppni þeirra Steingríms og Össurar um hvorum tekst betur til við að berja á formanni Sjálfstæðisflokksins. Þó má reikna með því að menn fari varlega í að ráðast á Davíð því hann á það til að skjóta menn eftirminnilega niður þegar hvað mest er á þeim flugið. Enginn vill lenda í slíku.

Andstæðingar Davíðs hafa mikið gert úr því á síðustu misserum að hann sé að þreytast sem stjórnmálamaður. Davíð hefur hins vegar alltaf stigið hinn pólitíska darraðardans ákaflega vel og því má búast við að hann sýni sitt rétta andlit þegar kapp færist í leikinn.

Kostir: Davíð er í senn rökfastur og beittur. Hann svarar jafnan árás með gagnárás og spurningu með annarri spurningu. Háðið er eitt sterkasta vopn Davíðs og undan því hefur mörgum sviðið í gegnum tíðina.

Veikleikar: Davíð hefur á undanförnum árum dregið mjög úr þátttöku sinni í svona umræðuþáttum og vera má að hann sé kannski ögn ryðgaður.

Halldór Ásgrímsson:

Engir náttúrulegir óvinir

Halldór ætlar að verða forsætisráðherra og þarf að sýna það í kvöld að hann sé á sama stalli og Davíð. Hann mun því reyna eftir fremsta megni að blanda sér ekki í orðahnippingar heldur taka á málum af stóískri ró. Halldór nýtur þess að enginn mun sérstaklega leggja áherslu á að klekkja á honum, nema ef vera skyldi að það dytti í formann Frjálslyndra.

Ekki er ósennilegt að Halldór reyni að gera örlítinn ágreining við Davíð Oddsson t.d. um heilbrigðismál. Slíkt mun þó að líkindum vera í algjöru lágmarki. Halldór mun vafalítið þurfa að gefa skýrari svör um Evrópumálin en hann hefur gefið hingað til.

Ekki er ólíklegt að hann noti þetta tækifæri til að lýsa yfir framboði sínu í Reykjavík.

Kostir: Halldór tapar sjaldan ró sinni og hefur gott lag á því að tala þannig að erfitt er að grípa fram í fyrir honum.

Veikleikar: Halldór er ekki litríkasti maðurinn á sviðinu í kvöld. Hann á aukinheldur fremur erfitt með að verjast föstum árásum frá andstæðingum og setur menn ekki út af laginu með hnyttni eða mælsku.

Steingrímur J. Sigfússon:

Mælska og heilög réttlæting

Til er orðtæki á ensku: “Dress for the job you want. Not the one you have.” Steingrímur J. á það til að mæta í sjónvarpsviðtöl klæddur eins og hann sé að fara beinustu leið á fund hjá félagi íslenskufræðinga eftir að viðtalinu lýkur. Það kann að virðast yfirborðskennt en staðreyndin er sú að þótt fólk kunni vel að meta hið alþýðlega fas hans þá ætlast það til ákveðinnar glæsimennsku frá leiðtogum sínum.

Hann leggur sig meira fram um að kvarta yfir hlutum en að setja fram hugmyndir. Steingrímur heldur þó venjulegast ró sinni og lætur aðra gjarnan um að gagga sín á milli.

Þegar Steingrímur hefur orðið þá talar hann af mikilli mælsku og fullur af heilagri réttlætingu. Búast má við að hann leggi mikla áherslu á að skjóta á ríkisstjórnina vegna velferðar- og heilbrigðismála og vafalaust hefur hann lagt á minnið mikinn talnaflaum til þess að rökstyðja mál sitt.

Kostir: Leiftrandi mælska er helsti styrkur Steingríms í svona kappræðum.

Veikleikar: Virðist stundum ekki eiga heima á sama sviði og hinir – lítur út eins og fulltrúi starfsmanna í fyrirtækjastjórn. Hefur tillögu- og málfrelsi en ekki atkvæðisrétt.

Sverrir Hermannsson:

Stóryrðaviðvörun við hæfi

Kvótinn verður sem fyrr aðalmálið hjá hinum kjarnyrta Vestfirðingi. Frjálslyndi flokkurinn berst fyrir lífi sínu og hann verður að fá atkvæði fyrir vestan til að lifa af. Ólíkt hinum formönnunum er ekki víst að Sverrir undirbúi sig sérstaklega fyrir þáttinn – hann veit nákvæmlega hvað hann ætlar að segja og hvernig hann ætlar að segja það. Hvað önnur mál en kvótann varðar, þá skiptir ekki öllu máli hvað Sverrir segir, en það verður alla vega ekkert moð.

Reyndar má reikna með að Sverrir komi inn á kjör eldri borgara, enda kunna einhver sóknarfæri að liggja í þeim aldurshópi fyrir flokk Sverris.

Búast má við að Sverrir geri jafnvel enn harðari atlögu að formönnum stjórnarflokkanna en þeir Steingrímur og Össur. Sverrir telur sig eiga óuppgerða sök við Sjálfstæðisflokkinn og óbeitin á framsóknarmönnum er honumi í blóð borin. Sala VÍS út úr Landsbankanum er mál sem gæti virkilega komið Sverri á flug. Stóryrðaviðvörun er við hæfi.

Kostir: Sverrir er mælskari en andskotinn (svo notað sé orðalag í hans stíl) og þrælskemmtilegur þegar sá gállinn er á honum.

Veikleikar: Á það til að vera bara ósköp venjulegur nöldurseggur á eftirlaunum.

Össur Skarphéðinsson:

Stóra stundin hjá Össuri

Össur er örugglega búinn að undirbúa sig vel. “Þetta er dagurinn!” hugsar hann og tækifærið til að mæta Davíð er honum kærkomið. Hann fer vafalítið í heitt bað og leggur sig áður en hann mætir til leiks með fullt af tölfræði og nýjum sniðugum frösum upp á vasann. Björgvin G. Sigurðsson og fleiri Giddens-fræðingar hafa væntanlega haft Össur í æfingabúðum undanfarna daga til þess að gera hann kláran í orrustuna gegn Davíð. Í huga Össurar er þetta einvígi þeirra.

Össur mun sennilega leggja ofurkapp á að sauma að Davíð sem mest hann má. Hann mun leggja áherslu á að tala um lýðræði og væntanlega finnst honum stjórnarhættir forsætisráðherra ekki alveg til fyrirmyndar. Honum mun þó reynast erfitt að feta þann stíg eftir hótunarbréfið sem hann sendi á Baug. “You ain´t seen nothing yet.”

Óvíst er hvort Össur leggi í umræðu um Evrópu í kvöld þar sem flokkur hans hefur ekki enn tekið afstöðu í málinu.

Kostir: Össur getur verið mjög skemmtilegur og hnyttinn þegar hann er afslappaður. Hann er mælskur og fljótur til svara.

Veikleikar: Þegar honum er mjög mál að sanna sig þá fer hann á yfirsnúning og ræður vart við sig. Hann virðist einnig vera dálítið hræddur við Davíð þegar þeir eigast við og minnir þá gjarnan á lítinn bróður með mannalæti.

Fljótlega eftir klukkan 21 í kvöld geta lesendur skoðað viðbrögð Deiglunnar við frammistöðu formannanna í þættinum.