Kosningavetur byrjar og víglínurnar markaðar

Kosningaveturinn hófst með líflegum sjónvarpsumræðum í Kastljósi í kvöld. Deiglan fer yfir þáttinn. Hverjir stóðu sig? Hverjir hefðu betur setið heima? Deiglan fer yfir málin og tekur frammistöðu foringjanna til skoðunar.

Það er orðið langt síðan landsmenn fengu tækifæri til þess að fylgjast með formönnum stjórnmálaflokkanna eigast við í sjónvarpskappræðum. Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa legið undir ámæli fyrir að mæta ekki andstæðingum í slíkum umræðum en kjósa fremur að mæta í viðtöl einir síns liðs.

Það var því áhugavert að sjá umræðurnar í Kastljósinu í kvöld. Umræðan, sem snerist að mestu um Evrópumál og velferðarmál, var á tíðum býsna lífleg og skemmtileg og auðvelt var að sjá hvar mest gneistaði á milli manna. Málefnaleg umræða nær aldrei háu flugi í svona kappræðum en svona hanaöt hafa þó mikil áhrif á afstöðu kjósenda og því allrar athygli verð.

Formaður Samfylkingarinnar var eini maðurinn sem gerði sér far um að hjóla í Davíð Oddsson, forsætisráðherra. og ætlaði hann sér greinilega að sýna og sanna að hann væri jafnoki hans. Þessi strategía gekk þó fremur illa hjá honum þar sem enginn veitti honum liðsinni og Davíð skaut hann ítrekað í kaf. Á köflum virtist eins og þarna væru allir á móti Össuri og að hann væri hreinlega ekki tekinn alvarlega í hópnum og ljóst að Össur mun aldrei koma vel út úr kappræðum þar sem meira að segja Steingrímur J. Sigfússon virðist telja það sérstakt markmið að slökkva í honum.

Vandi Samfylkingarinnar var mjög greinilegur í þessum þætti. Það geta allir aðrir séð hag sínum borgið ef Samfylkingunni gengur illa og formaðurinn er einfaldlega ekki nægilega sterkur til þess að standa í slíkum slag. Jafnvel í Evrópumálum, þar sem Össur hefur vætanlega búist við einhverju bræðralagi með Halldóri. virtist hann algjörlega einangraður.

Í umræðuþáttum er Össur gjarnan eins og hnefaleikamaður sem hefur aðeins úthald í eina lotu. Hann þeysist af stað með fyrirfram ákveðnar fléttur en þegar þær eru búnar þá stendur hann óvarinn fyrir barsmíðum sem undantekningarlítið enda með rothöggi.

Halldór Ásgrímsson stóð sig mjög vel í umræðunum. Hélt ró sinni, eins og alltaf, og naut þess greinilega að vera í skjóli Davíðs. Hann leyfði sér meira að segja að skjóta nokkrum skotum að Steingrími J. varðandi virkjanamál. Hann passaði mjög upp á að enginn ágreiningur skapaðist á milli sín og forsætisráðherra og sýndi vel að hann er dyggur liðsmaður í ríkisstjórn þar einn maður er óumdeilanlega í forystu. Stuðningsmenn Halldórs eru áreiðanlega á því að hann hafi litið út eins og forsætisráðherra efni en hlutirnir hefðu að líkindum litið öðru vísi út ef Halldór hefði ekki notið liðsinni forsætisráðherra.

Því miður forfallaðist Sverrir Hermannsson en nærvera hans hefði vafalaust gert Össur Skarphéðinssyni lífið auðveldara og hleypt meiri keppni í umræðurnar. Þá hefði verið til staðar annar aðili sem ekki hikar við að ráðast að forsætisráðherra. Í stað hans var Margrét Sverrisdóttir fenginn fyrir hönd Frjálsynda flokksins og komst hún prýðisvel frá sínu þótt ekki væri hún sérlega afgerandi. Það vakti athygli að hún talaði lítið sem ekkert um sjávartúvegsmál en hafði mun meira að segja um velferðarmálin og hélt þar með þræðinum sem tekin var upp í borgarstjórnarframboði frjálslyndra í vor.

Formaður VG var að venju yfirvegaður í málflutningi sínum. Hann reyndi nokkrum sinnum að gera atlögu að formanni Framsóknarflokksins en virtist ekki einu sinni láta sér detta til hugar að ráðast að formanni Sjálfstæðisflokksins, enda ekki skrýtið miðað við það hvernig Össur Skarphéðinsson fór út úr þeirri viðureign. Steingrímur talaði mest um velferðarmál en þeir Davíð og Halldór snéru þeirri umræðu mjög snyrtilega inn á brautir þar sem Steingrímur á erfitt með að fóta sig, þ.e. efnahagsmál.

Steingrímur kom því á framfæri að hann teldi að markmið næstu kosninga væri að koma á því sem hann kallar “velferðarstjórn” og mun það orð væntanlega heyrast oft úr hans munni á komandi misserum.

Það er ekki víst að stjórnarandstæðingar haldi áfram að heimta að fá að mæta forsætisráðherra í kappræðum eftir Kastljósið í kvöld. Davíð Oddsson hefur greinilega engu gleymt í návígisbardögum og hefur einkar gott lag á að slá vopnin úr höndum andstæðinga sinna.

Hann á það vissulega til að vera persónulegur í gagnárásum sínum en orðheppni hans gerir það að verkum að þær stuða ekki – heldur bera þann tilætlaða árangur að andstæðingurinn missir móðinn.

Davíð útskýrði einkar vel fyrir sjónvarpsáhorfendum að tal um velferðarmál megi ekki aðskilja frá umræðum um efnahagslífið.

Hann hefur mikla vigt í svona umræðum og það er greinilegt að andstæðingar hans hafa lítinn áhuga á að lenda í alvarlegri mótstöðu við hann. Vegna yfirburða Davíðs í svona kappræðum verður ógæfu andstæðinga hans allt að vopni og þeir skynsamari í þeirra hópi passa sig á því að vera ekki að pirra hann um of.

Kosningaveturinn hefst ágætlega, a.m.k. fyrir alla nema Össur Skarphéðinsson. Þessar umræður sýna að Evrópumálin gætu orðið fyrirferðarmikil í vetur en einnig að vinstri menn munu einbeita sér að velferðar- og heilbrigðismálum. Þátturinn sýndi einnig, svo ekki verður um villst, að allt tal um samstarfserfiðleika í ríkisstjórninni er úr lausu lofti gripið. Evrópumálin eru einu málin sem forsætisráðherra og utanríkisráðherra greinir á um og virðist ríkja fullkominn skilningur þeirra á milli um það og gagnkvæm virðing fyrir afstöðu hins. Þátturinn sýndi einnig að ólíklegt er að vinstri flokkarnir geti vænst stuðnings hvor frá öðrum í nánustu framtíð og munu sennilega leggja meira kapp á að skemma fyrir hvor öðrum heldur en ríkisstjórnarflokkunum.