Kappræður í kvöld

Í dag eru 42 ár frá því að úr því fékkst skorist að Kennedy var myndarlegri en Nixon (og svitnaði ekki eins mikið á efri vörinni). Í kvöld mætast formenn íslensku stjórnmálaflokkanna í Kastljósinu og takast á um málefni líðandi stundar.

Fyrir 42 árum síðan breyttust stjórnmál í heiminum varanlega. Þá voru fyrstu sjónvarpskappræður á milli forsetaframbjóðenda haldnar í Bandaríkjunum. Þetta var þann 26. september 1960 og áttust þeir Richard Nixon, varaforseti, og John F. Kennedy, öldungadeildarþingmaður, við. Voru þessar kappræður mikið nýnæmi og fylgdist þjóðin með af athygli. Næstum 70 milljónir horfðu á viðureign forsetaframbjóðendanna og líklegt er að frammistaða þeirra hafi ráðið miklu um endanlega niðurstöðu kosninganna.

Fyrir kappræðurnar var talið að Kennedy ætti á brattan að sækja. Nixon hafði meiri reynslu og hafði átta árum áður sýnt það, með Checkers ræðunni frægu, að hann kunni að notfæra sér sjónvarpið betur en flestir stjórnmálamenn. Kennedy var hins vegar myndarlegri og líflegri að sjá og þótt útvarpshlustendur teldur Nixon hafa staðið sig betur þá fannst sjónvarpsáhorfendum Kennedy miklu betri. Kennedy vann kosningarnar með miklum naumindum.

Nú er það til siðs víðast hvar að frambjóðendur mætist í sjónvarpskappræðum og í sumar var þetta í fyrsta skipti gert í Þýskalandi þar sem Schröder og Stoiber mættust tvisvar í beinni útsendingu.

Mörgum þykir það draga fremur úr inntaki stjórnmálanna en hitt að frammistaða í kappræðum ráði svo miklu um niðurstöður kosninga. Við vildum sennilega ekki velja leiðtoga þjóðarinnar í Morfís keppni. Hins vegar er erfitt að neita því að fólk velur leiðtoga sína m.a. á þeim forsendum að þeir séu til sóma – glæsilegir fulltrúar og láti ekki setja ofan í við sig. Þannig koma þeir gjarnan best út úr kappræðum sem halda ró sinni, skjóta þó fast á andstæðinginn og skilja eftir sig eftirminnileg ummæli.

Í kvöld fáum við tækifæri til þess að fylgjast með formönnum stjórnmálaflokkanna á Íslandi takast á um málefni líðandi stundar. Með þessu má segja að kosningabaráttan fyrir næsta vor hefjist fyrir alvöru. Reikna má með að sumir foringjarnir séu í dag að gíra sig upp í mikla sókn gegn sumum öðrum foringjum, sem þeir hafa lengið hlakkað til að mæta, og ætli svo sannarlega að kveða þá í kútinn. Aðrir hafa vafalaust minni áhyggjur og gera ráð fyrir að þeir sem gala hæst og mest muni misstíga sig eins og venjulega, detta um boltann í tilraun til að leika á andstæðinginn, missa sig í tilfinningahitanum og skora meira í eigið mark en annarra.

Í öllu falli gæti þetta orðið hin besta skemmtun. Sem er gott.

Síðdegispistill Deiglunnar í dag er helgaður umfjöllun um þátttinn í kvöld, þ.e. við hverju megi búast af formönnunum fimm.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.