Demókratar eiga sviðið

Forval forsetakosninga Bandaríkjanna virðist hafa fengið talsvert meiri umfjöllun fjölmiðla víðast hvar en forvalið fyrir kosningarnar tvær þar á undan. Demókratar virka alsráðir á vellinum, en umræðan hefur að miklu leiti snúist um baráttuna á milli frambjóðendanna tveggja Hillary Clinton og Barack Obama. Það kemur kannski ekki á óvart annars vegar vegna þess að Repúblikanar hafa vermt forsetastólinn síðustu tvö kjörtímabil og hins vegar vegna þeirrar staðreyndar að í fyrsta skipti eiga kona og blökkumaður raunhæfan möguleika á því að vinna forsetatilnefningu Demókrataflokksins.

Forval forsetakosninga Bandaríkjanna virðist hafa fengið talsvert meiri umfjöllun fjölmiðla víðast hvar en forvalið fyrir kosningarnar tvær þar á undan. Demókratar virka alsráðir á vellinum, en umræðan hefur að miklu leiti snúist um baráttuna á milli frambjóðendanna tveggja Hillary Clinton og Barack Obama. Það kemur kannski ekki á óvart annars vegar vegna þess að Repúblikanar hafa vermt forsetastólinn síðustu tvö kjörtímabil og hins vegar vegna þeirrar staðreyndar að í fyrsta skipti eiga kona og blökkumaður raunhæfan möguleika á því að vinna forsetatilnefningu Demókrataflokksins.

Forvalið sem þegar hefur farið fram í ríkjunum Iowa og New Hampshire má í raun líkja við opið prófkjör þar sem óflokksbundir geta kosið jafnt í forvali Demókrata og Repúblikana og þannig haft áhrif á niðurstöðu forvalsins þrátt fyrir að vera ekki skilgreindir flokksfélagar. Þessi aðferð er til þess fallin að undirbúa frambjóðendur fyrir forsetakosningarnar sem framundan eru og í raun tækifæri fyrir þá til þess að ná reyna að ná hylli kjósenda innan sem utan flokksins. Forvalið er hins vegar bara rétt að byrja þar sem kosning á eftir að fara fram í hinum 48 ríkjum Bandaríkjanna. Á næstu vikum verður kosið í Michigan 15. janúar, Nevada 19. janúar, Suður Karólínu 26. janúar, Flórída 29. janúar og þann 5. febrúar fer fram kosning í 22 ríkjum og því loknu er forvalið rétt um það bil hálfnað. Forvalið í hinum ríkjunum fer svo fram mánuðina þar á eftir og líkur þann 7. júní á Puerto Rico sem er sérstakt sambandssvæði Bandaríkjanna sem á sína fulltrúa á landfundi Demókrata líkt og Guam sem er bandarískt yfirráðasvæði.

Það er áhugavert að skoða afstöðu frambjóðendanna tveggja sem að ofan var rætt um út frá málefnunum sem helst hafa verið til umræðu í kosningabaráttunni. Hér að neðan er stutt yfirlit yfir afstöðu Obama og Clinton í fáum orðum til fóstureyðinga, Íraksstríðsins, skotvopnaeignar, giftingu samkynhneigðra, heilbrigðiskerfisins, innflytjendamála, skattamála og stofnfrumurannsókna.

Fóstureyðingar
Obama – fylgjandi fóstureyðingum
Clinton – fylgjandi fóstureyðingum

Íraksstríðið
Obama – á móti innrásinni í Írak
Clinton – með innrásinni á sínum tíma, en vill nú draga herinn til baka

Skotvopnaeign
Obama – á móti skotvopnaeign með undantekningum fyrir hermenn og eftirlauna lögreglumenn.
Clinton – vill takmörkun á skotvopnaeign og strangara eftirlit.

Gifting samkynhneigðra
Obama – á móti giftingu samkynhneigðra, en styður borgaralega vígslu.
Clinton – á móti giftingu samkynhneigðra, en vill að ríkin ákveði það hvert fyrir sig. Styður borgarlega vígslu.

Heilbrigðiskerfið
Obama – vill opinberar tryggingar fyrir einstaklinga sem ekki eru tryggðir hjá fyrirtækinu sem þeir starfa hjá. Vill að einstaklingar geti valið milli hins opinbera og einkaaðila. Vill að fyrirtæki sem ekki greiða heilbrigðistryggingu fyrir starfsmenn sína séu skuldbundnir til að greiða til almannatryggingakerfisins í staðinn. Vill almannatryggingakerfi fyrir börn eingöngu. Vill að einstaklingar undir 25 ára heyri undir tryggingu foreldra sinna. Kostnaðurinn er áætlaður í kringum 50 til 65 milljarða dali. Hann ætlar að hætta við fyrirætlaðar skattlækkanir Bush og setja fjármunina í heilbrigðiskerfið í staðinn.
Clinton – vill skyldutryggingar fyrir alla og stuðing við þá efnaminni til að sækja læknisþjónustu og opinbert tryggingakerfi í anda Medicare. Vill að tryggingarfélög bjóði upp á tryggingu fyrir alla sem sæki um hjá þeim og vill að sett séu mörk við því að tryggingafélögin geti hækkað tryggingar hjá þeim sem hafa þegar verið greindir með heilbrigðisvanda. Vill að stórfyrirtæki taki þátt í að greiða heilbrigðistryggingu starfsmanna. Vill heilbrigðisprógramm fyrir börn. Kostnaðurinn er áætlaður í kringum 110 milljarða árlega. Hún ætlar að hætta við fyrirætlaðar skattalækkanir Bush og nota féð í heilbrigðiskerfið.

Innflytjendamál
Obama – studdi áform Bush um að breyta innflytjandalöggjöfinni sem hefði aukið fjármagn til málaflokksins og bætt landamæravörslu ásamt því að gefa ólöglegum innflytjendum kost á að fá ríkisborgararétt með löglegum hætti. Var fylgjandi byggingu girðingar á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.
Clinton – studdi áform Bush um að breyta innflytjandalöggjöfinni sem hefði aukið fjármagn til málaflokksins og bætt landamæravörslu ásamt því að gefa ólöglegum innflytjendum kost á að fá ríkisborgararétt með löglegum hætti. Var fylgjandi byggingu girðingar á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

Skattamál
Obama hefur sett sig á móti skattalækkunum Bush. Vill endurskoða skatta tekjuhæstu hópanna og fjölskyldna.
Clinton hefur sett sig á móti skattalækkunum Bush.

Stofnfrumurannsóknir
Obama vill setja aukið fjármagn í stofnfrumurannsóknir
Clinton vill setja aukið fjármagn í stofnfrumurannsóknir

Af samanburðinum að dæma er ekki mjög langt á milli frambjóðandanna tveggja ef litið er til málefnaáherslna þeirra. Það er kannski helst afstaða þeirra til heilbrigðiskerfisins – áherslur og aðferðafræði sem helst ber á milli. Það sem kemur hins vegar kannski mest á óvart er neikvæð afstaða þeirra til hjónabands samkynhneigðra þar sem þau gefa sig bæði út fyrir að vera fulltrúar breytinga og nýrra tíma – jafnréttis og mannréttinda hefði maður haldið.

Það verður áhugavert að fylgjast með baráttunni sem framundan er bæði um útnefningu frambjóðenda Repúblikana og Demókrata og hins vegar kosningaslagnum um embætti forseta Bandaríkjanna þegar að honum kemur.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.