Tilfinningar á jólunum

Á hádegi á jóladag var ég búin að tala tvisvar við lögregluna. Ekki alveg venjuleg byrjun á jóladegi – en ekkert alvarlegt heldur.

Á hádegi á jóladag var ég búin að tala tvisvar við lögregluna. Ekki alveg venjuleg byrjun á jóladegi – en ekkert alvarlegt heldur.

Einhverjum Reykvíkingnum leið sjálfsagt eitthvað illa þegar hjá honum vaknaði þörf til að keyra á nokkra bíla í götunni minni – og ég sem bý í Vesturbænum!

Var á sama tíma að ljúka við að lesa Einar Má – þar er líka mikið af fólki sem líður illa. Þar kemur lögreglan líka alloft fyrir, fangelsi, fíkn, fullir foreldrar og önnur ömurlegheit. Mér fannst bókin frábær, auðlesin og full af „tilfinningaklámi“ eða eins og Einar Már segir sjálfur um fjölmiðla sem taka viðtöl við ógæfumenn:

„Um þetta mætti skrifa langa ritgerð, hvernig undirheimaklámið er í rauninni bara til að sætta okkur smáborgarana við sjálfa okkur, því þegar öllu er á botninn hvolft eru skilaboðin einföld, hvað þetta sé frábær heimur sem við búum í, það séu bara einhverjir sem óvart hafa orðið útundan og helst fyrir ævalöngu“.

Kannski er maður bara smáborgari, alla vega var lestur Rimla hugans og ógæfumaðurinn á station-bílnum mér minning um hvað þetta sé frábær heimur sem ég bý í. Og í ofanálag var bílnum mínum lagt ofar í götunni, þannig að hann slapp!

Jólin eru tíminn þegar, við smáborgararnir, hugsum til þeirra sem hafa það ekki jafngott og við hin. Reynum að láta gott af okkur leiða, tökum þátt í sjálfboðaliðastarfi og sendum út jólakort til styrktar hinum og þessum félagasamtökum. Kannski við ættum að gera það oftar og margir gera það oftar. En jólin eru þessi tími þegar við erum í fríi til að hugsa um og hitta þá sem okkur standa næst og eðlilega hugsa menn þá líka til þeirra sem þeirra sem þeir ekki þekkja. Það er alla vega heill hellingur af góðum tilfinningum á sveimi þessa dagana og vonandi að þær nái til þeirra sem á þeim þurfa að halda; fólks eins og Einars Más, Einars Þórs og Evu – eða fólki eins og þau voru.

Gleðileg jól

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.