Þá nýfæddur Jesús í jötunni lá

Í Jólahugvekju 2007 fjallar Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson um barnið; Jesúbarnið, ungbörn og barnið í sjálfum okkar.

Jólahátíðin er gengin í garð.Við förum í huganum í ferðalag og nemum staðar í fjarlægu landi. Við hverfum til löngu liðins tíma og fáum að fylgjast með sögunni af ungri konu og heitmanni hennar þar sem þau koma til Betlehem. Og tími konunnar var kominn að hún yrði léttari en aðstæður voru allar erfiðar og loks vegna hluttekningar eins manns fengu þau María og Jósef inni í fjárhúsi þar sem María fæddi sveinbarn og vafði reifum og lagði í jötu.

Og þá gerðust undarlegir hlutir. Hirðar á völlunum urðu vitni að yfirnáttúrulegum atburði þegar himininn opnast og englar fögnuðu fæðingu frelsarans og hirðarnir fóru og fundu Jesúbarnið og veittu því lotningu.

Hversu oft höfum við ekki heyrt þessa sögu. Við heyrðum hana meira að segja – áður en við munum eftir okkur þegar við vorum enn lítil börn í skjóli foreldra á bernskuheimili okkar. Hversu dýrlegt var þá ekki að horfa á ljósin og jólaskrautið og fá allar gjafirnar.

Flestum finnst gott að hugsa til bernsku jólanna þegar birta jólaljósanna lýsti upp skammdegis myrkrið og allt var gott og hlýtt og friður ríkti á jörðu og friður innra með okkur.

II
Hvað er yndislegra en lítið barn? Barnið kallar fram það besta sem með okkur býr. Barnið afvopnar okkur algjörlega þegar það teygir hendurnar í áttina að okkur og það kallar fram bros og hlýju.

Er nokkuð yndislegra en að halda á nýfæddu heilbrigðu barni í faðmi sér og um leið og við fögnum og gleðjumst yfir barninu þá vonum við svo heitt og innilega að það verði gæfuríkt og að því farnist vel á vegferðinni. Við óskum hverju barni velfarnaðar að það verði ríkt af hamingju og eigi fyrir höndum langa og góða vegferð.

Ítrekað hef ég orðið vitni að því hvernig lítið barn kveikir bros á öldungs brá. Allt mýkist og höndin verður mild og hlý þegar strokið er um barnsins vanga. Það eru töfrar – engu líkir – .

Frammi fyrir litlu barni þurfum við ekki að leika eða látast heldur verðum við við sjálf eins og barnið – einlæg og eðlileg.

III
Táknmál þessarar sögu sem lesin er á jólum er magnþrungið og undirstrikar rækilega að Guð í hæstum hæðum vill að við treystum honum og komum til hans eins og börn – óttalaus, einlæg og eðlileg. Og að við eigum að lifa þannig í heimi hér. Við eigum að vera óttalaus, eins og engilinn sagði við hirðana forðum.

Þegar við hættum að vera börn og förum að leika með í leik hinna fullorðnu þá getum við samt fundið frið og gleði á jólum. Við náum að tengja í– tengja aftur – og enn og aftur – við barnið í Betlehem og við verðum aftur lítil börn sem í fögnuði gleðjumst yfir því að lífið er þrátt fyrir allt gott.

Og við eigum þá góðu og heilsusamlegu trú að Guð er með okkur á vegferðinni og hann þekkir okkur betur en við þekkjum okkur sjálf. Hann veit hvað hefur mótað hug okkar afstöðu til lífsins og samferðafólksins. Hann veit um vonirnar og vonbrigðin og hann telur tárin öll og gleðst með okkur þegar vel gengur. Frammi fyrir honum falla allar grímur og við verðum við sjálf. Verðum aftur börn sem þurfum á öryggi að halda og treystum algjörlega.

Hann þekkir barnið inni í okkur. Einlægnina og vilja til að gera vel og reynast vel. Hann þekkir bænir okkar fyrir okkur sjálfum og fólkinu okkar. Hann þekkir einnig kvíðann í huga okkar og óttan í hjartanu. Eins og hann fann óttann í hjarta Maríu þegar hún hélt á barninu sínu í örmum sér –en einnig gleðina yfir því að barn er oss fætt.

Þannig er lífið og það birtist okkur á helgri jólanótt í þessari yndislegu sögu sem fylgir okkur alla ævi á meðan hjartað slær og hugur vakir – við veitum honum lotningu sem á jólum fæddist – og svo væntum við þess að Guð muni leiða okkur inn í himinn sinn – og þar eru himnesk jól og birta og gleði sem engan enda tekur.

Guð gefi ykkur, Deiglufólki og Deigluvinum, gleðileg jól og farsæld á nýju ári.

Latest posts by Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson (see all)