Málefnasvelti Vinstri grænna

Vinstri Grænir segja ríkisstjórnina svelta heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu á fjármagni með einkavæðingu í huga. Það væri áhugavert að fá að vita hvernig Vinstri grænir komust að því að fjársvelti væri undanfari einkavæðingar. Það má geta sér til að útskýringin á þessari niðurstöðu sé jafnvel sú að VG hafi verið alltof uppteknir af því að vera á móti einkavæðingu í gegnum tíðina þannig að flokksmenn hafi ekki getað gefið sér tíma til að kynna sér ferli einkavæðingar.

Vinstri Grænir segja ríkisstjórnina svelta heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu á fjármagni með einkavæðingu í huga. Það væri áhugavert að fá að vita hvernig Vinstri grænir komust að því að fjársvelti væri undanfari einkavæðingar. Það má geta sér til að útskýringin á þessari niðurstöðu sé jafnvel sú að VG hafi verið alltof uppteknir af því að vera á móti einkavæðingu í gegnum tíðina þannig að flokksmenn hafi ekki getað gefið sér tíma til að kynna sér ferli einkavæðingar.

Það geta allir verið sammála orðum Jóns Bjarnasonar þingmanns Vinstri Grænna um að öflug heilsugæsla sé einn mikilvægasti þátturinn í almennri heilsuvernd og forvörnum,[en] að það sé því gróf afturför í heilbrigðismálum ef heilsugæslan á nú að draga saman þjónustu sína er hins vegar ekki hægt að taka undir. Í fyrsta lagi vegna þess að fullyrðingin er röng hjá þingmanninum. Í öðru lagi vegna þess að ekki hefur verið lagt til að heilsugæslan dragi saman þjónustu sína heldur að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins haldi sig innan ramma fjárlaga þar sem stofnunin hefur farið langt fram úr fjárheimildum og þar með brotið fjárlög. Í þriðja lagi vegna þess að augljóst er að einhversstaðar í kerfinu er brotalöm sem þarf að lagfæra. Mikilvægt er að horft sé á heildarmyndina í stað þess að rétta fram 400 milljónir sem leysa tímabundið vandamál. Einhverjir hafa deilt á sameiningu Heilsugæslu höfðuborgarsvæðisins og hvort hún hafi skilað sínu upphaflega markmiði, en líklegast er of snemmt að segja til um hvort það sé raunin eða jafnvel gæti verið að sú hagræðing sem horft var til í upphafi eigi enn eftir að koma í ljós. Í tilviki sem þessu þar sem opinber stofnun fer langt fram úr fjárheimildum væri réttast að endurskoða kerfið og fara yfir þætti eins og hvernig þjónustan er að virka og hver nýtingin sé og hvort horfa megi til einhverra þátta sem betur megi fara.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem að Vinstri Grænir reyna með sínum neikvæða málflutningi að halda því fram að hér á landi sé allt á vonar völ í heilbrigðismálum og að þessi málaflokkur sé sveltur í anda sveltistefnu ríkisstjórnarinnar eins og þeir orða það. Háttvirtur þingmaður Jón Bjarnason mætti kynna sér málin aðeins nánar áður en hann sendir frá sér harðorðar yfirlýsingar í fjölmiðlum um sveltistefnu – þar sem opinber framlög til heilbrigðismála hafa verið aukin all verulega undanfarin ár og eru hlutfallslega með þeim hæstu í heiminum á Íslandi. Það skýtur því nokkuð skökku við að heyra að hér sé málaflokkurinn sveltur og af því megi leiða að meginmarkmið heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, sé að einkavæða heilbrigðiskerfið eins og það leggur sig og taka upp „bandaríska kerfið. “

Hræðsluáróður af þessu tagi er alinn á algengum misskilningi á einkavæðingu annars vegar og einkarekstri hins vegar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei farið í grafgötur með það að vilji sé til þess að skoða leið einkaframkvæmdar í heilbrigðiskerfinu og þess má geta að einkarekstur er ekki nýr af nálinni í íslenska heilbrigðiskerfinu. Einkarekstur hefur verið við lýði á Íslandi í fjölda ára og er Reykjalundur gott dæmi í því samhengi. Í einkarekstri felst að einkaaðilar sjá um rekstur undir eftirliti hins opinbera og með þeim skilmálum sem því fylgja, en hið opinbera greiðir kostnaðinn. Það skiptir nefnilega ekki máli hver á framleiðslutækin, heldur skiptir hitt máli hvaðan fjármagnið kemur. Einkavæðing er hins vegar allt annars eðlis. Einkavæðing er eingöngu það þegar ríkisrekstur er seldur eða lagður niður og einkaaðilar, annaðhvort kaupa fyrirtæki eða fylla á einhvern hátt upp í það tóm sem að aflagning ríkisrekstursins skilur eftir sig. Málsveltir Vinstri grænir þurfa því ekki að hafa áhyggjur af því að fjársvelti leiði til einkavæðingar.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.