Ljósin að kvikna í sveitum landsins

Með nýrri ríkisstjórn hafa vonir glæðst um að íslenska bændastéttin fái loksins að vera með í samfélagi sem byggir á almennu verslunarfrelsi. Það er við hæfi að höfundar og stuðningsmenn miðstýringar- og haftakerfisins sem haldið hefur íslenskum bændum í ánauð skuli nú spyrna við fótum.

Til eru þeir sem hafa þungar áhyggjur af því að jarðir á Íslandi séu að verða eftirsóttari en þær hafa verið um áratugaskeið. Einn þeirra sem þakaður er af slíkum áhyggjum er Jón Bjarnason, þingmaður Vinstrigrænna, og urðu þær áhyggjur Jóni tilefni til þess að hefja umræðu utan dagskrár á Alþingi. Í umræðunum vísaði þingmaðurinn til „uppkaupa auðmanna á jörðum“ eins og mikilla hamfara sem herjuðu á sveitir landsins.

Íslenskir bændur hafa ekki riðið feitum hesti frá verðmætasköpun þeirri sem átt hefur sér stað í íslensku samfélagi síðustu áratugi. Þeir atvinnuvegir sem búið hafa við mest frelsi og verið almenn lausir við framleiðsluhöft og miðstýringu hafa hins vegar blómstrað og lagt þjóðarbúinu til miklar tekjur.

Það skýtur nokkuð skökku við þeir sem berja sér jafna á brjóst sem helstu talsmenn bænda á Íslandi skuli standa vörð um það kerfi sem heldur stétt bænda og atvinnugreininni í heljargreipum, kerfi miðstýringar og hafta. Og nú þegar bændur sjá færi á því að bæta verulega hag sinn, oftar en ekki með sölu á landspildum úr jörðum sínum, finna þessir sjálfskipuðu hagsmunaverðir þeirra því allt til foráttu.

Sú staðreynd að ákveðin landssvæði bænda eru verðmætari sem byggingarland fyrir sumarbústaði, útivistarsvæði eða því um líkt er auðvitað staðfesting á því hversu óarðbær íslenskur landbúnaður er og um leið órækur vitnisburður um endanlegt gjaldþrot hinnar miðstýrðu haftastefnu sem hér hefur ástunduð af framsóknarmönnum í fleiri en einum flokki áratugum saman.

Því fer hins vegar víðsfjarri að nú gangi menn um jarðir þessa lands, kaupandi hverja spildu til að leggja sveitir landsins í eyði. Þvert á móti hefur eftirspurn eftir bújörðum og lögbýlum í ábúð fjölgað, eins og landbúnaðarráðherra benti á í umræðum um þetta á mál á Alþingi.

Mest um vert er þó að nú á sér stað eignamyndun í sveitum landsins, fjármagnið sem streymir nú í sveitirnar með „uppkaupum auðmanna“ er íslenskum bændum auðvitað kærkomið. Þeir hafa nú svigrúm til að efla starfsemi sína og ófá dæmi er um að land sé tekið undir nýja starfsemi. Landbúnaðarráðherra orðaði þetta reyndar nokkuð vel í umræðunum: „Ljósin, sem slokknuðu í sveitum landsins fyrir nokkrum árum, hafa kviknað á ný.“

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að landbúnaðarkerfið verði endurskoðað með það fyrir augum að auka frelsi, bæta stöðu bænda og lækka verð til neytenda. Ástæða er til að hvetja landbúnaðarráðherra til lýsa upp fleiri sveitir með auknu verslunarfrelsi og endanlegu afnámi haftastefnunnar.

Slíkar breytingar hefðu verið óhugsandi í tíð fyrri ríkisstjórnar þar sem Framsóknarflokkurinn stóð vörð um hið miðstýrða haftakerfi sem eigið skurðgoð. Það er ekki síst fyrir tilstilli framsóknarmanna að íslenska bændastéttin hefur farið svo að segja varhluta af þeirri lífskjarabyltingu sem orðið hefur í íslensku samfélagi síðustu áratugina.

Það er því eflaust við hæfi að þeir skuli, með stuðningi vinstrigrænna, amast við þeirri verðmætasköpun sem nú er að verða í landbúnaðinum og öllum breytingum sem leitt gætu til þess að bændur yrðu ekki bara bústólpar heldur líka bissnessmenn.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.