Jeg laver Øl – Lífsreynslusaga

Ég hef notið þeirra forréttinda undanfarið að vinna með tveimur félögum mínum að stofnsetningu á Brugghúsi á Íslandi. Hefur þetta verið ákaflega spennandi og skemmtilegt verkefni og í mörg horn að líta.

Ég hef notið þeirra forréttinda undanfarið að vinna með tveimur félögum mínum að stofnsetningu á Brugghúsi á Íslandi. Hefur þetta verið ákaflega spennandi og skemmtilegt verkefni og í mörg horn að líta.
Við höfum leitað mikið í reynslubrunn Dana í þessum málum og kom sér ákaflega vel að hafa setið á skólabekk í danskri tungu í barnaskóla því það er furðumikið sem situr eftir þegar að er gáð. Er það einnig sérstakt fagnaðarefni að Kim Larsen skuli koma um næstu helgi á klakann að dreifa til okkar hinum dönsku menningaráhrifum sem greinarhöfundur hefur hrifist af þarlendis.
En að öllu gamni slepptu þá hefur ferlið sem brátt tekur enda með fyrstu bruggun í brugghúsinu, verið ákaflega lærdómsríkt og þá sérstaklega þau leyfi sem þarf að fá fyrir starfsemi sem þessari. Það eru aðallega þrennskonar leyfi sem þarf fyrir brugghúsi sem þessu:
Virðisaukaskattsnúmer
Áfengisframleiðsluleyfi.
Iðnaðarleyfi
Ég lagði óhræddur af stað og ætlaði mér að útvega virðisaukaskattsnúmer. Þar var mér tjáð að til þess þyrfti ég að hafa áfengisframleiðsluleyfi. Fór ég því uppfullur af djörfung til að sækja um slíkt. Þar var mér tjáð að til þess að fá slíkt leyfi þyrfti ég iðnaðarleyfi. Frekar var farið að draga mér eftir þau svör enda fór þannig að þegar ég fór eftir slíku leyfi var mér tjáð að það gæti ég ekki fengið nema að hafa virðisaukaskattsnúmer.
Þegar hér er komið við sögu sýndist mér að eftirlitsmúrar ríkisins væru með öllu ókleifir.
En það skal tekið fram að allt það starfsfólk hjá hinu opinbera, hvort sem það hefur verið hjá sýslumannsembættum, lögreglustjóra eða skattstjóra var allt ákaflega almennilegt og allt tilbúið að liðka fyrir hinni nýju iðngrein sem er að hefja sitt skeið á Íslandi. Enda kom á daginn að þetta tókst með góðu samstarfi allra þeirra aðila sem að málinu komu.
Margir eru kannski að velta fyrir sér hvað þetta Brugghús heitir. Því miður get ég ekki sagt það nafn þar sem það væri mögulega óbein auglýsing og að auglýsa áfengi er stranglega bannað. Reyndar er í lagi að auglýsa áfengi ef það er gert á vegum ÁTVR þegar bæklingur á þeirra vegum er gefinn út með vissu millibili.

Er ekki kominn tími á að við endurskoðum þann gríðarlega eftirlitsiðnað sem virðist fara ört stækkandi hér á landi? Ég hef ekkert á móti eftirliti með þeim greinum sem eðlilegt er að hafa eftirlit með en við þurfum samt að hafa rammann utan um þær með eðlilegum hætti.

Latest posts by Bjarni Einarsson (see all)