Viðskiptahagsmunir “íslenska ákvæðisins”

Þrátt fyrir að stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar hafi að mörgu leiti farið vel af stað undanfarna mánuði hafa reglulega skotist upp á yfirborðið mál sem ekki virðist vera fullur einhugur um. Hið svokallaða “Íslenska ákvæði” í Kyoto bókuninni er eitt þessara mála, og sitt sýnist hverjum.

Þrátt fyrir að stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar hafi að mörgu leiti farið vel af stað undanfarna mánuði hafa reglulega skotist upp á yfirborðið mál sem ekki virðist vera fullur einhugur um. Hið svokallaða “Íslenska ákvæði” í Kyoto bókuninni er eitt þessara mála, og sitt sýnist hverjum.

Íslenska ákvæðið er undanþága fyrir mjög lítil hagkerfi sem felur í sér að koldíoxíðlosun frá nýrri stóriðju eða stækkun stóriðju, sem leiðir til meira en 5% aukningar í heildarlosun þjóðarinnar, sé ekki talin með í heildarlosunarkvóta landsins. Vissulega gott sjónarmið að ákvæðið sé mikilvægt fyrir íslenskan iðnað og möguleika á nýtingu orkulindanna en augljóslega ekki jafn gott fyrir andrúmsloftið í kringum okkur.

Forsætisráðherra var spurður á alþingi hvort Ísland hygðist áfram sækja um undanþágu, sambærilegt við íslenska ákvæðið, í nýjum rammasamning um losun gróðurhúsalofttegunda sem væntanlega mun taka gildi árið 2012. Svarið var já, Ísland myndi stefna að því að halda inni sambærilegu ákvæði. Áður hefur umhverfisráðherra Samfylkingarinnar hins vegar lýst því yfir að hún telji að Ísland eigi ekki að sækja um sérstakar undanþágur sem fara fram úr viðmiðunarmörkum Íslands um losun gróðurhúsalofttegunda.

En hvernig er íslenskum hagsmunum eiginlega best borgið? Eru viðskiptalega sjónarmið algjörlega á skjön við umhverfissjónarmiðin? Það er nefnilega hreint ekki endilega víst, og góðir möguleikar á því að þetta fari ágætlega saman.

Þegar menn ræða um íslenska ákvæðið virðist það oft gleymast að það eru ekki bara eintómir viðskiptalegir kostir við ákvæðið því það kostaði sitt að ná því í gegn. Í staðinn fyrir þessa auknu heimild til losunar koltvíoxíðs afsöluðu íslensk stjórnvöld, ásamt nokkrum öðrum smáþjóðum, sér réttinum til að stunda frjáls viðskipti með kolefnisheimildir. Í stefnumörkun fyrri ríkistjórnar um ráðstafanir til að standa við skuldbindingar Íslendinga segir orðrétt:

“Kyoto-bókunin felur einnig í sér ákvæði um viðskipti milli landa með útstreymisheimildir. Útfærsla íslenska ákvæðisins takmarkar hins vegar þessi viðskipti þannig að Ísland getur ekki selt frá sér útstreymisheimildir.”

Eins og fram kemur í pistli hér á Deiglunni geta gríðarleg verðmæti verið falin í viðskiptum með svokölluð kolefniskredit, sem er viðskiptaeining losunarheimilda. Jafnvel fyrir stóriðju, þar sem álver sem ætti tiltekinn kvóta gæti t.d. með betri tækni minnkað útblástur og selt umframkvótann á frjálsum markaði. Annað álver sem byggði á stækkun, gæti síðan einfaldlega keypt kvóta til að auka losunarheimildir sínar. Dæmisögur sem þessar eru að sjálfsögðu byggðar á töluverði einföldun, en gefa engu að síður tilefni til umhugsunar.

Klukkan tifar og það er bara eitt kjörtímabil til stefnu til að taka ákvörðun um framhaldið. Árið 2008 rennur út frestur til að sækja um viðurkenningar á nýjum aðferðum til kolefnisbindingar, árið 2009 verður loftslagsráðstefna sameinuðu þjóðanna haldin og árið 2012 renna núgildandi lög og samningar úr gildi. Það er ljóst að nú þurfa stjórnvöld að stilla saman strengina í þessum málaflokki og skoða alvarlega hvort íslenskt viðskiptaumhverfi gæti ekki haft töluverðan hag af því að fórna íslenska ákvæðinu fyrir viðskiptafrelsi með losunarheimildirnar.

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)