Ólögmætur gagnagrunnur greiningardeildar

Gagnagrunnur greiningardeildar ríkislögreglustjóra er talinn styðjast við reglugerð dómsmálaráðherra sem sett var árinu. Ákvæði reglugerðarinnar um gagnagrunninn er hins vegar óljóst og lagaheimildin óskýr. Söfnun persónuupplýsinga í gagnagrunninn byggir því á mjög vafasömum grundvelli.

Gagnagrunnur greiningardeildar ríkislögreglustjóra er talinn styðjast við reglugerð dómsmálaráðherra sem sett var á árinu. Ákvæði reglugerðarinnar um gagnagrunninn er hins vegar óljóst og lagaheimildin óskýr. Söfnun persónuupplýsinga í gagnagrunninn byggir því á mjög vafasömum grundvelli.

Söfnun persónuupplýsinga í sérstakan gagnagrunn hlýtur almennt að teljast takmörkun á friðhelgi einkalífs. Stjórnarskráin tryggir rétt manna til friðhelgi einkalífs, en almennt er talið að takmarka megi persónufrelsið að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum: það verður að vera mælt fyrir um skerðinguna í lögum, brýn nauðsyn verður að koma til og tilgangurinn að vera málefnalegur. Af þessu leiðir að kveða verður skýrt á um það í lögum ef skerða á persónufrelsi einstaklinga.

Í lögreglulögunum er ríkislögreglustjóra veitt heimild til þess að halda skrár í tilteknum tilvikum. Þar er hins vegar hvergi minnst á heimild greiningardeildar ríkislögreglustjóra til þess að setja saman gagnagrunn með upplýsingum um einstaklinga. Það er eingöngu fjallað almennt um skyldu ríkislögreglustjóra til þess að starfrækja greiningardeild og þess getið að dómsmálaráðherra mæli nánar fyrir um starfsemi ríkislögreglustjóra.

Dómsmálaráðherra hefur gefið út reglugerð um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu og ýmsar reglugerðir sem fjalla um starfsemi ríkislögreglustjóra. Samkvæmt lögmætisreglunni þurfa stjórnvaldsfyrirmæli hins vegar að byggja á viðhlítandi heimild. Það þýðir meðal annars að reglugerðir, sem settar eru af ráðherra, verða að hafa stoð í lögum. Ákvæði lögreglulaganna veita ráðherra þess vegna ekki heimild til þess að setja reglur sem ekki rúmast innan þeirra.

Ákvæði um greiningardeild ríkislögreglustjóra er að finna í reglugerð dómsmálaráðherra nr. 404 frá árinu 2007. Það eina sem stendur um gagnagrunninn í framangreindri reglugerð eru eftirfarandi orð:

„Ríkislögreglustjóri setur verklagsreglur um miðlægan gagnagrunn samkvæmt 1. mgr. 6. gr. reglugerðar þessarar.“

Í 6. gr. reglugerðarinnar er hins vegar ekkert minnst á gagnagrunninn, heldur fjallar greinin um samstarf öryggisstofnana á alþjóðavettvangi. Ákvæði framangreindrar reglugerðar um gagnagrunn greiningardeildarinnar er því afar óljóst og lagaheimildin víðtæk og óskýr. Þar er hvergi að finna heimild greiningardeildar ríkislögreglustjóra til þess að setja saman gagnagrunn með upplýsingum um einstaklinga.

Það þarf því ekki að koma á óvart að gagnagrunnurinn hefur verið harkalega gagnrýndur. Þannig hefur Jóhannes Rúnar Jóhannsson, hæstaréttarlögmaður, sagt í fjölmiðlum að hann fái ekki séð að upplýsingasöfnun greiningardeildar sé í samræmi við lög og að hún brjóti þar að auki gegn mannréttindum þeirra sem í hlut eiga og þar með ákvæði stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs.

Í svari dómsmálaráðuneytisins við gagnrýni á lagastoð gagnagrunnsins var meðal annars vísað til þess að allir gagnagrunnar sem ríkislögreglustjóri ræki væru undir eftirliti Persónuverndar. Persónuvernd gaf hins vegar út í kjölfarið að engar upplýsingar væru til um það hjá stofnuninni hvaða persónuupplýsingum Ríkislögreglustjóri safnaði og vistaði í gagnagrunnum sínum.

Með reglugerð dómsmálaráðherra hefur ákvörðunarvaldið um gerð gagnagrunns verið fært frá löggjafanum og til ríkislögreglustjóra. Einhliða ákvörðun ríkislögreglustjóra er vægast sagt vafasamur grundvöllur fyrir skerðingu á friðhelgi einkalífs.

Latest posts by Drífa Kristín Sigurðardóttir (see all)