Gullmolinn sem gleymdist

Vorið 2006 hætti bandaríska sjónvarpsstöðin Fox sýningum á einum af áhugaverðari sjónvarpsþáttum seinni tíma, Arrested Development. Ekki er víst að allir kannist við þennan þátt því þessi gullmoli fór framhjá mörgum.

Vorið 2006 hætti bandaríska sjónvarpsstöðin Fox sýningum á einum af áhugaverðari sjónvarpsþættum seinni tíma, Arrested Development. Ekki er víst að allir kannist við þennan þátt því þessi gullmoli fór framhjá mörgum.

Þættirnir voru teknir til sýninga í Bandaríkjunum í nóvember 2003. Þeir segja frá hinni skrautlegu Bluth-fjölskyldu sem er á barmi gjaldþrots. Meðlimir fjölskyldunnar eru vægast sagt furðulegir. Afinn situr í fangelsi fyrir vafasama viðskiptahætti og amman er drykkfelld og staðráðin í því að ná sínu fram í einu og öllu. Michael er góði sonurinn sem reynir að halda fjölskyldunni saman og ala upp son sinn, George Michael, sem er ástfanginn af frænku sinni. Lindsay er spillta dóttirin sem elskar að versla. Gob er slæmi sonurinn ásamt því að vera misheppnaður galdramaður. Buster er svo yngsti sonurinn sem er með öllu ófær að standa á eigin fótum eftir að hafa búið með móður sinni í yfir þrjátíu ár. Ekki má gleyma Tobias, þveröfuga eiginmanni Lindsay sem hætti að starfa sem sálfræðingur til að reyna fyrir sér sem leikari.

Þættirnir eru gerðir í hinum svokallaða „mocumentary-stíl“, sem margir kannast við úr þáttunum The Office, og einkennist af því að myndatakan er frjálsleg en það á að gefa þáttunum nokkurs konar heimildamyndastíl. Þættirnir eru svo talsettir af hinum gamalreynda Ron Howard og er óhætt að segja að þeir væru ekki samir án hans.

Þrátt fyrir frábæra persónusköpun, snjallt handrit og góða leikara náðu þættirnir aldrei miklum vinsældum. Fyrsta þáttaröðin vann fjölda Emmy verðlauna þrátt fyrir dræmar undirtektir áhorfenda. Þá var gripið til þess ráðs að kalla til leiks fjölda frægra aukaleikara en allt kom fyrir ekki. Þáttaröð tvö gerði minni lukku en sú fyrri og þegar sú þriðja hófst hófu þáttagerðarmenn að grátbiðja áhorfendur um að mæla með þáttunum við vini og vandamenn, í veikri von um að auka áhorfið. Aðeins voru gerðir 13 þættir í þriðju þáttaröðinni og eftir það lauk þrautagöngu þáttanna. En hvað klikkaði?

Halda má því fram að þættirnir hafi ekki verið nógu aðgengilegir. Þá er bæði átt við óhentugan sýningartíma og uppsetninguna á þáttunum. Í Bandaríkjunum var þáttunum att gegn mánudags-ruðningi og áttu þeir lítinn möguleika í þeirri baráttu. Uppsetning þáttanna var hrá, engar sérstakar „punch-lines“ eða dósahlátur til að styðjast við, heldur byggðist grínið fyrst og fremst á samtölum milli persónanna. Þá þurfti áhorfandinn helst að fylgjast með frá byrjun og kynnast persónunum frá upphafi.

Ljóst er að þættirnir eru löngu orðnir að költ fyrirbæri. Þeir hafa skapað sér dyggan aðdáendahóp sem krefst þess að fleiri þættir verði framleiddir við dræmar undirtektir framleiðenda. Aðdáendur þáttanna hafa hins vegar ekki gefið upp alla von. Þeir halda baráttunni áfram og leyfa Arrested Development ekki að gleymast.