Ostabúð Ríkisins

Um þessar mundir standa yfir á Alþingi umræður um frumvarp til laga um afnám einkasölu ríkisins á fituskertum og vægt mygluðum ostum. Málið er hið umdeildasta og mörg sjónarmið hafa komið fram, með og á móti. Ostabúð ríkisins er því komin í eldlínu þjóðmálaumræðunnar og óvissa ríkir um framtíð hennar.

Ostabúð Ríkisins starfar samkvæmt lögum nr. 36/1969 um verslun með smjör og osta. Lögin voru á sínum tíma sett um það markmið að stýra almenningsneyslu á því sem talin var óholl og ósækileg neysluvara. Enda fjöldamargar rannsóknir sýnt að óhófleg neysla á smjöri og ostum geti valdið alvarlegum heilsufarssjúkdómum á borð við kransæðastíflur og háan blóðþrýsting.

Ekki er langt síðan sala á smjöri var gefin frjáls. Nú er komin fram ný breytingartillaga á Alþingi um að einnig skuli gefin frjáls sala á fituskertum og lítt mygluðum ostum. Rökin með breytingartillögunni eru þau að einkasala ríkisins á smjöri og ostum geri lítið til að halda aftur af óhóflegri neyslu og að hún sé hvorki réttlætanleg né líkleg leið til árangurs að því markmiði. Íslenska ríkið hafi á undanförnum árum dregið sig út úr rekstri sem einkaaðilar geti sinnt jafn vel eða jafnvel betur til hagsbóta fyrir neytendur og viðskiptafrelsi, auk þess sem draga megi í efa tilgang með neyslustýringu þeirri sem lögin miða að. Að einstaklingurinn geti – og eigi – sjálfur að bera ábyrgð á eigin hegðun og neyslu svo fremi sem hún sé innan ramma laganna.

Frumvarp þetta hefur mætt töluverðri andstöðu nú sem á undanförnum árum þegar hún hefur verið sett fram. Helstu mótrökin hafa verið á þá leið að aukið frelsi í ostasölu muni beinlínis leiða til aukinnar neyslu almennings og þannig auka á álag í heilbrigðiskerfinu. Að vegið sé að hinni nýju „öld lýðheilsunnar“, eins og þingmenn Vinstri Grænna hafa orðað það, máli sínu til stuðnings. Þingmenn Vinstri grænna og fyrirrennara þess flokks hafa gjarnan mótmælt auknu viðskiptafrelsi og afnámi hafta eins og nú er á borðinu. Þar má nefna andstöðu við afnámi einkaleyfis ríkisins á síldarsölu, einkasölu ríkisins á útvarpsviðtækjum og einkarétti ríkisins til útvarpsreksturs. Eitt síðasta vígið sem féll var þegar afmuninn var einkainnflutningur ríkisins á eldspýtum, fyrir einungis 15 árum síðan. Í dag virðist hið sama uppi á teningunum og vígbúnaður hafinn meðal þeirra.

Aðrir hafa áhyggjur af skertu úrvali góðra osta. Þeir saka þá sem standa að frumvarpinu að sýna ostneyslu í hálf rómantísku og kjánalegu ljósi. Að ímynda sér að á stöðum eins og í Kringlunni og Skólavörðustígnum muni spretta upp sérstakar gourmet ostabúðir sem sérhæfi sig í hágæða ostum, með bústnum sölumönnum íklæddir röndóttum bolum með franskar alpahúfur bak við búðarborðið. Þeir eru sakaðir um að ímynda sér að neysla góðra osta geti orðið að einhvers konar menningarfyrirbæri líkt og við Miðjarðarhafið. Mun líklegra sé að Nóatún, Bónus og Krónan fari að bjóða ódýra lággæðaosta til sölu á kostnað þess góða úrvals sem haldið er uppi í flestum Ostabúðum ríkisins. Fylgjendur frumvarpsins hafa hins vegar bent á að ef sú kenning reynist á rökum reist þýði það að íslenska ríkið sé að niðurgreiða mikið úrval hágæðavöru með fjárframlögum úr ríkissjóði. Það sé ekki í samræmi við ábyrga né sjálfbæra meðferð skattfjár.

Enn aðrir hafa áhyggjur af því að áhrifin verði þveröfug á við það sem Landlæknisembættið hefur áhyggjur af. Að vegna þess að núverandi álagning Ostabúðar ríkisins sé svo lág – einungis 13% á fituskerta osta og 6,5% á myglaða osta – að þá muni verðið hækka. Til að koma til móts verði ostagjald lækkað í áföngum um 50% til ársins 2008, með tilheyrandi tekjurýrnun fyrir íslenska ríkið. Þessum málflutningi hefur verið svarað þannig að sýna megi með einfaldri stærðfræðijöfnu að ostagjaldið vegi upp litla álagningarprósentu og því jafnist þetta út á endanum. Ef rík ósk sé um að halda verðlagi á ostum háu sé ostagjald a.m.k. mun betri leið en sölueinokun ríkisins og áhyggjur um að hið opinbera geti ekki stýrt verðlaginu úr tómu lofti gripnar.

Fylgismenn afnámsins hafa einnig bent á að fylgni milli framboðs á ostum og óhóflegrar neyslu geti ómögulega verið byggð á gallalausum rannsóknum, og benda á Grænland og ostaneyslu á Grænlandi máli sínu til stuðnings. Óvíða sé framboð smjörs og osta eins mikið stýrt og haldið niðri og á Grænlandi á meðan óhófleg neysla og vandamál henni tengd séu óvíða meiri. Tengsl milli framboðs og vandamála hljóti því að vera byggð á ófullkominni vísindakenningu sem engin ástæða sé til að elta.

Það verður því fróðlegt að fylgjast með framgangi þessa máls. Hvort eitt síðasta vígi ríkisverslunar og einokunar muni falla á næstu misserum eða hvort hugsjónin um opinbera neyslustýringu muni lifa áfram um ókomin ár.

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.