Sundraðir falla menn

Fyrir rúmum fimmtán mánuðum gengu sjálfstæðismenn í Reykjavík til meirihlutasamstarfs með öðrum flokki í borgarstjórn í fyrsta sinn í sögunni. Samstarfið byggði á naumum meirihluta þar sem eini borgarfulltrúi Framsóknarflokksins hafði oddaatkvæði. Meirihlutinn féll þegar sá fulltrúi ákvað að söðla um. Þetta eru staðreyndir og verður ekki um þær deilt. Um ástæður þess að fulltrúi framsóknarmanna í borgarstjórn ákvað að mynda nýjan meirihluta með vinstrimönnum eru hins vegar áhöld uppi.

Fyrir rúmum fimmtán mánuðum gengu sjálfstæðismenn í Reykjavík til meirihlutasamstarf með öðrum flokki í borgarstjórn í fyrsta sinn í sögunni. Samstarfið byggði á naumum meirihluta þar sem eini borgarfulltrúi Framsóknarflokksins hafði oddaatkvæði. Meirihlutinn féll þegar sá fulltrúi ákvað að söðla um. Þetta eru staðreyndir og verður ekki um þær deilt. Um ástæður þess að fulltrúi framsóknarmanna í borgarstjórn ákvað að mynda nýjan meirihluta með vinstrimönnum eru hins vegar áhöld uppi.

Hugmyndafræðilegur ágreiningur?

Því hefur verið haldið fram að hugmyndafræðilegur ágreiningur um sölu hlutabréfa Orkuveitu Reykjavíkur í útrásarfyrirtækinu Reykjavik Energy Invest hafi orðið til þess að upp úr meirihlutasamstarfinu slitnaði. Vissulega greindi menn á um hvenær heppilegast væri að losa um hlut hins opinbera í REI en var það ástæða þess að upp úr slitnaði?

Einstakir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins létu hafa það eftir sér að þeir væru mótfallnir því að hið opinbera ætti aðild að slíku samstarfi við einkaaðila og því ætti Reykjavíkurborg að selja sinn hlut þegar í stað. En er það stefna Sjálfstæðisflokksins í þessum málum? Er það slíkt grundvallaratriði í stefnunni að ekki var hægt að leysa úr ágreiningi um tímasetningu á sölu hlutarins í REI?

Stefna Sjálfstæðisflokksins í þessum málum birtist í ályktun landsfundar flokksins sem haldinn var í apríl síðastliðnum, fyrir einungis sex mánuðum. Þar segir að landsfundur fagni aðkomu einkaðila að útrás orkufyrirtækjanna og að tímabært sé að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins í þeirri útrás. Vissulega má taka undir það sjónarmið að ekki eigi að nýta opinbera fjármuni í áhættasamar fjárfestingar en að verkefnið sem slíkt hafi verið svo andstætt stefnu Sjálfstæðisflokksins að meirihlutasamstarfi í Reykjavíkurborg hefði verið fórnandi er hreinn fyrirsláttur.

Slæleg vinnubrögð

Vinnubrögð þeirra sem stóðu að sameiningu REI og Geysir Green Energy er mjög ámælisverð. Mjög gagnrýnisvert er hversu brátt þetta mál bar að og að kjörnir fulltrúar, sem komu að ákvarðanatökunni, hafa í raun ekki áttað sig á því hvað þeir voru að ákveða. Um kaupréttarsamninga hefur mikið verið fjallað og ljóst má vera að mönnum voru afskaplega mislagðar hendur við þau mál.

Fráfarandi borgarstjóri, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, hefur verið gagnrýndur mjög fyrir sína framgöngu í málinu. Óhætt er að fullyrða að lyktir málsins hafi komið verst við fráfarandi borgarstjóra, þ.e. að hann þurfi nú að víkja úr þeim stóli. Samherjar Vilhjálms í borgarstjórn hafa kvartað sárlega yfir framgöngu hans, ekki bara í REI-málinu, heldur í ýmsum öðrum málum. Að sama skapi hafa ýmsar embættisathafnir Vilhjálms sætt gagnrýni, einkum í ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins, auk þess sem hörð gagnrýni hefur birst í skrifum á Deiglunni. Á hitt ber þó að líta að margt af því sem Vilhjálmur gerði sem borgarstjóri var vinsælt hjá stórum hluta borgarbúa. Má þar nefna framgöngu hans í málefnum miðbæjarins og fleira.

Eðlilega hafa þær spurningar vaknað hvort meirihlutinn hafi fallið vegna framgöngu Vilhjálms, bæði innan eigin flokks og út á við. Vissulega gerði hann sig sekan um þau mistök að mislesa bakland sitt í borgarstjórnarflokknum. Hann taldi sig eiga þar tryggan hóp sem stæði með sínum leiðtoga í gegnum þykkt og þunnt. Hann gerði sig einnig sekan um að trúa orðum borgarfulltrúa Framsóknarflokksins í blindni á ögurstundu.

Fyrir þessar yfirsjónir hefur Vilhjálmur nú goldið með starfi sínu sem borgarstjóri.

Svik og sundurlyndi

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa allir sem einn gagnrýnt borgarfulltrúa Framsóknarflokksins og sakað hann um svik vegna fall meirihlutans. Það er vissulega réttmæt gagnrýni. Björn Ingi Hrafnsson sveik samstarfsmenn sína í borgarstjórn með því að söðla um og mynda nýjan meirihluta með vinstriflokkunum þremur. Hann sveik Vilhjálm aðeins nokkrum klukkustundum eftir að hafa lofað honum að þeir myndu leysa úr sínum ágreiningi.

Allar samsteypustjórnir eru grundvallaðar á trausti, persónulegu trausti milli þeirra sem þar ráða för. Samsteypustjórnir Sjálfstæðisflokksins hafa alla jafna gengið mjög vel. Hvort ástæðan fyrir því sé sú að sjálfstæðismenn séu ekki eins svikulir og aðrir stjórnmálamenn eða sú að þeir hitti alltaf á svo góða samstarfsmenn, skal ósagt látið. Hitt er hins vegar víst að samstarfsaðilar sjálfstæðismanna í samsteypustjórnum hafa getað gengið út frá því að sjálfstæðismenn ganga í takt í slíku samstarfi. Í þessu liggur styrkur Sjálfstæðisflokksins og þetta er snar þáttur í grunneðli hans.

Á einhverjum tímapunkti virðast borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa misst sjónar á þessu grundvallaratriði. Þeir létu óánægju sína og pirring með starfshætti og samskipti innan eigin flokks verða að vopni í höndum andstæðinga flokksins. Með því að láta í það skína að þeir fylgdu oddvita sínum ekki að málum, hentu þessir kjörnu fulltrúar sjálfstæðismanna pólitískri stöðu borgarstjórnarflokksins út í hafsauga og færðu andstæðingum flokksins völdin í borginni á silfurfati.

Borgarfulltrúi Framsóknarflokksins skaut meirihlutann niður með því að svíkja trúnað við fráfarandi borgarstjóra. Það var Björn Ingi sem tók í gikkinn en einungis eftir að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfðu hlaðið byssuna, rétt honum vopnið í hendur og stillt fyrir hann miðið. Vonandi hafa menn lært sína lexíu af þessu máli öllu, nógu dýru verði er hún keypt.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)