Einstök upplifun

Þýska leik- og söngkonan Hanna Schygulla, sem er þekktust fyrir hlutverk sín í kvikmyndum Rainers Wernes Fassbinders, kom til landsins á dögunum til að veita heiðursverðlaunum Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinnar viðtöku. Hún hélt einnig tónleika á Nasa sem pistlahöfundur var svo heppinn að detta inn á, en tónleikarnir voru alveg hreint einstök upplifun.

Þýska leik- og söngkonan Hanna Schygulla, sem er þekktust fyrir hlutverk sín í kvikmyndum Rainers Wernes Fassbinders, kom til landsins á dögunum til að veita heiðursverðlaunum Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinnar viðtöku. Hún hélt einnig tónleika á Nasa sem pistlahöfundur var svo heppinn að detta inn á, en tónleikarnir voru alveg hreint einstök upplifun.

Tónleikarnir voru eins konar ævisaga Schygullu en hún fór með áhorfendur í ferðalag um líf sitt allt frá því að hún var ung stúlka að alast upp á árunum eftir stríð í Þýskalandi og þangað til að hún var orðin þekkt leikkona. Söng hún svo lög sem hafa haft áhrif á hana á lífsleiðinni. Þess á milli talaði hún við áhorfendur um líf sitt á þýsku og var enskri þýðingu varpað á skjá. Gaman var að hlusta á þýskuna en Schygulla hefur einstaklega fallegan og skýran framburð.

Ótrúlega skemmtilegt var að fylgjast með þessari merkilegu konu sem hefur greinilega lifað viðburðarríku lífi og komið víða við. Frábært var að heyra hana taka lög með Rolling Stones, John Lennon, Elvis Presley, Edith Piaf og fleirum. Þó var hápunkturinn að mati pistlahöfundar þegar Schygulla ræddi um hversu mikil áhrif Janis Joplin hafði á hana og tók hún lagið Me and Bobby Mcgee með sínum sérstaka stíl.

Hanna Schygulla er þekktari sem leikkona en söngkona en þarna mátti sjá að hún er jafnvíg á söng og leik. Röddin er seiðandi og sterk þó Schygulla sé komin á efri ár. Hún hefur einnig gríðarlega persónutöfra og er einlæg í söng sínum. Hún nær til áhorfenda og fangar athyglina frá fyrsta augnabliki og erfitt var að taka augun af henni.

Flestir þekkja Schygullu fyrir hlutverk sitt í Fassbinder myndinni Lili Marleen sem kom út árið 1981 en hún lék í yfir 20 myndum Fassbinders en hefur leikið í hátt í 80 myndum yfir ævina. Hún er enn að en nýjasta myndin hennar Himinbrún (Edge of Heaven) eftir Fatih Akin var sýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í vor.

Schygulla lauk tónleikunum með að syngja lagið Lili Marleen úr samnefndri mynd og tókst henni mjög vel upp og fékk dynjandi lófatak fyrir. Tónleikarnir voru persónulegir og tókst henni að snerta við áhorfendum sem sínum sérstaka sjarma. Það er ekki á allra færi að ná til fólks sem söng sínum en Hanna Schygulla hefur þennan óútskýranlega þokka sem til þarf.

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.