Þegar Kristinn H. Gunnarsson hafði rétt fyrir sér

Byggðaþróun á Íslandi er með þeim hætti að það er bæði óþarft og óskynsamlegt að fara bera fé að fólki til að fá það til að flytja á mölina. Landsbyggðin hefur nóg að vandræðum fyrir.

Byggðaþróun á Íslandi er með þeim hætti að það er bæði óþarft og óskynsamlegt að fara bera fé að fólki til að fá það til að flytja á mölina. Landsbyggðin hefur nóg að vandræðum fyrir.

Í seinustu viku var greint frá því að það væri til athugunar hjá Vinnumálastofnun að greiða þeim sérstaka flutningsstyrki (allt að 200 þúsund krónum) sem vildu flytja sig milli landshluta í leit að atvinnu. Í nýlegri grein á vef Bæjarins Besta, mótmælir Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslynda flokksins [ritað í október 2007] þessum hugmyndum og segir þær í ósamræmi við áður kynntar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Það verður seint sagt um Kristinn, að hann hafi oft haft gæfu til að hafa rétt fyrir sér um dægurmál, en í þetta skipti hefur hann á réttu að standa. Ef hann heldur baráttu sinni í þessu máli til streitu þá legg ég til að Ungir sjálfstæðismenn geri hann að heiðursfélaga í samtökum sínum fyrir hetjulega baráttu gegn óþarfa sóun á almannafé. Með þeim hætti mun Kristinn einnig ná þeim merka áfanga að hafa með einum eða öðrum hætti verið viðriðinn starfsemi allra þeirra flokka sem nú eiga fulltrúa á Alþingi.

Það er því miður síður enn svo undantekning að starfsmenn opineberra stofnanna eyði tíma og fé til að móta tillögur um hvernig auka mætti fjárútlát innan veggja sinna, þótt slíkt ætti auðvitað ekki að viðgangast. Frumkvæðið um lagasetningu á borð við þessa sem Vinnumálastofnum leggur til ætti auðvitað að koma frá Alþingi eða hugsanlega félagsmálaráðherra. Nógu slæmt er að lagasetning hefur færst að nánast öllu leyti til ráðuneytanna. Ótækt er að hún fari beinlínis í hendur forstjóra ríkisstofnana, og það verði síðan ráðherrans að “taka afstöðu” til tillagnanna og Alþingis að stimpla þær eins og annað sem frá ríkisstjórninni kemur.

En snúum okkur aftur að tillögunum sjálfum. Betra atvinnuástand í öðru byggðalagi er meira en nægilegur hvati til að menn flytji sig um set, ef þeir á annað borð hafa áhuga á því. Það er engin ástæða fyrir samfélagið að fara að brenna peningum í að reyna gera þann flótta enn fýsilegri. Slíkt er algjört óþarfainngrip í atvinnumarkaðinn. Að auki er þurfa menn nú ekki að vera miklir byggðastefnuunnendur til að sjá hve fáranlegar þessar hugmyndir eru. Eitt er að mótmæla því að fé sé varið í óhagkvæmar fjárfestingar og niðurgreiðslu á úreltri og óhagkvæmri framleiðslu, hér og þar um landið. En að beinlínis ota að mönnum seðlum fyrir að gefast upp á heimabyggðinni? Jafnvel mér, dæmigerðum fulltrúa 101 snobbpakksins, ofbýður slík vitlausa.

Því miður er oft erfitt að stoppa útgjaldaboltann þegar hann er einu sinni farinn af stað. Bara það eitt að umræða um nýjan sjóð eða styrk sé farin af stað þýðir að yfir helminglíkur séu á að honum verði komið á. Gagnrýnin sem fram kemur í þessum pistli mun líklegast einungis ná því fram að styrkurinn verði veittur til þeirra sem flytja úr borg og út á land. Þar með mun Ríkinu takast tvennt til: að borga fólki í atvinnuleit fyrir að flytja frá svæðum þar sem fjölbreytta atvinnu er að finna, og að auka enn frekar á fordóma okkar í 101 snobbliðinu í garð hinna dreifðari byggða, sem “enginn vill búa í þótt þeim sé borgað fyrir það,” eins og sagt verður í költuðu og víðsýnu partýi á Klapparstígnum.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.