Miðbæjarmæða

Fyrir helgi lýsti lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins því yfir að hann hygðist leggja fram tillögu fyrir borgarstjórn um að takmarka opnunartíma skemmtistaða í miðbænum við kl. 01:00 eða kl. 02:00 um helgar. En hefur ástandið niður í miðbæ breyst svo mikið frá því sem áður var?

Fyrir helgi lýsti lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins því yfir að hann hygðist leggja fram tillögu fyrir borgarstjórn um að takmarka opnunartíma skemmtistaða í miðbænum við kl. 01:00 eða kl. 02:00 um helgar. Hann lýsti því einnig yfir að réttast væri að færa skemmtanalíf Reykjavíkur sem mest frá miðbænum. Þar er væntanlega byggt á þeim röksemdum að stemma verði stigu við þeirri óöld sem verið hefur í miðbænum síðustu mánuði.

Lögreglustjórinn sagði að íbúar miðbæjarins hafi fengið sig fullsadda á þeim látum sem fylgja skemmtistöðunum og því þurfi að grípa til aðgerða. En hefur ástandið breyst svo gríðarlega? Eru íbúar miðbæjarins ekki í sömu sporum og þeir hafa alltaf verið? Í umræðu síðustu vikna hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að ástandið í miðbænum hafi versnað upp á síðkastið. Miðbænum hefur einfaldlega alltaf fylgt mikið líf og fjör. Þetta veit fólk sem tekur ákvörðun um að fjárfesta í fasteign niður í miðbæ. Hávaðinn, sem slíkur, ætti allavega ekki að koma þeim í opna skjöldu. Jafnframt eru rök lögreglustjórans um að skemmtanalífið í miðbænum sé að bola burt íbúum þess fásinna, sem sést best af því að fasteignaverð í miðbæ Reykjavíkur er með því hæsta í landinu.

Stytting opnunartíma skemmtistaða gæti í fyrstu andrá virst vera hentug lausn á þessu vandamáli. En raunin er önnur. Áður en opnunartími skemmtistaða var lengdur, fyrir nokkrum árum, streymdu allir miðbæjargestir út af skemmtistöðunum á göturnar á sama tíma og því fylgdu miklir árekstrar og læti. Voru þá allir þ.m.t. lögreglan sammála um að það ástand sem þá var uppi væri óásættanlegt. Nái tillögur lögreglustjórans fram að ganga er líklegt að miðbærinn renni aftur í sama far.

Einnig verður að geta þess að íslensk drykkjumenning býður ekki upp á mikla pöbbasetu og verð áfengis ekki heldur. Myndu skemmtistaðir loka kl. 01:00 eða kl.02:00 þyrfti fólk að koma sér af stað í bæinn rétt fyrir miðnætti og yrði því minna ónæði í heimahúsum um það leyti. En þá er ekki öll sagan sögð. Ekki er nóg með að vandræði myndu skapast þegar allt fólkið streymir á göturnar á þessum tíma kvölds heldur skapast annað vandamál þegar skemmistaðirnir loka. Fáir skemmtanaþyrstir miðbæjargestir myndu halda heim í háttinn á þessum tímapunkti. Þá aukast líkur á eftirpartýjum með tilheyrandi látum og vitleysu.

Breyting á opnunartímum er því ekki lausn heldur tilfærsla á vandamálum. Vandamálin eru slagsmál og læti í miðborginni. Breyting á opnunartíma færir vandamálin til í tíma og í mörgum tilfellum í heimahús en það leysir þau ekki.

Lausnin felst í sýnilegri löggæslu. Í kjölfar árásar á sjálfan landsliðsfyrirliðann Eið Smára Guðjohnsen í miðbænum í sumar kom talsmaður lögreglunnar fram og sagði að hentugast væri fyrir lögregluna að halda sig fjarri miðbænum en sinna útköllum þegar þau koma. Þetta viðhorf hefur sem betur breyst.

Í sýnilegri löggæslu þurfa ekki að felast fjöldahandtökur, líkamsleitir eða sektir fyrir þvaglát og glerbrot. Ofbeldisseggir og subbur halda sig á mottunni ef lögreglan stendur við hliðina á þeim. Ef lögreglan væri sýnileg og beitti valdi sínu hóflega ætti miðbærinn að vera snyrtilegri, rólegri og líkamsárásum að fækka.