Hlutafélagavæðing OR

Í morgun samþykkti stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að breyta rekstrarfyrirkomulagi stofnunarinnar í hlutafélag. Verður því nú beint að eigendum fyrirtækisins að úr verði hlutafélag sem taki til starfa 1. janúar á næsta ári. Einkavæðing Orkuveitunnar er þó ekki sjálfsögð.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í morgun að beina því til eigenda fyrirtækisins að rekstrarformi þess verði breytt úr sameignarfyrirtæki í hlutafélag og að hlutafélagið taki til starfa 1. janúar 2008. Þá var samþykkt að beina því til eigenda að óskað verði eftir því við iðnaðarráðherra að flutt verði frumvarp til laga um breytingu á lögum um Orkuveitu Reykjavíkur í samræmi við þetta.

Helstu rökin fyrir því að breyta Orkuveitunni í hlutafélag eru fjárhagsleg ábyrgðarmál eigenda, fyrirliggjandi ábending til Eftirlitsstofnunar EFTA vegna samkeppni Orkuveitunnar við hlutafélög á orkumarkaði og skattamál. Þá er talið að breytingin geti sparað Orkuveitunni 800 milljónir króna í skattgreislur á næsta ári því tekjuskattshlutfall sameignarfélaga er 26% en hlutafélaga einungis 18%.

Í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur segir:

Þegar sameignarfyrirtækið Orkuveita Reykjavíkur var stofnað haustið 2001 var tekin ákvörðun um að færa rekstrarform fyrirtækisins úr opinberu umhverfi í einkaréttarlegt umhverfi. Breyting á rekstrarfyrirkomulagi var nauðsynleg þar sem fyrirtækið hafði áður verið borgarstofnun alfarið í eigu Reykjavíkurborgar en ákveðið var að fimm önnur sveitarfélög gerðust meðeigendur að sameignarfyrirtækinu. Þetta var umtalsverð breyting og í fyrsta sinn sem rekstarformi fyrirtækis í eigu Reykjavíkurborgar var breytt með þessum hætti. Við breytinguna urðu t.d.þeir starfsmenn sem verið höfðu opinberir starfsmenn það ekki lengur og ýmiss löggjöf sem tilheyrir opinberum rekstri gilti ekki um sameignarfyrirtækið s.s. upplýsingalög.

Minnihluti stjórnar Orkuveitunnar gagnrýnir samþykktina harðlega. Fulltrúar Vinstri grænna lögðu fram frávísunartillögu þar sem þeir sögðu ekki eðlilegt að bera fram tillögu um breytt rekstrarform Orkuveitunnar á vettvangi stjórnarinnar. Það væri hlutverk eigenda að leggja fram slíka tillögu sé til þess pólitískur vilji. Tillögu VG var vísað frá. Þá gagnrýndu þeir vinnubrögð stjórnarinnar, sögðu breytinguna borna upp í flýti, umræða væri takmörkuð og ekki væri gefinn tími til að fjalla um alla þætti málsins. Vinnubrögðin veki tortryggni og hér sé um að ræða fyrsta skrefið í átt til einkavæðingar fyrirtækisins.

Fulltrúi Samfylkingarinnar sagði að tillagan væri “hálfköruð”. Það sætti furðu að meirihluti stjórnar OR afgreiði tillögu um formbreytingu á rekstri félagsins á hlaupum og vísi málinu til eigenda án þess að lykilgögn hafi verið lögð fram. Þetta undirstriki veikleika þess að frumkvæði þessarar umræðu komi frá stjórn fyrirtækisins en ekki eigendum.

Við afgreiðslur opinberra mála hefur minnihlutinn ósjaldan eitthvað neikvætt um málið að segja. Það má þó ekki líta svo á að ekkert sé til í því sem frá honum kemur. Dæmi eru um opinber fyrirtæki sem hafa verið hlutafélagavædd og í kjölfarið orðið að einkafyrirtæki. Nærtækasta dæmið er líklega Landssíminn. Eftir að rekstrarfyrirkomulagi hans var breytt í hlutafélag varð úr einkafyrirtæki skráð í Kauphöll Íslands. Síminn varð svo einkafyrirtæki þegar Skipti, félag í eigu Kaupþings og Exista meðal annarra keypti hann á síðasta ári. Þá hefur rekstrarfyrirkomulagi Ríkisúvarpsins verið breytt í opinbert hlutafélag, ohf. Má því ætla að með “o”-inu hafi verið tryggt að RÚV verði ekki einkavætt.

Hvað orkuveitu Reykjavíkur varðar er ekki útilokað að úr verði einkafyrirtæki. Þó er mörgum spurningum enn ósvarað er varða útfærslu á einkavæðingunni. Þá eru ýmis álitamál sem stjórnvöld þurfa að fjalla um áður en að þessu verður. Til dæmis þarf að skoða hvort það eigi að vera á hendi þess opinbera að sjá landsmönnum fyrir orku og hvort skynsamlegt sé að einkavæða orkufyrirtæki af þessari stærð. Borgar það sig?

Þrátt fyrir að stjórn Orkuveitunnar virðist lítið hafa rætt um málið þá er greinilegt að umræðu er þörf, bæði í stjórninni, í borgarstjórn og á Alþingi. Komi til þess að selja Orkuveituna til einkaaðila er þó skynsamlegt fyrir hið opinbera að íhuga í það minnsta að vera kjölfestufjárfestir í slíku hlutafélagi.

Kristín María Birgisdóttir
Latest posts by Kristín María Birgisdóttir (see all)

Kristín María Birgisdóttir skrifar

Kristín María hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.