Seinasti strætó

<%image(Bulat_Okudschawa_1972.jpg|108|180|Bulat_Okudschawa_1972.jpg)%>Eru næturstrætóar lausn á samgönguvanda helgarinnar? Eða á að fjölga leigubílum? Eiga þeir þá að vera 560 eða 570? Hvort eiga næturstrætóarnir að keyra báða helgardagana eða bara annan? Á löggan að hafa sérstaka gæslu um leigubílaröðina? Hve margir lögreglumenn eiga að standa þar? Duga tveir eða þarf þrjá? Þessum, og öðrum spurningum verður ósvarað í pistli dagsins.

Þegar ég get ekki synt upp í straum
og mótlætið megn mér um verður
í ljósbláum vagni ég keyri á brott
með seinustu
heimferð.

Ó, miðnæturstrætó, sem þeysir um torg
og stræti og breiðgötur borgar,
bjargaðu okkur, skipbrotsmönnum,
frá drukknun
og sorgum.

-Búlat Okúdjava, Seinasti strætó, 1957 [Þýðing höfundar]

Georgíski listamaðurinn ljóðskáldið Búlat Okúdjava, var í senn hógvær og lítitlátur maður, líklega fínir eiginleikar fyrir listamenn í Sovétríkjunum til að hafa. Hann hlaut enga formlega tónlistarmenntun og leit á sjálfan sig raunar ekki sem tónlistarmann, þrátt fyrir að hafa samið fleiri tugi sönglaga. “Þegar ég byrjaði að spila, kunni ég bara þrjú grip,” sagði hann í viðtali undir lok ævinnar, “en í dag kann ég sex.” Okúdjava lést í París árið 1997.

Lög Búlats eru sjaldnast sérstaklega pólitísk. Þetta eru fyrst og fremst fögur og hugljúf kvæði. En auðvitað eru þau, eins og önnur list, ákveðin heimild um þann tíma sem þau voru samin í. Þannig er lagið hans um Seinasta strætóinn frá árínu 1957 ákveðinn heimild um það að almenningssamgöngur á nóttunni í Moskvu fyrir hálfri öld síðan voru líklega svipað góðar og þær eru í Reykjavík í dag. Það er að segja: seinasti strætóinn keyrir í kringum miðnætti.

Undirritaður nýtti sér næturstrætisvagna nokkuð reglulega þegar þeir gengu og sá óneitanlega eftir þegar þeirri þjónustu var hætt. Sú ákvörðun var engu að síður skiljanleg, undir lokin hefðu farþegar hverrar ferðar auðveldlega komist fyrir í einum stórum leigubíl. Líklegast var skortur á posum stærsta vandamálið hér eins og venjulega, nema að hann var magnaður upp enn frekar þar sem græn kort og miðar gengu ekki á nóttunni. Bara tvöhundruðkall í klinki.

Í kvöldfréttum seinasta föstudag (31. 08. 2007) mátti heyra að framkvæmdarstjóri Hreyfils væri nú að leggja til að næturferðum strætisvagna væri komið aftur á. Þetta vildi þrátt fyrir að það kæmi niður á tekjum leigubílstjóra, því það væri betra en ef menn kenndu skorti á leigubílum um ástandið í miðbænum. Enda væri nóg af leigubílum í Reykjavík að sögn framkvæmdarstjórans.

Já, sko, það er alveg hárréttur fjöldi af leigubílum í borginni. Hins vegar er of lítið af næturstrætóum, og of margir vilja taka leigubíl á sama tíma. Svo eru sumir að taka leigubíl sem gætu bara labbað. Aðrir fara á tveimur leigubílum þótt áfangastaðirnir séu steinsnar hvor frá öðrum en aðrir hringja og panta bíl en nota hann svo ekkert. Bölvaður almenningurinn. Það er búið að reikna að 550 leigubílar sé hárréttur fjöldi fyrir Reykjavík en svo kunna menn bara ekkert að fara með þá!

Það er algjörlega óskiljanlegt hvers vegna, meðan allt efnahagslífið hefur tekið stakkaskiptum, þurfi leigubílamarkaðurinn enn að starfa eftir svipuðum lögmálum og giltu í því ríki sem Búlat Okúdjava bjó megnið af ævi sinni. Það er auðvitað fáranlegt að það að mega flytja fólk milli staða gegn greiðslu sé háð fjöldatakmörkunum af hálfu yfirvalda! Og ef menn eru hræddir við að markaðurinn verði algjörlega stjórnlaus verið hann gefinn frjáls, þá er ekkert sem segir að það megi ekki setja einhverjar reglur til að “verja greyið neytendur,” til dæmi að setja verði kílómetragjaldið stórum stöfum á glugga bifreiðar, og setja reglur um að hvernig restin af gjaldskránni skuli fylgja kílómetragjaldinu. Þessi leið er til dæmis víða farin í Póllandi og öðrum löndum.

Hvað sem því líður þá eru næturstrætóar hin fínasta viðbót. Næturstrætóar, ásamt leigubílaflota sem ákvarðast af raunverulegri markaðsþörf en ekki útreikningum stjórnmálamanna og hagsmunaaðila, ættu að geta gert heimferð margra skipbrotmanna helgarinnar mun auðveldari. Þá er bara að vona að þessar breytingar verði örari en framfarir Búlats Okúdjava í gítarleik.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.