Á meðal dóna og róna í Reykjavík

Málefni heimilislausra voru í umræðunni á dögunum þegar gerð var tilraun til þess að takmarka útbreiðslu þeirra með því að draga úr framboði á kældum bjórdrykkjum í einokunarverslun ríkisins með tóbak og áfengi.

Það er ógæfufólk sem heldur til í miðbæ Reykjavíkur. Þetta fólk, sem á vart til hnífs eða skeiðar, er því miður ekki nógu fínt og eðlilegt og því hafa pólitískt kjörnir aðilar reglulega gert atlögu gegn þeim í þeirri furðulegu trú að opinberar reglur muni þurrka út “rónavandamálið”.

Fyrir nokkrum árum síðan var rekinn krá við hlemm sem hét “Keisarinn” og var mikið af ógæfufólki fastagestir þar. Lögreglan á sínum tíma, kunni alls ekkert svo illa við þetta. Þeir vissu af þeim og gátu gengið að því vísu. En það þótti óþolandi að það væru rónar í Reykjavík og því var Keisaranum lokað og heimilisleysingjarnir fóru beint út á götu. Nokkru síðar fundu þeir sér samanstað á kaffi Austurstræti sem var þá lokað í kjölfarið.

Þegar fólkinu var vísað út af kaffi Austurstræti þá stóð það úti á Austurvelli og fékk sér einfaldlega sæti. Auðvitað! Hvert átti það að fara?

Þá náðu opinberu afskiptin nýjum hæðum þegar farið var framá það við verslunareigendur á svæðinu að þeir breyttu vöruframsetningu sinni, til þess eins að fæla “óæskilega” fólkið burt.

Það var spurt fyrir nokkru síðan “hvaðan kemur allt þetta útigangsfólk” og svarið var nokkuð einfalt: “úr Byrginu!” Þar sem stjórnmálamenn sýndu enn einu sinni hversu skammsýnir þeir voru þegar öllu heimilisfólki á Byrginu var kastað út á götu (og endaði á Austurvelli) vegna óráðsíu yfirmanns Byrgisins.

Allar ákvarðanir stjórnmálamanna í þessu máli hafa gengið út frá því að vera verndarar siðferðis almennings, loka sóðastöðum þar sem ókræsilegt fólk er, koma í veg fyrir áfengiskaup ógæfufólks, loka meðferðarhælum þar sem forstöðumenn haga sér illa.

Þetta er vitlaus áherslupunktur. Málið snýst um fólk sem hefur það slæmt. Spurningin á að vera: “hvernig hjálpum við þeim?” frekar en að vera: “hvernig fælum við það frá Austurvelli?”

Það er vonandi að opinberir verndarar siðferðiskenndar almennings átti sig á þessu fyrr eða síðar.

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.