Baráttan um landgrunnið V

Ágreiningur milli strandríki og landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna um ytri mörk landgrunns viðkomandi strandríkis skapar visst vandamál. Þessar deilur er flóknar, m.a. þar sem hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna gerir ekki ráð fyrir að hægt sé að vísa tillögum nefndarinnar til æðri aðila til endurskoðunar.

Ágreiningur milli strandríki og landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna um ytri mörk landgrunns viðkomandi strandríkis skapar visst vandamál. Þessar deilur er flóknar, m.a. þar sem hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna gerir ekki ráð fyrir að hægt sé að vísa tillögum nefndarinnar til æðri aðila til endurskoðunar.

Í XV. hluta hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna er fjallað um lausn deilumála um túlkun og beitingu samningsins. Meginreglan um lausn deilumála í hafréttarsamningnum er að allar slíkar deilur er hægt að leggja í skyldubundna málsmeðferð sem leiðir til bindandi úrskurðar að beiðni eins aðila. Réttur þessi eru þó takmarkaður og undantekningar eru frá meginreglunni.

Deilur strandríkja um annað en markalínur landgrunns milli mótlægra eða aðlægra ríkja lúta ekki reglum 298. gr. hafréttarsamningsins um valfrjálsar undantekningar frá gildissviði 2. kafla XV. hluta um skyldubundna málsmeðferð sem leiðir til bindandi úrskurða. Virðist því liggja næst við að álykta á þá lund að um slíkar deilur gildi sú meginregla samningsins að aðilar geti skotið ágreiningsmálum sínum til bindandi dómsúrlausnar, enda eru engar undantekningar í XV. hluta hafréttarsamningsins um 76. gr.

Í 8. gr. II. viðauka segir að í því tilviki að strandríkið sætti sig ekki við tillögur nefndarinnar, skuli það innan hæfilegs tíma leggja endurskoðað erindi eða nýtt fyrir nefndina. Ekki er ljóst hvað hæfilegur tími telst í skilningi ákvæðisins. Þó er ljóst að strandríkinu eru sett einhver tímamörk með þessu orðalagi. Þar sem landgrunnsnefndin hefur verið varkár í ákvörðunum sínum er hægt að draga þá ályktun að tímamörkin verði frekar í rýmri kantinum. Sömu reglur gilda um nýju eða endurbættu greinargerðina og um fyrri greinargerð. Ef nefndin felst ekki á greinargerð strandríkis getur það á nýjan leik lagt greinargerð fyrir nefndina. Ef nefndin felst enn og aftur ekki á greinargerð strandríkis getur það lagt enn aðra greinargerð fyrir nefndina. P. R. Gardiner nefndi þessa málsmeðferð á ensku narrowing down ping pong procedure, sem vísar til þess að fræðilega getur málsmeðferð fyrir nefndinni haldið áfram endalaust. Þrátt fyrir að ágreiningur milli strandríkis og nefndarinnar geti fræðilega haldið áfram endalaust er þó búist við að samkomulag náist. Annar og verri möguleiki er að pattstaða myndist á milli þeirra. Endalok ágreiningsins gæti verið að strandríki ákveði að fara ekki eftir tilmælum nefndarinnar. Ef sú staða kæmi upp er ekki ljóst hvert framhaldið yrði. Mögulegt áfrýjunarferli og tengsl landgrunnsnefndarinnar og skyldubundnu málsmeðferðarinnar sem leiðir til bindandi úrskurða virðast hafa verið tekin til skoðunar hjá Evensen-hópnum á þriðja fundi þriðju hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, en sú umræða virðist hins vegar hafa dagað uppi. Hafréttarsamningurinn kveður því ekki á um hvert samspil 76. gr. samningsins, nefndarinnar og ákvæða hans um lausn deilumála eigi að vera. Niðurstaðan eins og hún birtist í hafréttarsamningnum er sú að í honum eru engin skýr ákvæði um þetta álitaefni í XV. hluta, sem fjallar um lausn deilumála, eða í 76. gr., enda var stefnan á þriðju hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna að skapa heildstæðan samning sem næði til allra þátta hafsins. Var því vissum álitamálum sleppt frekar en að skilja heilu málaflokkana út undan.

Þó svo að kveðið sé á um í 3. tl. 77. gr. hafréttarsamningsins að réttindi strandríkis yfir landgrunninu sé ekki háð töku, virkri eða að nafninu til, né sérstakri yfirlýsingu hefur afmörkun hafsvæða ætíð alþjóðlega hlið eins og sagði í fiskveiðimáli Bretlands gegn Noregi fyrir Alþjóðadómstólnum. Í dómnum sagði jafnframt að afmörkun hafsvæða geti ekki einungis verið komin undir vilja strandríkisins eins og hann birtist í innlendri löggjöf þess. Þó að sú staðhæfing sé rétt að afmörkun sé einhliða gjörð, þar sem strandríkið eitt sé valdbært til að ákvarða hana, sé gildi afmörkunarinnar með tilliti til annarra ríkja háð reglum þjóðaréttarins. Þessi niðurstaða dómsins er í fullu gildi í dag og leiðir til þess að þrátt fyrir 3. tl. 77. gr. þurfa ríki að sýna fram á rétt sinn til landgrunns.