Baráttan um landgrunnið II

Flest strandríki eru aðilar að hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna. Afmörkun landgrunns aðildarríkja samningsins og réttindi þeirra þar ráðast af samningnum. Ísland er aðildarríki.

Flest strandríki eru aðilar að hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna. Afmörkun landgrunns aðildarríkja samningsins og réttindi þeirra þar ráðast af samningnum. Ísland er aðildarríki.

Innri mörk landgrunnsins eru óumdeild og hafa alla tíð verið það. Þau hafa verið miðuð við ytri mörk landhelginnar. Meiri styr hefur staðið um hver ytri mörkin ættu að vera. Þegar þriðja hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna fór fram á árunum 1973-1982 var hugtakið efnahagslögsaga í örri þróun. Hafði sú þróun mikil áhrif á hugmyndir ríkja um hver ytri mörk landgrunnsins ættu að vera.
Í 76. gr. hafréttarsamningsins er landgrunnið skilgreint. Í 1. tl. segir:

„Landgrunn strandríkis tekur yfir hafsbotn og botnlög neðansjávarsvæðanna sem ná utan landhelgi þess til allrar eðlilegrar framlengingar á landsvæði þess allt að ytri brún landgrunnssvæðisins eða allt að 200 sjómílum frá grunnlínum sem víðátta landhelginnar er mæld frá þar sem ytri brún landgrunnssvæðisins nær ekki svo langt út.“

Af lestri ákvæðisins er ljóst að ríki geta ákvarðað landgrunn sitt með tvenns konar hætti. Annars vegar á grundvelli náttúrulegrar framlengingar landmassa ríkisins og hins vegar á grundvelli fjarlægðar án tillits til náttúrulegra aðstæðna. Síðarnefnda aðferðin er notuð þegar ytri brún landgrunnssvæðisins nær ekki út fyrir 200 sjómílur frá grunnlínum og er sú regla orðin að þjóðréttarvenju. Náttúruleg framlenging er lykilatriði í landgrunnshugtakinu. Hún felur í sér að áskilin framlenging verður að vera óslitin frá strandlengjunni að ytri mörkum landgrunnsins. Benda verður á að ekki þarf að líta til náttúrulegra þátta nema ríki geri kröfu til landgrunns utan 200 sjómílna frá grunnlínum. Landgrunn eyja er ákveðið með sama hætti og landgrunn meginlanda, sbr. 2. tl. 121. gr. hafréttarsamningsins. Enginn greinarmunur er því gerður á ytri mörkum landgrunns eyja og meginlanda.

Nauðsynlegt er að skoða 1. og 3. tl. 76. gr. hafréttarsamningsins saman til að átta sig á því hvaða hlutum hafsbotnsins landgrunnið samanstendur af. Í 3. tl. segir:

„Landgrunnssvæðið tekur yfir neðansjávarframlengingu landmassa strandríkisins og er samsett af hafsbotni og botnlögum grunnsins, hlíðinni og hlíðardrögunum. Til þess teljast ekki djúpsævisbotninn með úthafshryggjum sínum né botnlög hans.“

Almenn skilgreining landgrunnsins byggist því fyrst og fremst á eðlilegri framlengingu neðansjávarlandslags. Skilgreiningin er á hinn bóginn hlutlaus að því er varðar jarðfræðilegt eðli berggrunnsins.

Mikilvægt er, ef ríki telur sig eiga kröfu til landgrunns fyrir utan 200 sjómílur frá grunnlínum, að ákvarða hvar hlíðarfóturinn (rætur landgrunnshlíðarinnar) er. Báðar þær aðferðir sem lýst er í a-lið 4. tl. til að ákvarða ytri mörk landgrunnsins miða við hlíðarfótinn. Samkvæmt b-lið 4. tl. skulu rætur landgrunnshlíðarinnar ákveðnar sem mesti hallabreytingarstaðurinn á lægsta hluta hennar ef annað sannast ekki. Þegar ekki er sýnt fram á eða ómögulegt er að sýna fram á með nægilegri nákvæmni hvar hlíðarfóturinn er staðsettur er strandríkjum heimilt að nota bestu jarð- og landmótunarfræðilegu sönnunargögn sem þau geta aflað til að ákvarða hvar hlíðarfóturinn skuli álitinn staðsettur.

Samkvæmt 2. tl. 76. gr. skal landgrunn strandríkis ekki ná út fyrir mörkin sem kveðið er á um í 4.–6. tl. Á 2. tl. einungis við um kröfur ríkja sem byggðar eru á fyrri hluta 1. tl. Í a-lið 4. tl. eru skilgreindar tvær aðferðir til að ákvarða ytri mörk landgrunnsins. Ákvæði a-liðar 4. tl. hljóðar svo:

„Samkvæmt samningi þessum skal strandríkið ákveða ytri brún land-grunnssvæðisins hvar sem svæðið nær lengra en 200 sjómílur frá grunn-línunum sem víðátta landhelginnar er mæld frá, annaðhvort með:

i) línu, dreginni samkvæmt 7. tl. með tilliti til ystu ákveðnu staðanna þar sem þykkt setlaga á hverjum stað er a.m.k. 1 hundraðshluti minnstu fjarlægðar frá þessum stað til róta landgrunnshlíðarinnar; eða

ii) línu, dreginni samkvæmt 7. tl. með tilliti til ákveðinna staða sem eru ekki lengra en 60 sjómílur frá rótum landgrunnshlíðarinnar.“

Í 7. tl., sem á bæði við um i- og ii-lið, segir að strandríkið skuli draga ytri mörk landgrunns síns, þar sem það grunn nær lengra en 200 sjómílur frá grunnlínum sem víðátta landhelginnar er mæld frá, með beinum línum, ekki lengri en 60 sjómílur milli ákveðinna staða sem tilgreindir eru með hnitum breiddar og lengdar.

Sú aðferð sem lýst er í i-lið 4. tl. er oft kölluð írska formúlan og var þróuð af írska jarðfræðingnum P. R. Gardiner sem átti sæti í sendinefnd Írlands á þriðju hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Markmið hennar er að tryggja að fullveldisréttur strandríkja nái yfir meginhluta hlíðardraganna en þar er talið að leynist auðugar lindir kolvetnis. Ef nota á aðferðina á vegalengdina X frá hlíðarfætinum verður 0.01X setlagaþykkt jafnframt að vera til staðar.

Aðferðin sem lýst er í ii-lið er oft kölluð Hedberg-formúlan eftir bandaríska jarðfræðingnum Hollis Hedberg. Felst hún í því að draga línu allt að 60 sjómílum frá hlíðarfætinum til að finna ytri mörk landgrunnsins. Ríkjum er frjálst að nota báðar aðferðirnar sitt á hvað með það að leiðarljósi að réttur þeirra til landgrunnsins verði sem mestur.

Kveðið er á um hámarksyfirráðasvæði ríkja yfir landgrunni þeirra í 5. tl. 76. gr. Þar segir:

„Ákveðnu staðirnir, sem mynda línu ytri marka landgrunnsins á hafsbotninum, dregna samkvæmt 4. tl. a) i) og ii), skulu annaðhvort ekki vera lengra en 350 sjómílur frá grunnlínunum, sem víðátta landhelginnar er mæld frá, eða lengra en 100 sjómílur frá 2.500 metra jafndýptarlínunni sem er lína milli staða þar sem dýpi er 2.500 metrar.“

Landgrunn ríkja utan 200 sjómílna er því annaðhvort takmarkað við vissa fjarlægð frá grunnlínum, þ.e. 350 sjómílur, eða takmarkað af blönduðum mælikvarða fjarlægðar og dýptar, þ.e. 100 sjómílur frá 2500 metra jafndýptarlínu. Taka verður fram að þessar línur skapa engan rétt. Þær takmarka einungis yfirráðasvæði ríkja sem byggja á írsku eða Hedberg-formúlunni.

Ríki geta skipst á að nota þessar tvær takmarkanir eftir hentugleika. Mögulegt er, ef byggt er á síðari takmörkun ákvæðisins, að ytri mörk landgrunnsins nái út fyrir 350 sjómílur. Til að útiloka að ríki geti gert kröfur um landgrunn óralangt er tekið fram í 6. tl. að mörk landgrunnsins á neðansjávarhryggjum skuli ekki vera lengra en 350 sjómílur frá grunnlínum. Reyndar útskýrir 6. tl. ekki hvað sé átt við með neðansjávarhryggjum. Neðansjávarhryggjum hefur hins vegar verið lýst sem hryggjum sem eru hluti af náttúrulegri framlengingu landmassa strandríkis. Dæmi um slíkan hrygg er Reykjaneshryggur. Gera verður greinarmun á neðansjávarhryggjum og úthafshryggjum djúpsævisbotnsins. Samkvæmt 3. tl. 76. gr. eru úthafshryggir djúpsævisbotnsins ekki hluti af landgrunninu. Einnig verður að gæta að seinni málslið 6. tl. sem segir að töluliðurinn gildi ekki um neðansjávarhæðir sem eru náttúrulegir hlutar landgrunnssvæðisins, svo sem hásléttur, bungur, kolla, grunn og rana þess. Erfitt getur verið að greina á milli neðansjávarhryggja og neðansjávarhæða vegna skilgreiningarinnar á landgrunninu. Hafa verður í huga, eins og komið hefur fram, að skilgreiningin á landgrunni er hlutlaus hvað jarðfræðilegt eðli berggrunnsins varðar. Einnig verður að hafa í huga að upptalningin á tegundum neðansjávarhæða er ekki tæmandi. Miklu skiptir að greina á milli neðansjávarhryggja og neðansjávarhæða þar sem ríki geta, ef tilskildar landmótunarfræðilegar aðstæður eru fyrir hendi, teygt landgrunn sitt lengra með 2500 metra jafndýptarformúlunni en 350 sjómílna formúlunni.

Fjallað er um réttindi strandríkja yfir landgrunninu í 77. gr. hafréttarsamningsins. Samkvæmt 1. tl. 77. gr. fer strandríkið með fullveldisréttindi yfir landgrunninu að því er varðar rannsóknir á því og hagnýtingu náttúruauðlinda þess. Því er ljóst að réttindi strandríkis eru takmörkuð. Með öðrum orðum þá er litið svo á að landgrunnið sé ekki hluti af forráðasvæði strandríkis. Fullveldisréttindi strandríkis ná til náttúruauðlinda sem getið er í VI. hluta. Þær teljast vera jarðefnaauðlindir og aðrar ólífrænar auðlindir hafsbotnsins og botnlaganna ásamt lífverum í flokki botnsetutegunda, þ.e.a.s. verum sem á nýtingarstigi eru annaðhvort hreyfingarlausar á eða undir hafsbotninum eða geta ekki hreyft sig nema í stöðugri snertingu við hafsbotninn eða botnlögin, sbr. 4. tl. 77. gr. Réttindi strandríkja ná einungis til náttúruauðlinda eins og áður segir og því t.d. ekki til skipsflaka. Samkvæmt 2. tl. 77. gr. eru þau réttindi sem talin eru upp í 1. tl. sérréttindi í þeim skilningi að rannsaki strandríki ekki landgrunnið né hagnýti náttúruauðlindir þess má enginn ráðast í þessa starfsemi án skýlauss samþykkis strandríkisins.