Vilhjálmur-Volgibjór

Borgarstjórinn í Reykjavík virðist standa í sérstöku átaki við að koma með sem flestar vondar hugmyndir á sem stystum tíma. Nýjasta útspil borgarstjórans var að kúga Vínbúðina í Austurstræti til að hætta sölu á köldum bjór. Það mun aldeilis fæla alla rónana frá.

Borgarstjórinn í Reykjavík virðist standa í sérstöku átaki við að koma með sem flestar vondar hugmyndir á sem stystum tíma. Nýjasta útspil borgarstjórans var að kúga Vínbúðina í Austurstræti til að hætta sölu á köldum bjór. Það mun aldeilis fæla alla rónana frá.

Það liggur við að undirritaður sé orðinn smeykur við að lesa Textavarpið af ótta við að rekast á enn eina ógnarfréttina sem byrjar á orðunum “Borgarstjóri vill…” Og því miður fer vilji borgarstjórans oft illa saman við vilja frjálslyndari manna:

“Borgarstjóri vill reka burt klámráðstefnu,”
“Borgarstjóri vill spilavíti burt úr Mjóddinni,”
“Borgarstjóri vill loka skemmtistöðum fyrr,”
“Borgarstjóri vill fækka börum,”
“Borgarstjóri vill loka Vínbúðinni í Austurstræti.”

Í fljótu bragði mætti halda að það væri sérstakt kappsmál hjá Vilhjálmi Þ. að færa borgina aftur til þess horfs sem hún var árið 1987. Ég veit ekki hvað hefur ollið þessari úllfúð borgarstjórans í garð 10. áratugarins en það er áhyggjuefni að þær jákvæðu breytingar seinustu ára, þegar lagður var endir vikulegar þjóðhátíðir klukkan þrjú um nótt, endalausar leigubílaraðir og óheilbrigða eftirpartýjamenningu, skulu nú sitja undir árásum frá þeim flokki sem stundum telur sig málsvara persónu- og atvinnufrelsis.

Hugmyndin um að loka Ríkinu í Austurstræti er heimskuleg. Ef af verður mun þetta minnka mjög þjónustustig í miðbænum, fækka ferðum (líka venjulegs) fólks þangað og veikja þannig miðborgina. En hugmyndin sýnir, því miður, líka hvernig stjórnmálamaður Vilhjálmur er. Hann er ekki maður stórra hugmynda. Hann vill gruflast í því hvaða búð sé í hvaða húsi og hvort það sé kælir í Ríkinu eða ekki. Hans helstu óvinir eru subbuskapurinn, veggjakrot og mávar. Hann er atvinnupólitíkus eins og þeir voru upp á sitt versta alla seinustu öld. Með puttana í öllu og laus þunga við byrði sem stundum kallast hugsjónir.

Eins og allir menn er Vilhjálmur þó örugglega hinn vænsti karl. En hann er hins vegar vondur stjórnmálamaður og vondur borgarstjóri. Reykjavíkurborg á betra skilið en illa grillaða afturhaldssteik. Sem við þurfum að skola niður með volgum bjór, keyptum á Eiðistorgi.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.