Þjóðkirkjan ætti að taka af skarið

Tugir þúsunda fögnuðu með samkynhneigðum um helgina á Gay Pride og það er ástæða til – undanfarin ár hafa orðið miklar réttarbætur í málefnum samkynhneigðra. Enn eimir þó eftir af gömlum hugsanahætti í garð þessa hóps og segja má að Þjóðkirkjan hafi orðið eins konar kyndilberi þeirra sjónarmiða með því að vilja ekki heimila kirkjuvígslur samkynhneigðra. Þjóðkirkjan ætti að endurskoða þessa afstöðu sína. Með því myndi hún sýna hugrekki og þor sem eftir yrði tekið.

Tugir þúsunda fóru í miðbæ Reykjavíkur um helgina til að samfagna og taka þátt í göngu samkynhneigðra á laugardaginn. Sú breyting sem orðið hefur á Gay Pride göngunni í Reykjavík undanfarin ár endurspeglar að mörgu leyti þann mikla árangur sem náðst hefur í réttindabaráttu samkynhneigðra. Ráðist hefur verið í miklar réttarbætur í þessum málaflokki og segja má að þessi ganga sé frekar hátíð en kröfuganga til að fara fram á ákveðin réttindi. Þetta eru jákvæðar breytingar. Ísland á að vera fremst í flokki meðal þjóða hvað réttindamál samkynhneigðra varðar.

En það þarf þó ekki að leita langt yfir skammt til að finna dæmi um formlegt ójafnrétti og mismunun í garð samkynhneigðra. Hún fyrirfinnst í Þjóðkirkjunni þar sem samkynhneigðir geta ekki fengið að gifta sig í kirkju eins og aðrir. Þrátt fyrir mikinn stuðning í þjóðfélaginu með kirkjuvígslu samkynhneigðra hefur ekki orðið slík breyting þar á. Í könnun sem unnin var í lok apríl sl. kemur fram að tveir þriðju aðspurðra vilji að samkynhneigðir fái að gifta sig í kirkju. Rúm 17% vilja að samkynhneigðir gifti sig borgaralega en rúm 13% vilja hvorki kirkjulegar né borgaralegar vígslur. Kirkja þjóðarinnar talar m.ö.o. þvert á afstöðu yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar.

Biskup Íslands fjallaði um hjónaband samkynhneigðra og afstöðu þjóðkirkjunnar í janúarbyrjun á síðasta ári. Í nýársávarpi sínu í Morgunblaðinu sagði biskup:

„Til þessa hefur hjónaband talist vera sáttmáli eins karls og einnar konu. Er það í samhljóm við grundvallarforsendu sem kristin trú og siður hefur byggt á frá öndverðu, og er sameiginleg öllum helstu trúarbrögðum heims. Enda í samhljómi við lífsins lög. Þessari forsendu getur íslenska ríkið breytt og komið til móts við margvíslegar þarfir, hvatir og hneigðir, og afnumið alla meinbugi. Ef það er framtíðin, já, ef það er framtíðin, þá er eitthvað nýtt orðið til, ný viðmið siðarins, án hliðstæðu í siðmenningunni. Hin aldagamla stofnun sem hjónabandið er er þá afnumin.“

Þá lét biskup þau ummæli falla á NFS um svipað leyti að hjónabandið ætii það inni hjá okkur að við allavega köstum því ekki á sorphauginn án þess að hugsa okkar gang.

Á meðan æðsti maður þjóðkirkjunnar talar með þessum hætti er ef til vill ekki skrýtið að margir telji enn ýmislegt óunnið í réttindabaráttu samkynhneigðra.

Ný kynni einhver að segja að kirkjan eigi ekki að standa í því að elta einhverjar skoðanakannanir til að ná sér í vinsældir heldur eigi hún að standa vörð um ákveðin gildi. Þar af leiðandi geti hún ekki verið að teygja sig eftir frjálslyndum viðhorfum og framsæknum Biblíutúlkunum. Það er margt til í því að kirkjan eigi ekki að eltast við tískusveiflur heldur standa vörð um ákveðin gildi en sú hugmynd má ekki verða hindrun fyrir eðlilegar breytingar tímans. Stefnufesta réttlætir ekki að gera upp á milli tiltekinna þjóðfélagshópa og styðja þannig í verki gamlar kreddur og fordóma.

Það má meta ákvarðanir og skoðanir út frá alls konar sjónarmiðum. Einn mælikvarðinn er að velta því fyrir sér hvernig menn verði dæmdir þegar fram líða stundir fyrir þær ákvarðanir sem þeir tóku. Þeir sem nú stýra málum hjá Þjóðkirkjunni hafa farið þá leið að taka slaginn um hjónabönd samkynhneigðra og haga málum þannig að halda samkynhneigðum utan hjónabandsins. Hugmyndin um að samkynhneigðir skuli standa utan við kirkjulegar hjónavígslur er í eðli sínu eins og allar aðrar hugmyndir sem hafa falið í sér að útiloka skuli samkynhneigða sem hóp. Þessar hugmyndir byggjast á því að sá sem laðist að sama kyni sé fyrir vikið eitthvað öðruvísi og minna þóknanlegur en aðrir. Reglur og hefðir sem byggjast á þessum fordómum hafa til allrar hamingju verið að víkja. Ekki vegna þess að við séum að verða veiklyndari eða vitlausari heldur einfaldlega vegna þess að svona hugmyndir standast enga skoðun. Fordómar verða ekki réttari þó þeir séu settir í búning trúarlegrar kenningar. Af hverju í ósköpunum ætti kynhneigð einstaklings að skipta máli?

Stundum er það sem fólk hræðist mest, einmitt það besta sem gæti gerst. Með því að leyfa hjónabönd samkynhneigðra myndi Þjóðkirkjan sýna hugrekki og þor sem eftir yrði tekið.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.