Hugsjónir falar fyrir betur lyktandi hár

Á þeim tveimur mánuðum sem reykingarbann hefur gilt á Íslandi hefur viðrað vel og almennt virðast menn á því að lykt af líkamsvessum náist betur úr fötum heldur en tóbaksreykurinn. Á þessu grundvallast undanlátasemi almennings við ofstopann í löggjafanum.

Nú eru næstum tveir mánuðir liðnir síðan reykingar voru bannaðar á skemmtistöðum og veitingastöðum á Íslandi. Viðbrögð við banninu hafa nánast engin verið nema jákvæð – að því undanteknu að nokkrir hugsjónarmenn úr blaðamannastétt létu henda sér út af Ölstöfunni fyrir að kveikja upp í nokkrum dögum eftir að bannið gekk í gildi.

Svo vill til að veðrið hefur verið gott undanfarna mánuði. Lyktin inni er betri og fjöldi Íslendinga hefur enduruppgötvað nautnina við að standa við bert loft með áfengi og reyktóbak í fallegri íslenskri sumarsól. Útilegustemmning ríkir á hverjum skemmtistað og þétt reykský liggur yfir miðborginni en galtómir skemmtistaðirnir ilma eins og þjóðhátíðartjald á mánudagsmorgni.

Helst hefur verið kvartað yfir því að svitalykt sé nú meira áberandi auk þess sem útblástur lífrænna gróðurhúsalofttegunda geti orðið helst til yfirgnæfandi. Menn munu þó ekki vera alveg á einu máli um hvort þessi lykt komi fullkomlega í staðinn fyrir tóbaksfnykinn. Flestir telja að nýja lyktin festist síður í hári og fötum heldur en óþokkans tóbaksreykurinn – og þar af leiðandi þurfi hvorki að baða sig né þvo fötin þegar komið er heim af djamminu. Líklega verða margir þakklátir löggjafanum sé það raunin þótt deila megi um hvort lýðheilsu fólks og almannaheill sé greiði gerður með því að draga með þessum hætti úr hreinlæti borgaranna (það má vitaskuld leysa með lagasetningu eins og annað).

Stuðningur við reykingarbannið byggist sennilega aðallega á tvennu. Annars vegar því að fólki hefur þótt þægilegt að hafa ekki reykinn í augunum á sér, en um leið sloppið við að fórna því að djamma með skemmtilega reykingarfólkinu. Hins vegar viðrað einkar vel til frelsisskerðingar og blíðan hefur gert að engu stærstu ókosti reykingarbannsins. Allir hljóta að sjá að stuðningur við bannið byggist ekki raunverulega á vinnuverndarsjónarmiðum – og það var ekki heldur markmið laganna, enda mætti hæglega ná þeim markmiðum með mun vægari aðgerðum. Málið hefur alla tíð snúist um það hvort ofstopafólki takist að auka þægindi sín á kostnað réttinda annarra.

Höfuðvígi bannhyggjunnar á Íslandi – leiðarasíður Morgunblaðsins – hafa fagnað andreykingarofstækinu innilega í nafni lýðheilsu og heildarhyggju. Daginn sem bannið gekk í gildi var kátínan svo mikil í Staksteinum að þeir fleyttu næstum kerlingar á síðum blaðsins:

„Í dag taka ný lög gildi sem banna reykingar á opinberum stöðum, þ.á m. veitinga- og skemmtistöðum.
Þetta er auðvitað fasismi,“ heyrðist í frjálshyggjumanni á kaffihúsi í gær. Svo bætti hann við hálfskömmustulegur: „Ég er samt ósköp feginn, því ég reyki ekki. En ég hvísla því bara.“
Það er aldrei eftirsóknarvert að setja lög um venjur og breytni fólks. En það er verið að hugsa um hag og heilsu starfsfólks og gesta á opinberum stöðum með þessari lagasetningu og það ber að virða.“

Augu og eyru Staksteina eru víða og lengi hefur menn grunað að Morgunblaðið sjái allt og heyri flest – jafnvel það sem hvíslað er á kaffihúsum. Og þarna hitti leiðarahöfundurinn naglann ágætlega á höfuðið – því það er vitaskuld þannig að stundum gera hugsjónir það að verkum að menn þurfa að standa vörð um rétt annarra til að stunda iðju sem þeim sjálfum kann að þykja ógeðfelld.

Engum raunverulegum frjálshyggjumanni dytti það til hugar að fagna reykingarbanninu – eða að vera feginn yfir því. Stjórnvöld sem hyggja á illt, eða framkvæma illt með góðum hug, treysta einmitt á þá veikleika sem Staksteinahöfundur glottir yfir. Það getur verið freistandi að velja eigin þægindi fram yfir réttlætið en þeir sem trúa á frelsi einstaklingsins og mannréttindi láta ekki kaupa sig frá hugsjónum sínum fyrir betur lyktandi hár og færri ferðir í þvottahúsið.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.