Sólstingur

Vinnufélagar hýsa magnaðar væntingar um ævintýraþrá hvers annars. Höfundur olli mörgum vonbrigðum við kaffivélina – já gengi hans í álitskauphöllinni féll lóðrétt þegar hann, verulega sáttur, gerði grein fyrir sumarfríi sínu.

Vinnufélagar hýsa magnaðar væntingar um ævintýraþrá hvers annars. Höfundur olli mörgum vonbrigðum við kaffivélina – já gengi hans í álitskauphöllinni féll lóðrétt þegar hann, verulega stoltur, gerði grein fyrir sumarfríi sínu.

Fríið undanfarnar vikur var vel þegið og yfirþyrmandi verðskuldað; ekki fleiri orð um það. En dagana áður en fríið skall á átti höfundur undramörg samtöl sem eftirfarandi grind lýsir fullkomlega:
-Blessaður.
-Sæll/sæl.
-Búinn að fara eitthvað í frí.
-Nei, byrja á mánudaginn.
-Noh! Gera eitthvað?
-Örugglega.
-Ekkert planað?
-Nei.
-Út?
-Ekki útilokað.
-Kannski bara innanlands?
-Kannski. En þú?
-Í frí?
-Já.
-…(Margslungin ræða um þematengd ferðalög um Jörðina alla. Dæmi um þematengd ferðalög: Í fótspor pílagríma, í kjölfari hersveita Hannibals, í skýjunum með Lindbergh, á hælum kebabsins frá uppruna til útsölustaða, á oddinn í austurvegi, á skallanum um vínhéröð Frakklands, mótmælum á Íslandi (reyndar gegnum mótmælendaleiguna 2BGOODSHIT og því fyrir aðra en Íslendinga),…)

Þessar væntingar vinnufélaga minna og hugmyndir um frí ollu litlu álagi á skipulagshæfni mína (ekki lengur vísað til höfundar, 1.pers. notuð í staðinn til að auka návígi við lesanda). Ég fór ekki á netið í leit að ferðalögum, ég hringdi ekki í neinn til að biðja um að vökva síspræku silkiblómin og blómamunstrið í eldhúsgardínunum, ég fór ekki og lét vaxa á mér bakið og passinn fékk alveg að vera týndur í friði. Aðgerðaleysi mitt réttlæti ég með því að ég hafði þegar gert upp hug minn, án þess að vita það sjálfur.

Ég ákvað að ferðast innanlands – og gott betur: Ég skyldi ferðast inn á við, leggja á mig andlegt detox eftir vetrarlanga uppsöfnun á hel-rotvörðum fréttum og afþreyingu sem var úldin áður en hún barst neytandanum. Ég skyldi bæta kunningsskapinn við sjálfan mig, skýra sjálfsmyndina og skerpa tilfinninguna fyrir eigin vilja til að geta beitt mér fyrir hamingju minni framtíðarinnar.

Uppskriftin að tímabilinu er augljós: Forðast fjölmiðla hvers konar, forðast afþreyingu sem krefst einskis af mér, fara aldrei sömu göturnar heim og ég fór að heiman, verða svangur og saddur, þreyttur og hvíldur, … Það þjónar ekki markmiði pistilsins að hafa upptalninguna lengri eða fjalla um einstaka uppskriftarliði sérstaklega.

En lokum hringnum litla með því að líta á dæmi um kaffivélarspjall eftir sumarfríið:
-Hafðirðu það ekki gott í fríinu?
-Jú.
-En þú fórst ekkert?
-Tæplega, samkvæmt ströngustu skilgreiningu.
-Sko.
Þögn. Mér veitt tækifæri til að rökstyðja að ég hafði það gott í fríinu án þess að fara nokkuð. Bjarga mér með því að snúa vörn í sókn:
-Reyndar fór ég aðeins.
-Já, langt?
-Inn á við.
-Er það í Biskupstungunum?
-Nei. Ég ferðaðist innvortis – inn í mig. Erfitt að skýra betur.
-Langt?
-Alla leið held ég.
-Og lengi á leiðinni?
-Mjög stutt; er ekki mjög djúpur.
-Nei, jájá.
-En þetta var ágætt. Ég hafði það gott.
-Flott. Sástu eitthvað?
-Rakst á heldur leiðinlega minningu sem ég hafði grafið eins og lík bakvið aðra minningu. Vann úr þeirri leiðinlegu, naut hinnar. Hún var mjög björt.
-Já, jæja. Fannstu kannski sjálfan þig?
-Nei, nei alls ekki. Maður gerir það í klaustrum.
-Ég hélt að líkaminn væri klaustur og hugurinn inní honum, inní því.
-Áttu við musteri?
-Æ já.
-En þú ert ekki langt frá því þegar þú spyrð hvort ég hafi fundið sjálfan mig, ég fór nefnilega til að læra um einstaklingseðli mitt. Allt í einu fannst mér það mikilvægt – kom mjög óvænt yfir mig.
-Skil þig. Maður býst ekki við slíku.
-Einmitt.
Þögn á meðan ég hlóð í aðra bylgju sóknar minnar:
-Það er nefnilega ábyrgðarhlutverk, hlutverk borgarans í frjálsu samfélagi. Að lifa með frelsi, að fá tækifæri til og reyna að upplifa hamingjuríkidæmi á ýtrustu forsendum, eigin forsendum, virðist vera hin strembnari leið; margir vilja spara manni ákvarðanatökur. En að krefjast þess að fá að framkvæma líf sitt innblásinn af eigin sannfæringum um mikilvægi hluta er að krefjast ábyrgðar – og ábyrgð krefst hæfni og til að öðlast hæfni verður einstaklingurinn að skuldbinda sig til að láta sig veruleikann og hvernig hann verkar á hann varða: Þroska einstaklingseðli sitt. Allt tal um frelsi án þessarar skuldbindingar er tal um skuggamynd af frelsi, um að vera hlíft við sjálfum sér – að fljóta sofandi að feigðarósi, svo ég endi með liðveislu rómantíska skáldsins góða.
-Já!?
-Já.
-Allt í einu finnst mér ég bara vera fangi.
-Frelsi í skugga fálætis er vissulega helsi. Samt aldrei of seint að gyrða sig í brók og gangast við sjálfum sér, líkt og hið frjálsa samfélag býður, og upplifa – halda á draumveiðar í veruleikanum.
-Neeei! Þú hefur fengið sólsting inní þér!!
-Ekki útilokað.
-En örugglega svakaferð.
-Svona sæmileg.
-Hvað kostaði bjórinn?

g

Latest posts by Guðmundur Jóhann Óskarsson (see all)