Gervihamingja

Tölvuleikurinn Eve-Online er orðinn heilt samfélag út af fyrir sig þar sem einstaklingar reyna að fóta sig og glíma við hin fjölmörgu vandamál sem upp geta komið.

Tölvuleikurinn Eve-Online er orðinn heilt samfélag út af fyrir sig þar sem einstaklingar reyna að fóta sig og glíma við hin fjölmörgu vandamál sem upp geta komið.

Nýlega var sett á laggirnar Eve-TV, sjónvarpsstöð sem verður með útsendingar frá íþróttaviðburðum í Eve og mun jafnframt flytja fréttir af leiknum og viðtöl við spilara. Slíkur er áhuginn á leiknum enda lifa spilendurnir sig vel inn í leikinn. Árangur í þessum gerviheimi er nú líka orðinn að hluta til flytjanlegur yfir í árangur í okkar heimi. Gjaldmiðillinn í Eve, ISK, hefur nefnilega gengi í okkar-heims-peningum. Óstaðfest markaðsgengi eins milljarðs ISK er um 215 bandarískir dollarar, eða um 13 þúsund íslenskar krónur. Nýlega hljóp bankastjóri banka í Eve á brott með allar innistæður viðskiptavina sinna, alls um 790 milljarða ISK, sem eru um 10,5 milljónir íslenskra króna miðað við þetta skiptigengi! Reyndar leyfa stjórnendur Eve ekki slík viðskipti en geta þó ekki alfarið komið í veg fyrir þau. Ljóst er að innlifun spilaranna er mikil og maður hlýtur að velta fyrir sér hvort leikurinn sé farinn að yfirtaka líf sumra. Maður sér fyrir sér þrítugan karlmann í kjallaranum hjá mömmu sem á sér ekkert líf utan Eve. Sorglegt.

Fólk lifir stórum hluta lífs síns í gerviheimi að berjast um auðæfi og árangur sem eiga sér enga stoð í hinum raunverulega heimi. Tilgangsleysið er algjört, eða hvað?

Stór hluti af lífshamingju fólks er að ná árangri. Hver sá árangur er veltur síðan á gildismati fólks. Sumir finna tilgang í list, aðrir í fjölskyldunni og enn aðrir í auðsöfnun. Björgólfur Thor, ríkasti maður Íslands, er fyrir löngu kominn yfir það mark að það skipti hann nokkru máli hvað hann eignast mikla peninga héðan í frá. Alla þá hamingju sem hægt er að fá frá peningum getur hann fengið nú þegar, nema þá sem tengist þeirri tilfinningu að ná árangri. Björgólfur heldur áfram að reyna að stækka veldi sitt vegna þess að það gefur lífi hans gildi að halda áfram að vaxa og standa sig vel. Að öðru leyti er hegðun hans algjörlega fáránleg, hann ætti að hætta að vinna, slappa af og njóta auðs síns. En löngunin í árangur er bara lífsgæði í sjálfu sér.

Að sama skapi gleður það Eve-spilarann að vinna sig upp úr verkamannastarfinu, verða ríkur og komast áfram á getu sinni og hæfileikum. Á leið sinni til árangurs þarf leikmaðurinn að vera í samskiptum við aðra leikmenn í Eve, og skjóta þeim ref fyrir rass. Ekkert kemur samt út úr þessu nema þessi frábæra tilfinning sem velgengni gefur.

30 ára karlmaðurinn í kjallara mömmu sinnar og Björgólfur eru saman á báti, þeir eru að gera hluti sem auka í engu lífsgæði þeirra, nema veita þeim þessa sigurvímu. En er það ekki bara í lagi? Er gerviheimshamingja ekki bara alveg jafngóð og þessa-heims-hamingja? Það er allt í hausnum á okkur hvað er gervihamingja og hvað er alvöru hamingja.

Pæling.