Hreyfing sem ógnar heilsunni

Öðru hverju birtast í fjölmiðlum fréttir af fólki sem meiðist eða lætur jafnvel lífið þegar það hleypur leið upp á nokkuð hundruð metra.

Öðru hverju birtast í fjölmiðlum fréttir af fólki sem meiðist við að taka þátt í nautahlaupum og nautaati. Munur á nautahlaupi og nautaati er sá að öllum er frjálst að taka þátt í nautahlaupi meðan aðeins þjálfaðir nautabanar mega taka þátt í nautaati.

Hrikalegar myndir og myndskeið fylgja slíkum fréttum oft og tíðum og vekur það furðu margra að fólk skuli sjálfviljugt setja sig í slíkar stórhættulegar aðstæður. Í nautahlaupi eru viðkomandi að hlaupa með eða á undan nautum sem setur orðið fífldirfska í ágætis samhengi. Og í nautaati eru nautabanar í miklu návígi við naut sem þeir særa nokkrum sinnum, bæði til að veikja það sem og að æsa það upp í að gera grimmari árásir á sig. Að lokum drepur nautabaninn nautið.

Á morgun fer fram þekktasta nautahlaup í heiminum í spænsku borginni Pamplóna. Nautahlaupið er partur af hinni árlegu San Fermin hátíð sem dregur að hundruð þúsunda fólks alls staðar að úr heiminum. Tíu til tólf nautum sem hvert vegur á milli 500 og 600 kíló er sleppt á götur Pamplóna ásamt nokkrum meinlausum kúm sem hjálpa stjórnendum hlaupsins að halda dampi í hlaupinu. Hlaupabrautin er 800 metra löng og afmörkuð með tvöfaldri girðingu. Ytri girðingin er fyrir áhorfendur og innri girðingin er með litlum bilum á fyrir hlaupara til að skjóta sér út úr hlaupinu. Bilin eru einnig hugsuð fyrir hjúkrunarfólk og lögreglu til að komast fljótt að þeim sem meiðast. Nautahlaupinu lýkur síðan með því að nautin snúa aftur í nautaatsvöll borgarinnar sem er þriðji stærsti nautaatsvöllur í heiminum og tekur tæplega tuttuguþúsund manns í sæti. Síðar um daginn klást síðan nautabanar við nautin.

Eins og fyrr segir berast iðulega fréttir af meiðslum hlaupara en einnig eru dæmi um að fólk hafi látist í nautahlaupinu í Pamplóna. Síðast var það árið 1995 að ungur Bandaríkjamaður lést eftir að naut rak hann á hol þegar hann var að reyna að standa upp eftir að hafa fallið við í hlaupinu. Myndir og myndskeið af því birtust í fjölmiðlum. Árið 1947 varð eitt naut tveimur að bana og sagan endurtók sig árið 1980

En burtséð frá því hversu augljóslega hættulegt þetta er fólkinu sem tekur þátt þá er hörð andstaða við hlaupið frá dýraverndunarsinnum sem hafa tekið upp á því að marsera naktir sömu leið og nautin í mótmælaskyni. Dýraverndunarsamtökin PETA standa fyrir þessum gerningi og í gær gengu hundruð andstæðinga nautahlaupsins sjötta árið í röð og hrópuðu slagorð á borð við: “Pynting er ekki menning” og “Naut já, nautabanar nei!” meðan að um tvöhundruð forvitnir áhorfendur fylgdust með. Þó að gerningurinn sé sagður fela í sér nekt, þ.e. að fólk gangi nakið til að vekja athygli á málstaðnum, þá hefur þróunin verið í þátt átt að fólk er farið að hylja sig meir en áður, bæði til að valda ekki óánægju hjá íbúum Pamplóna sem og til þess að draga að sér ekki of mikla óæskilega athygli. Þannig gengu margir í nærfötunum, sérstaklega konurnar.

En hvað sem öllum mótmælum líður eru nautaat og nautahlaup partur af menningu Spánverja sem staðinn er vörður um. Til að mynda er skýr undantekning í spænskum lögum sem banna illa meðferð á dýrum hvað varðar nautaat. Og meðan að þessir viðburðir draga jafn mikinn flaum ferðamanna að og raun ber vitni um er ekki útlit fyrir að bann verði sett við nautaati og nautahlaupi á Spáni í bráð.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.