KVENNAlandslið og KARLAlandslið

Landsliðið fór með sigur af hólmi í gær, fyrir þá sem ekki eru á kafi í boltanum þá var það íslenska KVENNAlandsliðið sem lagði serbneska liðið 5-0 á Laugardalsvelli. Glæsilegur árangur liðsins liggur fyrir – eftir þrjár viðureignir og jafnmarga sigra er Ísland efst í sínum riðli. Er ekki orðið tímabært að kalla þetta íslenska landsliðið og hitt liðið karlalandsliðið?

Landsliðið fór með sigur af hólmi í gær, fyrir þá sem ekki eru á kafi í boltanum þá var það íslenska KVENNAlandsliðið sem lagði serbneska liðið 5-0 á Laugardalsvelli. Fjöldi fólks lagði leið sína í Laugdalinn í gærkvöld til þess að sjá íslenska landsliðið í knattspyrnu mæta því serbneska. Um var að ræða mikilvægan leik í undankeppni Evrópumótsins, en íslenska liðið vann frækinn sigur á franska landsliðinu fyrr í vikunni. Frakkar eru í sjöunda sæti á heimslistanum, en Íslendingar í því tuttugasta og fyrsta og því ljóst að knattspyrnumennirnir okkar eru á heimsmælikvarða og fikra sig óðum upp listann. Serbar lágu kylliflatir fyrir Íslendingum og áttu aldrei séns frá fyrstu mínútu, en fyrsta markið kom á 3. mínútu þegar fjöldi áhorfenda stóð enn í röð að bíða eftir því að komast inn á völlinn.

Glæsilegur árangur liðsins liggur fyrir – eftir þrjár viðureignir og jafnmarga sigra er Ísland efst í sínum riðli. Er ekki orðið tímabært að kalla þetta íslenska landsliðið og hitt liðið karlalandsliðið?

Kvennaknattspyrnan eins og fótboltinn er yfirleitt kallaður þegar konur eru þátttakendur hefur í gengum tíðina þurft að búa við fordóma í garð þeirra sem hann leika. Annars vegar hafa fjölmiðlar iðulega sýnt kvennaliðum minni áhuga og hins vegar hafa frasar á borð við „knattspyrna er ekki fyrir stelpur, þetta er karlaíþrótt“, „það eru bara strákastelpur sem spila knattspyrnu“, „stelpur geta ekkert í fótbolta“og ýmsar aðrar línur hafa heyrst í gegnum tíðina. Landsliðið hefur sýnt það og sannað að stelpur eiga fullt erindi í knattspyrnu og það er ekki síðra að fylgjast með þeim en strákunum. Íslenska liðið sýndi frábæra takta og hæfileika á vellinum í gær. Fyrir víst varð enginn fyrir vonbrigðum sem mætti á völlinn. Leikurinn uppfyllti allar væntingar og var í senn skemmtilegur og spennandi, þótt að serbarnir hefðu jafnvel getað veitt íslenska liðinu meiri móttstöðu.

Það voru skoruð sjö mörk, reyndar tvö dæmd ógild, nokkrir serbar fengu að líta gula spjaldið, einu sinni var næstum því vítaspyrna, oft var dæmd rangstaða, það var hendi, sem var reyndar ekki dæmt á, liðsmenn serba skölluðu hvor aðra og svo mætti lengi telja. Samkvæmt fótboltaspekúlöntum þá þykir allt sem hér var að ofan talið merki um mjög fjölbreyttan og skemmtilegan leik.

Ef setja mætti út á eitthvað þá var það ónýti hátalarinn í stúkunni, en það var lífsins ómögulegt að skilja nokkuð sem þaðan kom. Nú jafnframt held ég að við Íslendingar séum ekki alveg í nógu góðri landsliðsleikjaþjálfun. Við þurfum að koma okkur upp söngvum, æfa bylgjuna betur og klappið. Talandi um klappið þá má spara eitt klapp, með því að klappa bara tvisvar í stað þrisvar. Milli klappið er óþarft, enda Ísland bara tveggja atkvæða orð. Þetta myndi semsagt útleggjast þannig: Ísland klapp klapp, Ísland klapp klapp osfrv. Þetta er gert á körfuboltaleikjum og kemur í veg fyrir mikinn sársauka í lófa.

Hátt í sex þúsund manns mættu til þess að fylgjast með leiknum og aldrei hafa fleiri áhorfendur mætt til þess að fylgjast með KVENNAlandsliðinu. Liðið fór á kostum, áhorfendur höfðu gaman af og fjölmiðlar sýndu beint frá leiknum. Þetta hefði varla getað verið betra – það horfir allt til betri vegar í kvennaknattspyrnunni bæði þegar horft er til fordóma og þeirrar athygli sem fjölmiðlar veita kvennafótboltanum. Það má færa rök fyrir því að árangur íslenska kvennaliðsins hafi að einhverju leiti brotið á bak fordómana og fært kvennaknattspyrnuna á þann stall sem hún á skilið. Til hamingju með sigurinn„ stelpur, íslenska þjóðarstoltið var með hæsta móti í gær – áfram Ísland.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.