Rotinn kúrs í lóðamálum

Með glæsilegu verðlaunaskipulagi og skynsömum úthlutunarleiðum sýna framsýnir aðilar í Garðabæ að einkaaðilum er ekki síður treystandi til að stunda viðskipti með landgæði rétt eins og önnur verðmæti. Og jafnvel betur en opinberi geirinn. Reykjavíkurborg ætti að líta til suðurs að fyrirmyndum að því hvernig standa skal að úthlutun landgæða og landverðmæta.

Um þessar mundir standa tveir mjög ólíkir aðilar í því að útdeila landgæðum á höfuðborgarsvæðinu. Annars vegar er það Urriðaholt ehf., einkahlutafélag í eigu Oddfellowreglunnar og Viskusteins ehf, sem er að úthluta lóðum á Urriðaholti í Garðabæ. Hins vegar er það Reykjavíkurborg sem er að úthluta lóðum við rætur Úlfarsfells í Reykjavík.

Urriðaholt verður fullbyggt um 4500 íbúa hverfi. Skipulag þess er í anda nýklassískrar hugsunar í skipulagi með bæjarkjarna og lágreistri byggð, gagngerri rýmis- myndun og skjólmyndun auk ýmissa athyglisverðra vistvænna lausna í fráveitu, svo eitthvað sé nefnt. Skipulagið hefur nú þegar hlotið alþjóðlega viðurkenningu, þótt reyndar eigi eftir að sjá hvernig til tekst. Enn á t.d. eftir að sjá hvort til takist að tæla fram allt mannlífið sem sýnt er á hinum fallegu teikningum.

Við Úlfarsfell er eitt helsta nýbyggingarsvæði Reykjavíkur. Það er hið eina sem telst vera samgöngulega aðgengilegt um þessar mundir innan borgarmarkanna, ef frá er talið flugvallarsvæðið í Vatnsmýrinni og svæði verulega fjarri meginbyggðinni. Í Úlfarsfelli er gert ráð fyrir 10.000 íbúum í fullbyggðum borgarhluta. Þar er einnig beitt athyglisverðri nýklassískri skipulagshugsun. Reyndar var að einhverju leyti horfið frá þeirri hugsun nýr meirihluti tók við á síðasta ári. Íbúum fækkað og hlutfall sérbýlis aukið. Sú viðleitni var skynsamleg í ljósi jaðarlegu svæðisins á höfuðborgarsvæðinu og hlutfallslega mikillar markaðeftirspurnar eftir sérbýli.

Um þessar mundir standa þessir tveir ólíku aðilar í sams konar ferli. Að deila út þeim landgæðum sem þeir hafa forráð yfir til framtíðarnotenda. Viðskiptavina sinna, með réttu, og væntanlegra lóðareigenda. En það er stór munur á því hvernig þessir tveir aðilar kjósa að fara að. Annar þeirra gerir það á nefnilega á réttan hátt á meðan hinn gerir það á rangan hátt. Og það þarf engan að undra að það sé einkaaðilinn sem slái rétta tóninn í þessu sem svo mörgu öðru þar sem bera má saman opinberan aðila og einkaaðila.

Urriðaholt hefur nú þegar boðið út lóðir í fyrsta áfanga hverfisins í Garðabæ. Reglurnar eru einfaldar og markaðsvænar. Lóðirnar eru boðnar út á frjálsum markaði og sá sem hæst býður hlýtur lóðina, að gefnum ákveðum grundvallarskilyrðum að sjálfsögðu.

Öðru gegnir um lóðir í öðrum áfanga Úlfarsfells, sem úthlutað var nýlega. Þar kveður við annan tón en suður í Garðabæ. Þar kýs hinni nýi meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar að úthluta landgæðum undir öðrum formerkjum en hins frjálsa markaðar. Í þessu tilfelli fá áhugasamir viðskiptavinir að skila inn umsóknum um kaup á landgæðum á föstu lóðarverði. Lóðarverði sem er að öllum líkindum langt undir markaðsvirði. Það á – að sögn – á að tryggja að allir hafi sama tækifæri til að fá lóð. Til að tryggja þetta „tækifæri“ er verðinu stillt duglega undir líklegu markaðsvirði. Til að reyna að sáldra salti í farveg augljóss svartamarkaðsbrasks eru sett ákvæði um búsetu til ákveðinna fjölda ára, sem væntanlega á að fæla í burtu braskara. Nýlega var fjallað um þetta í mjög góðum pistli Bjarna Kristins Torfasonar hér á Deiglunni

Þetta er makalaust.

Hið fáa sem R-listinn gerði af nokkurri skynsemi í skipulagsmálum var að úthluta lóðum með uppboði lóða á frjálsum markaði. Þannig lágmarkaði hann brask og kom og tryggði réttmæta meðhöndlum verðmæta sem með réttu má segja að séu í eigu borgarbúa allra. Undir lokum fór hann þó að kikna undan þrýstingi um umbætur í skipulagsmálum, en í stað þess að hysja upp um sig buxurnar í framboði nýrra lóða kaus hann markaðsfjandsamlegar og óréttmætar aðferðir í útdeilingu þeirra fáu sem í boði voru. Sem er ekki skrítið þegar vinstrimeirihluti á í hlut.

Lambafellið verður lengi í hugum haft.

Nýi meirihlutinn ætlar að gera þessi sömu alvarlegu mistök. Í stað þess að útdeila gæðum samkvæmt hinum einföldu og réttmætu reglum hins frjálsa markaðar kýs hann að frekar feta vegu markaðsbjögunar, óréttmætrar og ofbeldisfullrar verðmætatilfærslu og brasks. Hinn almenni borgarbúi á að taka fram budduna og greiða undir rassinn á hinum fáu útvöldu sem þarna fá úthlutað lóð. Braskaranir rýna allir sem einn í smá letrið í leit að smugum, og til að bæta gráu ofan í svart kýs meirihlutinn að notast við makalausa átthagafjötra til að stemma stigu við braski. Þvílíkir fjötrar hafa ekki sést í langan tíma á landi sem kennir sig við frelsi, og hvað þá flokk sem kennir sig við hið sama.

Þessi tvö dæmi sýna það og sanna að landi og landgæðum er sennilega best komið í höndum einkaaðila rétt eins og þegar önnur verðmæti eiga í hlut. Ekki síst þegar inn fyrir borgarmörkin er komið. Hann bæði kann að fara betur með það svæði sem er í hans eigu og ná fram því besta sem það hefur upp á að bjóða. Og hann kann að stunda viðskipti á hinum frjálsa markaði og tryggja þannig verðmætaflutning með lágmarksbjögun og bægja frá ankannalegum pólitískum afskiptum. Sem sennilega verða ætíð ankannaleg að einhverju marki í tilfellum sem þessum.

Hlutverk sveitarfélaganna á einungis að vera sem samstarfsaðili, enda er það sveitarfélagsins að tryggja hagsmuni heildarinnar og nota til þess það skipulagsvald sem það hefur. Líkt og gert hefur í Garðabæ með góðum árangri.

Enn á eftir að úthluta lóðum á öðrum svæðum í Úlfarsfelli. Borgarstjórnin í Reykjavík hefur enn gott tækifæri til að sjá að sér í þessum efnum. Og ætti að íhuga alvarlega að breyta um kúrs, hafi hægrimenn þar á bæ áhuga á atkvæðum frá skynsamlega þenkjandi kjósendum í Reykjavík í næstu kosningum.

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.