Raunverulegt sjálfstæði

Það gleymist gjarnan að sjálfstæði og frelsi þjóðarinnar er ekki bara yfirlýsing á blaði, heldur ræðst það fyrst og fremst af því hvernig þjóðin kemur ár sinni fyrir borð, hvort hún teljist raunverulega sjálfstæð.

Sjálfstæði íslensku þjóðarinnar er fagnað um land allt í dag. Ástæða er til að gleðjast, íslenska þjóðin hefur á þeim 63 árum sem liðin eru frá því að hún endurheimti sjálfstæði sitt aldrei verið sjálfstæðari. Það gleymist gjarnan að sjálfstæði og frelsi þjóðarinnar er ekki bara yfirlýsing á blaði, heldur ræðst það fyrst og fremst af því hvernig þjóðin kemur ár sinni fyrir borð, hvort hún teljist raunverulega sjálfstæð.

Íslendingar eru nú rúmlega 300 þúsund talsins og þeim hefur fjölgað verulega á síðustu árum. Fleiri Íslendingar hafa flutt heim á nýjan leik eftir dvöl erlendis, færri kjósa sér búsetu utan landsteinanna, Íslendingum af erlendum uppruna hefur einnig fjölgað og síðasta en ekki síst þá hefur fæðingartíðni hér á landi verið að aukast jafnt og þétt, ólíkt því sem við á um flestar aðrar vestur-evrópskar þjóðir.

Þessi fólksfjölgun er skýrasta merkið um þá velmegun og bjartsýni sem ríkir hér á landi. Efnahagslegur styrkur þjóðarinnar hefur aldrei verið meiri og stoðir atvinnulífsins aldrei verið fjölbreyttari og öflugri sem heild. Sjálfstæði þjóðarinnar sem fagnað er í dag væri hjóm eitt ef hún gæti ekki séð sér farborða.

Íslendingar endurheimtu sjálfstæði sitt skömmu eftir innrásina í Normandy vorið 1944. Þá voru úrslit Seinni heimstyrjaldarinnar enn tvísýn og heimurinn í raun á heljarþröm. Eftir sigur bandamanna í hildarleiknum mikla tók við kalt stríð. Þar tókum við Íslendingar einarða afstöðu með lýðræðisþjóðum gegn alræðisveldi Sovétríkjanna. Á þeim tíma var þörf á miklum varnarviðbúnaði hér á landi, enda spenna kalda stríðsins í hámarki.

Með hruni Sovétríkjanna og gjörbreyttum samskiptum austurs og vesturs hvarf þörfin á þeim mikla varnarviðbúnaði sem hér hafði verið allt frá stríðslokum. Það var því mikið fagnaðarefni þegar þær aðstæður höfðu skapast að ekki var lengur þörf fyrir erlendan hér á Íslandi. Öryggi landsins höfum við tryggt með sérstökum varnar- og samstarfssamningi við Bandaríkin, auk þess sem grunnur hefur verið lagður að öryggissamstarfi við helstu nágrannaríki.

Þó er eins og margir sakni þess tíma, þegar slíkur viðbúnaður var nauðsynlegur. Morgunblaðið hefur til að mynda vænt Bandaríkjamenn um svik við okkur Íslendinga með því að kalla herlið sitt heim heilum fimmtán árum frá hruni Sovétríkjanna – eins og lok kalda stríðsins hafi verið eitthvert sérstakt áfall fyrir Íslendinga. Þetta er fráleit afstaða og hreinlega ekki boðleg. Sú ógn sem Íslandi stafaði af Sovétríkjunum hafði ekki verið til staðar í fimmtán ár þegar endanleg ákvörðun var tekin um það af Bandaríkjamönnum að kalla herlið sitt heim. Öfl hér á landi höfðu þá lengi þráast við að horfast í augu við breyttar aðstæður og nýja heimsmynd.

Herlið Bandaríkjamanna hér á landi fyrstu sex áratugina frá því að Íslendingar endurheimtu sjálfstæði sitt var nauðsynlegt til að vernda öryggi og sjálfstæði þjóðarinnar. En það var aldrei markmið í sjálfu sér að hér væri bandarískt herlið, heldur ill nauðsyn. Í stað þess að festa okkur í úreltum hugsunarhætti kalda stríðsins, ætti Morgunblaðið að gleðjast yfir þeim forréttindum Íslendinga að vera sjálfstæð, herlaus þjóð sem býr við öryggi og efnahagslegt sjálfstæði í ríkari mæli en flestar aðrar þjóðir heims.

Gleðilega þjóðhátíð.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)