Frelsum heilbrigðismálin

Mesta ánægjuefnið sem átti sér stað í ráðherraskiptingu Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins er að Sjálfstæðisflokkurinn fær loks, eftir nær 20 ára fjarveru, tækifæri til þess að takast á við heilbrigðismál landsmanna.

Sama hvert litið er, allir virðast ónægðir með íslenska heilbrigðiskerfið. Starfsmenn segjast vinna of mikið og fá of lág laun. Sjúklingar segjast þurfa að bíða of lengi eftir meðferð og skattgreiðendur borga meira fyrir heilbrigðisþjónustu en þekkist á nær nokkru byggðu bóli í heiminum en samkvæmt tölum frá OECD þá borga Íslendingar næstum 10% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðiskerfið.

Það er mjög erfitt að skilja þann þankagang sem hefur einkennt vinstri menn í umræðum um heilbrigðismál, þar sem hræðsluáróður hefur verið notaður til þess að verja eitt óhagkvæmasta heilbrigðiskerfi heimsins fyrir öllum mögulegum hagræðingaraðgerðum. Í stað þess að fjölga valkostum hefur þeim verið skipulega fækkað með aukinni miðstýringu í heilsugæslu og sameiningu spítala á höfuðborgarsvæðinu.

Það er vonandi að Guðlaugur Þór muni hafa þor og dug til þess að koma erfiðum breytingum í gegn um þetta kerfi. Fyrsta skrefið og það einfaldasta er að opna frekar fyrir einkarekstur á heilsugæslustöðvum.

Samtök Atvinnulífsins gáfu út mjög athyglisvert rit um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu á síðasta ári undir nafninu Heilbrigður Einkarekstur, þar kom meðal annars fram að heilsugæslustöðin í Salahverfi (sem er einkarekin) fær bestu einkunn allra heilsugæslustöðva í neytendakönnunum og er einnig talin vera hagkvæmari í rekstri en heilsugæsla höfuðborgarinnar sem rekur 15 heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu.

Í ritinu er einnig minnst á reynslu Svía í heilbrigðismálum. Þar kemur fram að fyrir 15 árum síðan hafi orðið mikil hugarfarsbreyting sem endaði á því að skilið var á milli kaupanda og veitanda þjónustu, fjármögnun byggð á kostnaðargreiningu og afköstum í stað fastra fjárlaga, og starfsfólki í heilbrigðisþjónustu fékk faglega og lagalega aðstoð við að stofna fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu. Ríkið hélt áfram sem fyrr að greiða fyrir þjónustuna.

Í 20 ár hafa vinstri öflin á Íslandi barist eins og ljón gegn því að nokkrir aðrir en ríkið komi nálægt rekstri í heilbrigðissviðinu. Íslendingar hafa staðið einir á vesturlöndum fyrir þeirri skoðun að bestum árangri verði náð með áframhaldandi einokun hins opinbera á veitingu þjónustunnar.

Við höfum fullreynt vinstri lausnir í heilbrigðismálum. Nú þarf ríkisstjórnin að taka sig til og fjölga valkostum sjúklinga, auka sjálfstæði stofnanna og frelsi þeirra (og þar með rekstrarlega ábyrgð þeirra) og opna betur þá gríðarlegu möguleika sem felast í íslenskum mannauð sem hefur sérmenntað sig í heilbrigðismálum.

Sjá hér rit Samtaka Atvinnulífsins um heilbrigðan einkarekstur

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.