Almenningssamgöngur R.I.P.

Við getum kosið okkur nýja borgarstjórn á fjögurra ára fresti. Það er langur tími. Við getum tekið strætó á tuttugu mínútna fresti. Það er aðeins styttri tími. Með nýjustu ákvörðunum borgarinnar hefur munurinn milli þessara tveggja tímabila minnkað til muna.

Við getum kosið okkur nýja borgarstjórn á fjögurra ára fresti. Það er langur tími. Við getum tekið strætó á tuttugu mínútna fresti. Það er aðeins styttri tími. Með nýjustu ákvörðunum borgarinnar hefur munurinn milli þessara tveggja tímabila minnkað til muna.

Nú um mánaðarmótin verður gerð sú breyting að strætisvagnar á höfuðborgarsvæðinu munu aka á hálftíma fresti í stað tuttugu mínútna. Því er raunar haldið fram að breytingin sé fyrst og fremst sparnaður yfir sumartímann og eitthvað verði aukið við þjónustuna með haustinu. En ef áratugareynsla af notkun stætisvagna hefur kennt mönnum eitthvað þá er það það að ekkert er varanlegra en tímabundin þjónustuskerðing, og að engu loforði megi treysta minna en loforði um “einhvers konar aukningu á þjónustu” í nánar ótilgreindri framtíð.

Í nýja leiðarkerfinu áttu stofnleiðir að keyra á 10 mínútna fresti álagstímum. Það fyrirkomulag entist í viku áður en það var sett í bið yfir sumartímann. Eftir sumarfríið keyrðu stofnleiðir á tíu mínútna fresti í smátíma áður en því var hætt. Eins áttu stofnleiðirnar að keyra til kl. 2 um helgar. Það fyrirkomulag entist líka bara í nokkrar vikur. Helsta breyting með nýja leiðarkerfinu átti sem sagt að vera gisnara net en með aukinni ferðatíðni. Að sjálfsögðu var aðeins staðið við fyrra loforðið.

Ákvörðunin, um varanlega tíðniskerðingu þýðir algjört endalok strætisvagna sem raunverulegs ferðakosts. Það sem er sorglegast er að hún kom á sama tíma farþegum strætó hafði fjölgað, í fyrsta skipti í marga áratugi, líklegast vegna fjölgunar útlendinga. Í stað þess að nýta sóknarfærin sem tengjast nýjum kúnnum er reynt að gera allt sem mögulegt er til að fæla þá frá. Þeir sem sjá fram á það að þurfa að vera hálftíma lengur í vinnuna munu kaupa sér bíl. Og þeir sem kaupa sér bíl mun seint selja hann og ferðast með strætó aftur þótt “ferðatíðnin verði aukin eitthvað með haustinu”. Þar með verður í raun engin þörf á að auka ferðatíðnina og vítahringur heimsku og sóunar á almannafé mun halda áfram.

Pólitísk ábyrgð Sjálfstæðisflokksins í þessum málum er skýr. Hann er við völd í fjórum af þeim sex sveitarfélögum sem standa að Strætó bs. og erfitt er að sjá hver þeirra sveitarstjórna lítur á strætó af meiri vanþóknun. Rétt eins og til að trompa heimskuna í Borgarstjórn Reykjavíkur lagði Gunnar Birgisson, bæjarstjórinn í Kópavogi, til að sameiginlegt leiðarkerfi fyrir höfuðborgarsvæðið yrði lagt niður, komið yrði á einni sameiginlegri leið og hrepparnir sæi síðan um að koma fólki á stoppistöðvar þeirrar leiðar. Þessi hugmynd er enn ein sönnum þess að íslenskir hægrimenn byggi hugmyndir sínar um strætóferðalög á óljósum frásögnum annarra. Annarra hægrimanna.

Það er auðvitað ekki svo að skilja að allar ákvarðanir R-listans hafi verið strætisvagnafarþegum hagstæðar. Hins vegar er Sjálfstæðismönnum í Reykjavík að takast að valda almenningssamgöngum meiri skaða á einu ári en R-listanum tókst á tólf árum. Það er búið að stórfækka leiðum á einu ári og aftengja Árbæinn. Innan nokkurra mánaða verður strætóakrein á Miklubraut án efa breytt aftur í venjulega akrein. Með þeim rökum að hún standi alltaf auð hvort sem er.

Fyrir nokkru síðan voru kynnt svokölluð Græn Skref í Reykjavík, og af því tilefni var tekið viðtal við Gísla Martein inni í strætisvagni í Mjódd. Eins og greint var frá á Deiglunni voru mörg þessara skrefa misráðin en gáfu þó von um að Borgin ætlaði að sýna þessum málum aukinn áhuga. Ákvörðunin nú sýnir að annaðhvort sé Sjálfstæðisflokknum ekki alvara með uppbyggingu almenningssamgangna eða að borgarfulltrúar hans hafi ekki græna glóru um hvað þurfi til að slík kerfi gangi. Hvort sem raunin er ættu þeir sem vilja þéttari byggð og betri almenningssamgöngur að hugsa sig vel um áður en þeir ljá D-listanum atkvæði sitt á ný.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.