Vilja og geta börn

Staðreyndin er sú, að hér á landi umfram önnur lönd í hinum vestræna heimi (að Norðurlöndum meðtöldum) vill fólk eignast börn, getur það og gerir það. Við vitum og skiljum mikilvægi þess að í börnunum er framtíð okkar allra búin.

Langflestir velja hvort og hvenær þeir eignast börn og gera það ekki nema þeir sjái fram á að geta séð sér og börnum sínum fyrir góðu lífi.

Sú staðreynd að hér er vel búið að börnum og fjölskyldum hefur væntanlega mikið um það að segja að fæðingartíðni hér á landi er ein sú hæsta sem fyrir finnst í vestrænu velferðarsamfélagi.

Raunar eru einungis tvö lönd í Evrópu þar sem fæðingartíðni er hærri en hér, Tyrkland og Albanía. Ástæður þess að fæðingartíðni er há hér eru þó væntanlega nokkurs annars eðlis en þar.

Allir foreldrar vita að börnin þeirra munu fá pláss á leikskóla, munu fara í góðan grunnskóla, eiga kost á góðri heilbrigðisþjónustu, góðri menntun og almennt bjartri framtíð, enda hafa tækifæri og möguleikar landsmanna til leiks og starfs aukist til muna á undanförnum áratug.

Fæðingarorlofið og hækkun barnabóta eru ein skýrasta birtingarmynd þeirrar áherslu sem lögð hefur verið á velferð fjölskyldu og barna hjá Sjálfstæðisflokknum. Þá vitum við að gott efnahags- og atvinnuástand er grundvallarþáttur, enda atvinnuleysi og fjárhagserfiðleikar ekki vænlegur grunnur að góðu fjölskyldulífi.

Í Evrópu og Norður-Ameríku er staðan víðs vegar sú að annað foreldrið þarf að fara af vinnumarkaðnum til að hugsa um börnin eða foreldrarnir að vera það vel stæðir að geta ráðið einhvern til að hugsa um þau. Íslenskir foreldrar hafa hins vegar möguleika til þess að blanda saman vinnu og fjölskyldulífi auk þess sem vel er búið að einstæðum foreldrum.

Staðreyndin er sú, að hér á landi umfram önnur lönd í hinum vestræna heimi (að Norðurlöndum meðtöldum) vill fólk eignast börn, getur það og gerir það. Við vitum og skiljum mikilvægi þess að í börnunum er framtíð okkar allra búin og það er ekki síst þess vegna sem Ísland er það land tækifæranna sem raun ber vitni.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.