Plástrapólitík

Það styttist óðum í kosningar og línur eru teknar að skýrast. Að vanda stendur hver höndin upp á móti annarri og lausnirnar sem sumir flokkar bjóða eru bara ekki bjóðandi.

Því var spáð hér á þessum vettvangi fyrir nokkru að þegar nær drægi kosningum myndu áherslur kjósenda breytast. Skoðanakannanir virðast endurspegla slíkja gerjun. Hins vegar eru ennþá margir óákveðnir og það eru margir flokkar með klærarnar úti og vonast til að fanga reikula huga á síðustu metrum baráttunnar með yfirboðum. Persónulega er ég með algert ofnæmi fyrir sértækum aðgerðum sem eru hjóm í umræðunni um hagsmuni heildarinnar og geta í besta falli verkað sem einhvers konar plástrar í umræðunni.

Tökum dæmi:

Samfylkingin boðar fríar námsbækur á framhaldsskólastigi. Öllu sértækari og lítilvægari verða nú varla kosningaloforðin. Í fyrsta lagi er markaður með bækur framhaldsskólanema alveg einstaklega skilvirkur þar sem bækur ganga mann fram af manni, oftar en ekki án endurgjalds. Að sama skapi hefur markaðurinn staðið sig einstaklega vel á þessu sviði þar sem tugur skiptibókamarkaða er rekinn fyrir framhaldsskólanema.

Þegar ríkið borgar brúsann (eða bækurnar) – rétt’upp hönd sem heldur að skilvirkni skiptibókamarkaða dvíni og heildarkostnaður hækki?

Jatsí?

Annað mál er snúnara og virðist vera búið að afskræma sem einhvers konar réttlætismál í kosningunum. Hækkun skattleysismarka – allt upp í 150 þúsund krónur með hækkun persónuafsláttar! – er lögð á borð fyrir kjósendur. Gallinn við skattkerfið er að það er svo fjandi flókið að mann rennir oft í grun um að menn skilji hvorki upp né niður í gangverki þess. Þetta á jafnt við um pólitíkusa og aðra og þá sér í lagi þáttastjórnendur. Svona í fljótu bragði á ég hins vegar erfitt með að sjá að til sé dýrari aðgerð sem er jafnómarkviss leið til að bæta hag þeirra tekjulægstu í samfélaginu.

Ef það er á annað borð markmiðið með aðgerðinni.

Skattleysismörk – eða persónuafsláttur eins og hann heitir víst – er því marki brenndur að allir einstaklingar njóta hans í sama mæli. Hækkun persónuafsláttar skilar sér því að jöfnu í krónum talið til fiskverkunarmannsins og bankastýrunnar (kosningar í nánd, verðum að vera dipló!).

Af umræðunni mætti ætla sem svo að persónuafsláttur hafi bara staðið í stað undanfarinn áratug. Ekki aldeilis:

Persónuafsláttur er kr. 32.150 á mánuði á árinu 2007
Persónuafsláttur var kr. 29.029 á mánuði á árinu 2006
Persónuafsláttur var kr. 28.321 á mánuði á árinu 2005
Persónuafsláttur var kr. 27.496 á mánuði á árinu 2004
Persónuafsláttur var kr. 26.825 á mánuði á árinu 2003
Persónuafsláttur var kr. 26.002 á mánuði á árinu 2002
Persónuafsláttur var kr. 25.245 á mánuði á árinu 2001
Persónuafsláttur var kr. 24.510 á mánuði á árinu 2000 (apríl-desember)
Persónuafsláttur var kr. 23.912 á mánuði á árinu 2000 (jan.-mars)
Persónuafsláttur var kr. 23.329 á mánuði á árinu 1999
Persónuafsláttur var kr. 23.360 á mánuði á árinu 1998

Auðvitað er hlutfallslegur þungi persónuafsláttar af heildartekjum hins vegar meiri hjá lágtekjufólki en hátekjufólki, um það er ekki deilt. Við álagningu opinberra gjalda kemur persónuafsláttur nefnilega til lækkunar á reiknuðum tekjuskatti ársins og því lægri sem tekjurnar eru, þeim mun minni er greiddur tekjuskattur. Hins vegar þýðir hækkun persónuafsláttar nokkurn veginn það að allir byrja að greiða skatta af tekjum sínum við hærra tekjuþrep en áður (fá meiri afslátt af sköttum).

Niðurstaðan er auðvitað lægri skatttekjur ríkisins, sem skilja minna eftir til að greiða fyrir námsbækur, ríkistannviðgerðir og auðvitað kosningabaráttu stjórnmálaflokkanna.

Og að lokum þetta:

Í gær kom þjóðmálakrítíker í Silfur Egils og sagðist þeirrar skoðunar að það væri náttúrlega augljóst að það ætti að skylda menn til að nema verknám áður en þeir fengju inngöngu í háskóla.

Slíkir nemendur bæru einfaldlega af öðrum í atgerfi og hugsun!

Það er traustvekjandi til þess að hugsa að gagnrýnin hugsun og akademísk vinnubrögð eru enn í hávegum höfð hjá háskólakennurum.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)