Allt sem þú lest er lygi

Í fréttum er þetta helst: Ávextir eru heilsusamlegri ef þú blandar þeim við áfengi. Grænt te hefir útbreiðslu alnæmis. Sex miljónir manna hættu að reykja á reyklausa deginum 2007 og ef þú stundar mikið kynlíf hækkar greindavísitalan þín. Feira er ekki í fréttum í dag.

Það er ótal margt sem finna má á netinu og margt af því er satt, annað, hinsvegar, er algjört bull og vitleysa. Margar heimasíður, sem eru sérstaklega skrifaðar með því augnamiðið að höfða til kvenna, er algjörlega út í hött.

Svokallaðir heilsudálkar, á slúður/konu síðum, eru afar sérstök lesning og mætti stundum halda að þetta sé skrifaðar fyrir algjöra bjána. Það virðist allavega oft vera að þessi heilsuráð eða heilsufréttir séu skrifaðar af einhverjum sem lifa vafasömu og óheilsusamlegu lífi.

Hér á koma nokkur dæmi:

Fyrirsögnin „Ávextir eru heilsusamlegri ef þú blandar þeim við áfengi“ hefur án efa fengið marga konuna til þess að rjúka inn í vínskápinn sinn og hella dass af vodka yfir bananann sem hún var að borða, eða hvað?

Önnur fyrirsögn sem vekur athygli er: „Sex miljónir manna hættu að reykja á reyklausa deginum 2007“. Já, var það? Hver var að telja? Og hver fylgdist með reykingamönnunum daginn eftir reyklausa daginn og fylgdist með því að enginn reykti þá? Eða er það að það sama að hætta að reykja og að taka pásu í einn dag?

„Grænt te hefir útbreiðslu alnæmis“ var líka önnur fyrirsögn sem stingur svolítið í augun. Hvernig getur grænt te eitt og sér heft útbreiðslu alnæmis? Þarf ekki að drekka það til þess að það gæti hefti útbreiðsluna? Og ef það er satt, af hverju eru þá ekki ALLIR að drekka grænt te til þess að hjálpa þeim sem eru sýktir? Eða verður sjúklingurinn sjálfur að drekka teið? Útskýring „fréttarinnar“ var svo fáránleg að það væri ekki Deiglunni sæmandi að skrifa hana á þessari síðu.

Síðasta fyrirsögnin er líklega draumafyrirsögn flestra karla: „Ef þú stundar mikið kynlíf hækkar greindavísitalan þín.“ Ef á bak við þetta hefðu legið einhverjar vísindalegar rannsóknir væri sjálfsagt aðsetja þetta fram en í grein. Í greininni sem fylgdi þessari fyrirsögn var hinsvegar ekkert slíkt að finna heldur aðeins fáránlegan rökstuðningur sem samanstóð af óskhyggju og afneitun greinahöfundar sem er líklega kynlífsfíkill.

Þessar slúður síður sem hér er vitnað í eru flestar amerískar eða breskar og ætlunin er ekki að draga neina eina fram og rakka hana niður og hvetja konur til þess að hætta að lesa hana. Markmiðið er frekar það að minna á að hver sem er getur verið að setja efni inn á þessar síður. Þetta eru sjaldnast líkamsræktarfrömuðir sem eru á kafi í heilsurækt og fæstir þeirra sem skrifa efnið trúa því ekki einu sinni sjálfir og hvað þá fara eftir því sem þeir skrifa. Það ber því að taka þessu, sem öllu öðru efni, með ákveðnum fyrirvara. Það vill enginn verða áfengissjúklingur vegna þess hann trúir því að það sé svo hollt að skvetta vodka út á ávaxtasalatið sitt.

Þetta eru ekki einu dæmin, það nægir að horfa á fréttir sumra íslenskra fjölmiðla. Þó að þeir séu kannski ekki að boða það að te geti heft útbreiðslu alnæmis er stundum álíka vitleysa í þessum miðlum fara þeir oft ranglega með staðreyndir og leiðrétta það seint og illa.

Þá er oft gott að skoða hver bjó til fréttina því stundum tengist hann þeim sem verið er að hygla í fréttinni. Þetta er oft á tíðum lítið betra en bullið á slúðursíðunum.

Þetta ber sérstaklega að hafa í huga þegar horft er á fréttir í aðdraganda kosninga, því þá fer skrípaleikurinn fyrsta af stað og nánast allir miðlar leika með. Sérstaklega þeir stjórnmálaflokkar eða stjórnmálamenn sem standa illa, og sjá fram á það að þeir munu ekki að ná sínum markmiðum í kosningunum, misnota fjölmiðlana og reyna að koma að jákvæðum fréttum fyrir sig og neikvæðum fréttum um þá andstæðinga sína.

Heilbyggð skynsemi og gagnrýn hugsun er því besta vopnið við þessu bulli fjölmiðlanna. Það er nauðsynlegt að setja upp gagnrýnisgleraugu og hafa það að leiðarljósi að allt sem þú lest er lygi. Nema þessi pistill auðvitað, eða hvað?

Latest posts by Kristín Hrefna Halldórsdóttir (see all)