Mannskæður málsstaður

Árið 2006 voru skráð 155 morð, aftökur og óútskýrð hvörf fólks við fjölmiðlastörf í heiminum. Fjöldi fjölmiðlafólks sem lést af slysförum á sama tímabili samsvarar einum sjöunda hluta þeirra sem falla í fyrrgreindan hóp. Óstaðfestar fregnir af aftöku fréttamanns BBC á Gaza-svæðinu hafa enn á ný beint kastljósi að öryggi fjölmiðlafólks.

Í síðustu viku bárust fréttir um að fréttamaður BBC, Alan Johnston, hefði verið tekinn af lífi af áður óþekktum palestínskum hryðjuverkahóp. Fregnin hefur þó ekki verið staðfest og herferð fyrir lausn Johnston, sem var rænt fyrir sex vikum af heimili sínu á Gaza-svæðinu, heldur áfram. Enn á ný beinist kastljósið að öryggi fjölmiðlafólks við starf sitt sem virðist því miður verða sífellt hættulegra.

Á heimasíðu samtakanna International Freedom of Expression Exchange birtast daglega fregnir af ofbeldi sem fólk við fjölmiðlastörf sætir víða um heim. Fjölmiðlafólk sem flytur fréttir af stríðshrjáðum átakasvæðum býr við þá hættu að verða fórnarlömb stríðandi fylkinga hvort sem fyrir þeim vakir að krefjast lausnargjalds, vekja athygli á málstað sínum eða sýna fordæmi.

Áreiti, hótanir, líkamsárásir og morð á fjölmiðlafólki er þó langt í frá bundið við stríðshrjáð svæði. Fjölmiðlafólk starfar oft við lífshættulegar aðstæður í heimalöndum sínum. Skemmst er að minnast morðsins á rússnesku blaðakonunni Önnu Politkovskayu í október í fyrra sem bakaði sér óvild ýmissa, þar á meðal stjórnvalda, vegna skrifa sinna um spillingu og mannréttindabrot. Morðið á Politkovskayu vakti heimsathygli á aðstæðum í mannskæðasta landi í Evrópu fyrir fjölmiðlafólk, Rússlandi.

Árið 2006 voru skráð 155 morð, aftökur og óútskýrð hvörf fólks við fjölmiðlastörf í heiminum samkvæmt skýrslu samtakanna International Federation of Journalists. Undanfarinn áratug hafa samtökin skráð yfir þúsund dauðsföll fjölmiðlafólks í heiminum og var árið í fyrra það mannskæðasta frá upphafi skráningar. Flestir sem létust á árinu voru skotnir til bana. Einnig voru dæmi þar sem fjölmiðlafólk lést af völdum barsmíða, stungusára, kæfinga og pyntinga. Tveir voru höggnir á háls og einn var grýttur til bana.

Það sem af er þessa árs hafa 49 látist við fjölmiðlastörf.

Þegar dauðsföll ársins 2006 eru skoðuð eftir heimshlutum sést að flest áttu sér stað á Mið-Austurlöndum eða 73 og munar þar langmest um Írak. Frá því að ráðist var inn í landið í apríl árið 2003 hefur 171 einstaklingur við fjölmiðlastörf verið myrtur í landinu, þar af 69 í fyrra. Næstflest dauðsföll urðu í Suður-Ameríka þar sem 37 létust á árinu. Litlu færri létust á Asíu-Kyrrahafssvæðinu eða 34. Þar á meðal er annað mannskæðasta land í heimi fyrir fjölmiðlafólk á eftir Írak, Filippseyjar, þar sem þrettán voru myrtir í fyrra. Sex létust í Evrópu, þar af fjórir í Rússlandi, og fimm í Afríku.

Dauðsföll fjölmiðlafólks af völdum slysa eru talin sér og sú tala setur fyrrgreindar tölur í sláandi samhengi. Í fyrra létust alls 22 einstaklingar við fjölmiðlastörf af slysförum sem samsvarar einum sjöunda hluta þeirra sem féllu í fyrrgreindan hóp yfir morð, aftökur og óútskýrð hvörf.

Samtök fjölmiðlafólks víða hafa lýst yfir áhyggjum vegna skorts á getu og/eða vilja stjórnvalda til að tryggja öryggi fjölmiðlafólks þar sem algengt sé að morðin eru ekki upplýst. Stofnunin International News Safety Institute áætlar að innan við tíu prósent morða á fjölmiðlafólki séu upplýst að fullu.

Það þótti því marka tímamót í baráttunni fyrir öryggi fjölmiðlafólks þegar að Sameinuðu þjóðirnar samþykktu samhljóða ályktun í desember síðastliðnum þar sem árásir á fjölmiðlafólk eru fordæmdar. Í ályktuninni er skorað á ríkisstjórnir að virða réttindi fjölmiðlafólks og að réttað verði yfir þeim sem standa fyrir árásum á það. Einnig kemur fram að Sameinuðu þjóðirnar séu tilbúnar til að grípa til viðeigandi ráðstafana ef þurfa þykir þar sem brotið sé á slíkan hátt á réttindum borgara. Þykir þessi afstaða Sameinuðu þjóðanna þungt lóð á vogarskálar þeirra sem berjast fyrir því að stjórnvöld axli sína ábyrgð á því að tryggja öryggi fjölmiðlafólks.

Fjölmiðlafólk ber umheiminum fréttir af ástandi á stríðshrjáðum svæðum og flettir ofan af spillingu og grimmdarverkum í heimalöndum sínum. Það lifir sumt hvert í stöðugum ótta um líf sitt og heilsu gagnvart glæpahópum, hryðjuverkahópum og jafnvel stjórnvöldum. Frjáls og óháð fjölmiðlun er ein forsenda lýðræðis, frelsis og mannréttinda í heiminum og mikilvægi starfs fólksins sem leggur sig daglega í hættu vegna þessa mannskæða málsstaðar er óumdeilt.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.