Við skulum nota völdin römmu

Á öndverðri nítjándu öld og í upphafi þeirrar tuttugustu settu erlendir athafnamenn svip á íslenskt viðskiptalíf og stuðluðu að ýmsum framförum samfélagsins, hver á sínu sviði.

Á öndverðri nítjándu öld og í upphafi þeirrar tuttugustu settu erlendir athafnamenn svip á íslenskt viðskiptalíf og stuðluðu að ýmsum framförum samfélagsins, hver á sínu sviði.

Verður hér getið tveggja slíkra manna

Á Seyðisfirði byggði Otto Wathne, sem nefndur hefur verið faðir Seyðisfjarðar, upp umsvifamikinn verslunarrekstur og síldarsöltun skömmu fyrir aldamótin 1900 og stuðlaði að margháttuðum framförum. Wathne var í hóp Norðmanna sem til Íslands leituðu til þess að stunda síldveiðar á íslenskum miðum. Varð Wathne þeirra umsvifamestur. Í tengslum við rekstur sinn lét hann fyrstur manna brúa Fjarðará í Seyðisfirði, byggði fyrir eigin reikning vita við Dalatanga milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar, auk þess sem hann keypti skip til þess að sigla upp Lagarfljót og kostaði til þess mikilli fyrirhöfn og fé, til þess að bæta flutninga ofan af héraði og niður á firði.

Thor Jensen, er þó sá þessara tveggja, sem þekktari er samtímanum. Hann fæddist 1863 og kom hingað til lands til verslunarstarfa og bláfátækur, en kom undir sig fótunum og stofnaði eigin verslun á Akranesi. Rekstur hans þar varð þó endaslepptur og varð hann að lokum gjaldþrota. Hann kom þá aftur undir sig fótunum, en komst aftur síðar í greiðsluþrot. Athafnaþráin var hins vegar sterk og áður en yfir lauk átti hann stærsta útgerðarfélag landsins Kveldúlf, Haffjarðará og landareignir á Snæfellsnesi og Korpúlfsstaði þar sem hann byggði upp bú af slíkri stærðargráðu og myndugleik að vart hefur það verið endurtekið síðan. En minnast má hans einnig vegna þáttar hans í stofnun Eimskipafélags Íslands, en hann var fyrsti formaður undirbúningsstjórnar félagsins og stuðnings hans við fátæka Reykvíkinga á erfiðum tímum, meðal annars með stofnun eldhúss, sem framreiddi ókeypis máltíðir, meðan Spænska veikin herjaði á Reykjavíkinga, fullveldisárið 1918.

Báðir þessir menn komu til Íslands sem innflytjendur, annar vel efnum búinn en hinn blásnauður. Báðir urðu þeir hins vegar dugandi menn á sínum samtíma og mörkuðu hann rækilega í harðfenni 19. og 20. aldar.

Í aðdraganda kosninga til alþingis í vor hefur Frjálslyndi flokkurinn gert málefni innflytjenda að kosningamáli sínu, ásamt breytingum á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Segir í stjórnmálaályktun flokksins um innflytjendur að yfirvöld verði að takmarka flæði innflytjenda til landsins og öllum, sem sæki um dvalarleyfi, beri að skuldbinda sig til þess að hlíta íslenskum lögum og stjórnarskrá. Um sjávarútvegsstefnu segir meðal annars að eðlileg nýliðun þurfi að eiga sér stað í sjávarútvegi þannig að framtak dugmikilla einstaklinga fái notið sín.

Allrar athygli verður er reyndar sá hluti ályktunar, sem kveður á um að dvalarleyfishafar skulu skuldbinda sig til þess að hlíta íslenskum lögum og stjórnarskrá, að teknu tilliti til þess að ákvæði stjórnarskrár og íslenskra laga taka til allra sem á yfirráðasvæði ríksins eru. En ef til vill er það bæði skynsamlegt og nauðsynlegt að þeir sem fái dvalarleyfi skuldbindi sig sérstaklega til þess að hlíta ákvæði laga, enda væri hægt að útvíkka þessa meginreglu þannig að íslenskir ríkisborgarar, þyrftu á einhverju ákveðnu tímamarki, einnig að skuldbinda sig til þess sama.

Það er hins vegar sorglegt til þess að vita að dugmiklum einstaklingum- Wathneum og Jensenum nútímans, sem setjast vilja að hér á landi, er ekki endilega tryggður aðgögnumiði að útópíu Frjálslyndra, komist þeir til valda. Flæði innflytjenda þarf enda að takmarka með valdboði.

Thor Jensen og Otto Wathne hösluðu sér báðir völl í sjávarútvegi og gerðu út á íslensk mið, enda dugmiklir einstaklingar. Fyrir slíka erlenda dugmikla einstaklinga mun sjávarútvegsstefna Frjálslynda flokksins ekki gilda þegar flokkurinn kemst til valda, þar sem þeim verður trauðla boðið til sigurfagnaðar að loknum kosningum!

Latest posts by Ari Karlsson (see all)

Ari Karlsson skrifar

Ari hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2005.