Lán í láni

LÍN er besti vinur námsmannsins en hversu langt á sjóðurinn að ganga í að styrkja námsmenn og hvernig er best að hátta þeim stuðningi?

Í flestum hagfræðilíkönum eru neytendur eigingjarnir nytjahámarkarar eins og fram hefur komið hér á Deiglunni. Einn eiginleiki neytendanna er það að sveiflur í neyslu skila þeim minni hamingju og því reyna þeir að jafna neyslu yfir tíma. Þetta gera þeir með því að taka lán á meðan þeir eiga lítið, greiða síðan upp lánið eftir því sem þeir vinna sér inn, safna síðan fyrir og ganga í lokin á sparnaðinn.

Í raunveruleikanum gera neytendur þetta að einhverju leyti en þó ekki í sama mæli og í hinum útópísku líkönum. Það sem helst kemur í veg fyrir þessa neyslujöfnun er óvissa um framtíðartekjur og svo aðgangur að lánsfé. Það er nefnilega þannig að þeir sem eiga ekki neitt eru ekki heppilegir skuldarar en íslenskir námsmenn eru svo heppnir að geta leitað til Lánasjóðs íslenskra námsmanna sem lánar öllum nemum, ríkum sem blönkum.

LÍN veitir námsmönnum sannkölluð draumalán. Frá því að lánið er tekið ber það enga vexti fyrr en eftir að námi lýkur en eftir það leggjast á það 1% vextir á ári. Reyndar fylgir lánið vísitölu neysluverðs en lánið er þó víðs fjarri markaðsvöxtum og greiðir ríkið í raun um 4-5% með láninu á ári. Það er svo ekki fyrr en tveimur árum eftir að námsmaðurinn útskrifast að hann þarf að fara að greiða af láninu. Þá taka við greiðslur sem eru 3,75% hlutfall af tekjum og eru því algjörlega óháðar lánsupphæðinni. Fyrir þá sem hafa frekar lág laun miðað við lánsfjárhæð þurfa þeir því aldrei að greiða allt lánið til baka. Af ofansögðu er augljóst að ríkið ber þó nokkurn kostnað af LÍN.

Á landsfundi Samfylkingarinnar (sem var einkar glæsilegur eins og landsfundir virðast almennt vera) var samþykkt stjórnmálaályktun þar sem meðal annars kom fram að breyta skyldi 30% námslána í styrk. Þetta er hægt að útfæra á tvennan hátt:

1) Annars vegar væri hægt að lækka heildarlánsfjárhæðina sem endurgreiða þarf en halda sömu greiðslubyrði sem hlutfalli af tekjum. Það myndi þýða að þeir sem endurgreiða lán sín myndu gera það eitthvað fyrr. Fyrir þá sem ekki ná að endurgreiða lán sín myndi þetta engu máli skipta. Þessi leið myndi því aðallega gagnast hinum tekjuhærri.

2) Hin leiðin væri að minnka greiðslubyrðina um 30% af núverandi greiðslubyrði eða um rúmt prósent. Slíkt myndi þýða að allir myndu greiða jafnlengi lán sín og áður en hafa þá þessu prósenti meira milli handanna á mánuði hverjum. Þessi leið yrði augljóslega kostnaðarsamari en sú fyrri.

Í báðum tilfellunum er verið að flytja peninga til menntaðra og þar með almennt til tekjuhárra. Þetta er því skattlagning til þess að styrkja tekjuháa sem er að auðvitað óæskilegt að ríkið standi fyrir nema þetta veiti fleirum tækifæri eða hvetji fólk til að mennta sig.

Hvatinn af fyrri leiðinni felst hins vegar í því að lántakandinn sleppur við að halda áfram að borga þegar hann er búinn að endurgreiða 70% af lánsfjárhæðinni. Það gerist ekki fyrr en kannski 10-30 árum frá því að hann ákveður að fara í nám. Það má vera ansi framsýnn einstaklingur sem tekur ákvörðun um að fara í nám eða ekki á grundvelli þess hvort hann þurfi að greiða 3,75% af launum sínum 20 árum síðar!

Í seinni leiðinni felst hvatinn í því að lántakandinn hefur um 1% meira af tekjum sínum milli handanna frá því að endurgreiðsla á lánunum hefst. Það er ekki útilokað að slíkt gæti haft áhrif en það virkar samt hæpið að það sé kornið sem fyllir mælinn.

Höfundur telur að mesti raunverulegi hvatinn sé sá sem fylgir því að lántakandinn hugsi með sér að hann sé að græða ofsalega ef hann fær 30% lánsins í styrk. Slíkt fólk þarf bara að finna og öskra upp í eyrað á því að það sé að fá ókeypis nám og hræódýr lán.

Ef ríkisvaldið telur að ekki sé nægilegur hvati fyrir Íslendinga að fara í nám og ástæða sé til að auka styrki til námsmanna í gegnum LÍN væri líklegast best að hækka frekar grunnframfærsluna. Mun líklegra er að fólk hrekist frá námi ef það nær ekki endum saman á meðan á náminu stendur en að það óttist að borga brot af launum sínum í fjarlægri framtíð. Þannig nær neytandinn líka að jafna neyslu sína betur yfir tíma og líkist meira kollega sínum í hagfræðimódelinu, sem er auðvitað hið besta mál.

Hvað sem úr verður mega íslenskir námsmenn þakka fyrir að eiga LÍN að og vonandi muna allir eftir sjóðnum í bænum sínum. Sjálfur ætla ég að halda áfram að læra svo ég nái nú prófunum og fái næsta skammt af niðurgreiddu námsmannaláni.